Á þessum árum voru krakkar gjarnan áskrifendur að barnablaðinu ABC<em> </em>sem ég skipti út fyrir Fiskifréttir, segir Gísli Reynisson hér í viðtalinu um áhuga sinn á sjávarútvegi.
Á þessum árum voru krakkar gjarnan áskrifendur að barnablaðinu ABC sem ég skipti út fyrir Fiskifréttir, segir Gísli Reynisson hér í viðtalinu um áhuga sinn á sjávarútvegi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tölur úr sjávarútveginum geta sagt mikla sögu,“ segir Gísli Reynisson í Sandgerði. Tæp sautján ár eru síðan hann setti í loftið vefinn aflafrettir.is sem margir skoða daglega og afla sér þar upplýsinga um hvernig kaupin gerast á eyrinni í orðsins fyllstu merkingu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Tölur úr sjávarútveginum geta sagt mikla sögu,“ segir Gísli Reynisson í Sandgerði. Tæp sautján ár eru síðan hann setti í loftið vefinn aflafrettir.is sem margir skoða daglega og afla sér þar upplýsinga um hvernig kaupin gerast á eyrinni í orðsins fyllstu merkingu. Að stórum hluta er sjávarútvegurinn undirstaða bærilegra lífskjara á Íslandi og miklu skiptir að vel veiðist, rétt eins og að hráefnið sé vel nýtt til verðmæta. Þetta þekkir fólk í sjávarbyggðum vel og þetta er líka sá veruleiki sem Gísli Reynisson kynntist í uppvexti sínum í Sandgerði.

Ólst upp á bryggjunni

„Ég fór ungur að fylgjast með útgerðinni og hvað karlarnir veiddu. Ólst upp á bryggjunni, ef þannig má segja,” segir Gísli. Hann starfar sem rútubílstjóri og er með nafnskilti sitt í framrúðunni á rútunni þar sem undir nafninu hans stendur aflafrettir.is . Er þó alltaf með tölvuna við höndina og skrifar oft aflapistla þegar hann er kominn á hótel á ferðum sínum um landið.

Gísli fylgdist sem strákur vel með frænda sínum, Þorgeiri heitnum Guðmundssyni, sem átti og reri á Hlýra GK úr Sandgerði. Á þeim tíma var mikið um að vera í Sandgerði og mjög margir bátar lönduðu þar á hverjum degi, stundum yfir 100 bátar á dag, og 1987, þegar Gísli var tólf ára, gerðist hann áskrifandi að Fiskifréttum.

„Á þessum árum voru krakkar gjarnan áskrifendur að ABC sem ég skipti út fyrir Fiskifréttir. Mér var seinna sagt að enginn hefði gerðst svo ungur áskrifandi að blaðinu, sem varð mér alveg ómissandi,“ segir Gísli. Hann fór svo fljótlega að reikna upp úr tölunum í Fiskifréttum. Upp úr aldamótunum fór Gísli að sjá um aflalista og vertíðaruppgjör en slíkar greinar skrifaði Gísli frá 2005 til 2017. Í seinni tíð hefur hann sjálfur gefið út uppgjörsskýrslurnar.

Þegar Gísli fór fyrst að skrifa vertíðaruppgjörin í Fiskifréttir birti hann til samanburðar upplýsingar um vertíðina 1955; það er hálfri öld fyrr. Og nú, eftir vertíðina 2024, er hann að gefa út uppgjör þess tíma sem og til samanburðar tölur vertíðanna 1974 og 1994. Einnig upplýsingar um afla loðnuskipa og togara þessi ár.

Mikill fjársjóður og milljónir skjala

Segja má að skrif Gísla fyrir Fiskifrettir hafi verið byrjun á því sem síðar varð. Hann las margra árganga af Ægi, blaði Fiskifélags Íslands, og fór síðan á Þjóðskjalasafn. Fór þar yfir upprunalegar aflaskýrslur aftur til ársins 1894.

