Fjólublái varúlfurinn „Við erum svolítið að sýna fram á það hvernig ópera árið 2024 gæti í raun litið út,“ segir Diana.
Fjólublái varúlfurinn „Við erum svolítið að sýna fram á það hvernig ópera árið 2024 gæti í raun litið út,“ segir Diana. — Ljósmynd/Sandijs Ruluks
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
POPera er heitið á margmiðlunarlistaverki sem máir út mörkin milli tónleika og gjörningalistar en höfundar þess eru þau Diana Burkot, trommuleikari Pussy Riot, og fjöllistamaðurinn Michael Richardt

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

POPera er heitið á margmiðlunarlistaverki sem máir út mörkin milli tónleika og gjörningalistar en höfundar þess eru þau Diana Burkot, trommuleikari Pussy Riot, og fjöllistamaðurinn Michael Richardt. Verkið, sem fram fer á ensku, er einnig táknmálstúlkað af Margréti Auði Jóhannesdóttur en það verður sýnt þann 7. júní klukkan 20.30 í Iðnó og er hluti af dagskrá Lista­hátíðar í Reykjavík.

„Þetta er samstarfsverkefni okkar Michaels en auk þess erum við með klassíska hljóðfæraleikara með okkur, sem spila að mestu brass. Nafnið á verkefninu, POPera, segir líka ansi mikið um verkið sjálft. Við erum svolítið að sýna fram á það hvernig ópera árið 2024 gæti í raun litið út,“ segir Diana sem einnig er pródúsent, tónskáld, tónlistarflytjandi, plötusnúður, listakona, aktívisti og vídeólistakona. „POPera er saga um fjólubláan varúlf og tekur meðal annars á því hvernig hægt er að vinna með áföll. Ég trúi því að ef fólk leitar sér aðstoðar vegna andlegrar heilsu þá verði allir glaðari því vandamálunum fækkar. Samskipti milli fólks geta nefnilega verið svo flókin, milli vina, samstarfsfélaga eða innan fjölskyldunnar. Allt frá litlum ágreiningi til enn stærri vandamála,“ bætir hún við.

Smullu strax saman

Diana og Michael hittust fyrst í Listaháskólanum í Reykjavík þar sem þau stunduðu bæði nám á kvöldin en POPera er fyrsta samstarfsverkefni þeirra.

„Í upphafi kynntumst við og ­urðum vinir en fljótt áttuðum við okkur á því að okkur langaði að gera eitthvað saman. Við ræddum mikið um hvað við gætum gert svo ég samdi tónlist og sýndi honum og hann fór þá að semja texta við lögin. Hlutverk mitt í þessu verki snýst því að mestu um að semja en ég tek svolítið kaótískan og listrænan huga Michaels og reyni að setja hann í tónlistina. Michael er því eins og röddin, mjög persónulegt hljóðfæri, sem semur textana en ég sé um tónlistina.“

Dreymdi um að búa á Íslandi

Diana leigir íbúð í Reykjavík og hefur sest að hér á landi en það hafði verið draumur hennar lengi.

„Ísland hefur alltaf verið eins og land drauma minna. Þegar ég var unglingur varð ég fyrir miklum áhrifum frá íslenskri tónlist eins og MÚM, Sigur Rós og auðvitað Björk. Fyrir mér var þetta eins og einhver töfratónlist frá mjög áhugaverðu landi,“ segir hún og bætir því við að hún hafi sagt skilið við líf sitt í Rússlandi þegar stríðið braust út, meðal annars vegna þess að hún er aktívisti í bandinu Pussy Riot.

„Það fór að verða of hættulegt að vera aktívisti í Rússlandi svo við fórum að túra um allan heim. Ég hafði því komið nokkrum sinnum til Íslands en Ragnar Kjartansson hjálpaði okkur mikið. Ég komst að því þegar ég var að túra svona mikið að mér líkaði einstaklega vel við ­Ísland og langaði því að minnsta kosti að reyna að búa hér.“

Þeytir skífum eftir sýninguna

Að sýningu lokinni mun Diana þeyta skífum en hún er einnig þekkt sem Rosemary loves a blackberry sem er sólóverkefni hennar.

„Þetta verkefni snýst mikið um aktívisma og ég get leyft mér að fara listræna leið án þess að þurfa að vera með mjög pólitískar yfirlýsingar. Þetta er mjög mikilvægt form fyrir mig því starf plötusnúðsins er ekki einungis að spila tónlist heldur er þetta listræn sköpun líka. Mig langar að búa til smá gleði og stuð. Í POPera er mikil gleði en líka ansi mikið af upplýsingum sem þarf að melta. Þannig að ég held að eftir það sé yndislegt að ná smá jafnvægi og hafa gaman, jafnvel dansa.“

Þá segir Diana æfingar hafa gengið mjög vel og alla spennta fyrir sýningunni sjálfri. „Það er alveg nýtt fyrir mér að gera svona óperu en ég hef hingað til meira unnið með raftónlist. Að vinna með klassíkina er allt öðruvísi og mikil áskorun fyrir mig en ég fæ mikinn innblástur frá þessum flinku hljóðfæraleikurum.“ Nefnir hún í kjölfarið að hópurinn sem standi að verkefninu sé hreint út sagt æðislegur.

„Án þessa frábæra tónlistarfólks hefði verkefnið ekki verið mögulegt. Mig langar að fá að nefna þau sérstaklega en hljómsveitarstjórinn er Sigurður Halldórsson og hljóðmaður er Vyacheslev Kasyanov. Berglind María Tómasdóttir spilar á flautu og Snorri Heimisson á flautu og fagott. Þá leika þeir Steinar Kristinsson og Jón Hafsteinn Guðmundsson á trompet, Sara Rós Hulda Róbertsdóttir spilar á franskt horn, Svava Freysdóttir á básúnu og Daníel Birkir Snorrason á túbu.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir