Frammistaða íslenska liðsins var með besta móti heilt yfir. Flestir áttu góðan leik og unnu sig vel út úr þeim erfiðleikum og svekkelsi sem fylgdi því að lenda undir þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður

Frammistaða íslenska liðsins var með besta móti heilt yfir. Flestir áttu góðan leik og unnu sig vel út úr þeim erfiðleikum og svekkelsi sem fylgdi því að lenda undir þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður.

Liðið skapaði sér mikinn fjölda færa, bæði úr opnum leik og eftir föst leikatriði, og er það góðs viti fyrir næsta leik gegn sömu mótherjum á heimavelli á þriðjudag. Austurríki var ögn sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en þrátt fyrir það fékk Ísland fjölda góðra færa og hefði með réttu átt að jafna metin í honum.

Enn vantar aðeins upp á að takast að skora úr opnum leik en miðað við hversu reglulega Íslandi tókst að opna lið Austurríkis í gær hlýtur það einungis að vera tímaspursmál hvenær fleiri mörk koma úr opnum leik.

Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði var sem klettur í vörn Íslands sem fyrr og skoraði af gífurlegu öryggi úr vítaspyrnu. Ingibjörg Sigurðardóttir var geysilega örugg henni við hlið auk þess sem Guðrún Arnardóttir, sem fékk tvö mjög góð færi, stóð vel fyrir sínu.

Sveindís Jane ógnaði sífellt, ekki bara með hraða sínum og krafti, heldur stórhættulegum löngum innköstum en hefði eins og nokkrir samherjar hennar hæglega getað skorað í leiknum.

Föst leikatriði Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, þá sérstaklega hornspyrnur, voru stórhættulegar og hefðu með smá herslumun getað leitt til marks eða fleiri.