„Ég ljósritaði um 1.000 blaðsíður úr Ægi og grúskaði í þessu fram og til baka. Þar rak ég mig fljótt á mikil göt sem voru í aflatölum hvers árs. Skýrslur um einstaka báta var ekki að finna þar og ég hef verið núna í því í um 30 ár að safna tölunum um alla íslenska báta sem hafa verið gerðir út. Að fara í skýrslurnar sem eru á Þjóðskjalasafninu, þar er mikill fjársjóður. Þar eru hátt í sex milljónir skjala með aflatölum.“

Vefir Gísla Reynissonar eru tveir; annars vegar aflafrettir.is sem er á íslensku, og síðan aflafrettir.com. Í síðarnefndu útgáfunni sem er á ensku er sjónum beimt að veiðum í Noregi, en Gísli hefur aðgang að upplýsingum þaðan úr landi og frá Færeyjum. Fregnum er svo skipt upp í flokka, til dæmis eftir því hvert veiðarfærið er, til dæmis botnvarpa eða dragnót. Smábátar að 13 brúttótonnum eru í einum flokki og að 21 í þeim næsta. Einnig eru flokkar með rækjubátum, togurum, uppsjávarskipum og svo mætti áfram telja. Þá eru afla grásleppubáta gerð skil og eins handfærabátanna. Allt er þetta samkvæmt upplýsingum sem koma frá Fiskistofu og eru svo unnar til birtingar á vefnum aflafrettir.is.

„Ég fæ oft skilaboð frá sjómönnum eða öðrum sem til þekkja. Ekki bara á Íslandi heldur líka sjómönnum og skipstjórum í Noregi, en það sem ég er að segja frá varðandi bátana í Noregi er eitthvað sem enginn hefur gert áður þar. Áhugi margra á þessum málum er mikill. Aflatölur eru annars þannig að þær má nálgast út frá ýmsum vinklum og setja hlutina í fjölbreytt samhengi,“ tiltekur Gísli. Áhugavert sé til dæmis að fylgjast með vertíðarbátunum og hvernig fiskist á þá.

Vetrarvertíð er breytt

Vegna þess hversu stór gagnagrunnurinn er orðinn sem Gísli á, þá fór hann að fylgjast vel með vertíðunum og á skrá um vertíðir aftur til ársins 1944. Snemma setti hann sér viðmiðið um 400 tonnin, sem þýðir að ef bátur veiðir yfir fyrrgreinda tölu á vertíð þá kemst hann á lista. Þannig er hægt að sjá samanburð á milli vertíða og ára.

Árið 1956 fiskuðu 400 yfir 400 tonn á vetrarvertíð, en í fyrra náðu aðeins 77 yfir þann múr. Þá verður líka að halda til haga að vetrarvertíðin nú er með allt öðum brag en var og stjórnast af kvótatímabilinu. Bátum sem gerðir voru út á net og voru algengir á vertíðum forðum hefur líka fækkað mikið. Til dæmis eru engir slíkir lengir gerðir út frá Grindavík og Þorlákshöfn. Í Vestmannaeyjum var í vetur aðeins einn bátur á netum, það er Kap VE sem Vinnslustöðin gerir út. Á Höfn í Hornafirði er einn netabátur, Sigurður Ólafsson SF.

„Kjarni málsins er sá að kvótinn færist á sífellt færri hendur og einstaklingsútgerðir eru meira og minna horfnar,“ segir Gísli Reynisson. Einkaaðila í útgerð sé í dag helst að finna í Snæfellsbæ; fyrirtækin sem eiga til dæmis bátana Gunnar Bjarnason SH, Ólaf Bjarnason SH, Matthías SH og Guðmund Jensson SH svo nokkrir séu nefndir.

Merkilegt að kvóti sé ekki aukinn

„Aflabrögð nú í vetur voru ævintýraleg,“ segir Gísli Reynisson. Nefnir þar meðal annars línubátinn Daðey GK sem Vísir hf. gerir út og reri frá Sandgerði. Á línunni voru 16 þúsund krókar og dag einn í vetur fiskuðust 29 tonn, svo þrílanda þurfti.

„Fiskmagn í sjónum við landið, t.d. þorskurinn, er mikið. Þess vegna er merkilegt að kvótinn sé ekki aukinn og enn og aftur vakna ýmsar og sjálfsagðar spurningar um aðferðafræðina sem Hafrannsóknastofnun hefur og starfar eftir í vísindum og veiðiráðgjöf.“