Verðlaunahafar. Fjórir efstu á Meistaramóti Skákskóla Íslands sem lauk um síðustu helgi, f.v.: Ingvar Wu Skarphéðinsson, Benedikt Þórisson, Gunnar Erik Guðmundsson og Birkir Hallmundarson. Ingvar Wu og Benedikt hlutu 7½ af 9 en Ingvar telst sigurvegari eftir stigaútreikning.
Verðlaunahafar. Fjórir efstu á Meistaramóti Skákskóla Íslands sem lauk um síðustu helgi, f.v.: Ingvar Wu Skarphéðinsson, Benedikt Þórisson, Gunnar Erik Guðmundsson og Birkir Hallmundarson. Ingvar Wu og Benedikt hlutu 7½ af 9 en Ingvar telst sigurvegari eftir stigaútreikning.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tímamörk, hvort heldur sem er í kappskákum, atskákum eða hraðskákum, hafa mörg undanfarin ár tekið ýmsum breytingum og sýnist sitt hverjum í þeim efnum. Fyrir Reykjavik rapid, sem haldið var í mars 2004 með þátttöku Kasparovs og Karpovs og, eins og…

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Tímamörk, hvort heldur sem er í kappskákum, atskákum eða hraðskákum, hafa mörg undanfarin ár tekið ýmsum breytingum og sýnist sitt hverjum í þeim efnum. Fyrir Reykjavik rapid, sem haldið var í mars 2004 með þátttöku Kasparovs og Karpovs og, eins og frægt varð, hins 13 ára gamla Magnúsar Carlsens, átti greinarhöfundur í samningum við Kasparov um heppilegt tímafyrirkomulag fyrir hraðskákþátt mótsins, „tímatökuna“ sem svo var nefnd: úrslitin þar ákvörðuðu „rásnúmer“ keppendanna 16 sem síðar tefldu atskákirnar eftir Wimbledon-kerfinu svonefnda nr. 1 gegn 16, 2 gegn 15 o.s.frv. Kasparov var fylgjandi 5 3 Bronstein, sem hamlar uppsöfnun tíma en leyfir alltaf þriggja sekúndna umhugsun. Á HM í hraðskák eru tímamörkin 3 2. Það er örugglega ágætt tímafyrirkomulag fyrir atvinnumenn en reynslan er sú að mót hér á landi með þessum tímamörkum verða allsherjar klukkbarningur og þeir CAD-bræður, Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson, virðast vera á þeirri skoðun að innihald skipti máli. Þess vegna bættu þeir mínútu við í keppninni um Wessman One-bikarinn á Cernin-vínbar um síðustu helgi þar sem boðið var upp á beinar útsendingar og góðar og nútímalegar aðstæður. 4 2 má líta á sem sátt á milli svipaðs tímafyrirkomulags og þess sem Garrí kallinn var svo hrifinn af. Og er þarna er kannski komið einhvers konar „kynslóðajafnrétti“, hvorki meira né minna! Eftir að hafa skoðað helstu viðureignir mótsins var niðurstaða mín að gæði skáka stóraukast.

Úrslit mótsins urðu að fjórir efstu af 11 keppendum komust áfram og eftir útsláttareinvígi stóð greinarhöfundur uppi sem sigurvegari eftir að hafa lagt Jóhann Hjartarson að velli í undanúrslitum, 2½:½, og síðan Magnús Örn Úlfarsson, 2:0.

Magnús Örn kom sennilega mest á óvart með frábærri frammistöðu. Hann vann t.d. Hjörvar Stein Grétarsson í undanúrslitum, 2:1.

Eftir mótið velti ég fyrir mér skák sem við Jóhann tefldum í undankeppninni. Lengi vel hélt ég að hún væri hroðin mistökum beggja en svo lagði ég viðureignina undir mat „vélanna“ og niðurstaðan var sú að gæðin voru furðumikil þó að baráttan væri afar flókin lengst af. Setjum upp stöðuna eftir 32. leik hvíts:

Wessman One-bikarinn 2024; 10. umferð undanrása:

- Sjá stöðumynd 1 -

Jóhann Hjartarson – Helgi Ólafsson

Hrókur svarts er í uppnámi og einnig f7-peðið. Er ekki eðlilegast að leika 32. … Be6?

32. … d3!?

Nei! Gott var einnig 32. … Ba6.

33. Haf1! Bxh3! 34. Bxd3 Be6 35. e5 Hb4 36. Dg3 Hd8

Hér var 36. … Hg4 ásamt – Bd5 enn betra og svartur stendur til vinnings.

37. Hf6 Hbd4

38. Bxg6?

Of veiðibráður. Jóhann missti af frábærum leik, 38. Bc4!

38. … Hg4!

Krókur á móti bragði. Nú er vandi hvíts mikill en Jóhann fann …

39. Dxg4! Bxg4 40. Bxf7+ Kh8?

Ónákvæmni. Eftir 40. … Kh7! stendur svartur til vinnings, t.d. 41. e6 Hd1! og vinnur. Hótunin er 42. … Dxf6.

41. e6 Df8

41. … Hd2! hefði ennþá unnið en nú spilar Jóhann út síðasta trompinu …

42. e7! Dxe7 43. Hxh6+ Kg7 44. Hg6+ Kh7 45. Hxg4 Hd4!

Þessum leik fylgdi jafnteflisboð sem Jóhann þáði. „Vélarnar“ meta stöðuna hnífjafna eftir 46. Hxd4 De3+ og því var rétt að slíðra sverðin eftir allar sviptingarnar.