Albert Páll Albertsson með dótturinni Freyju Dagnýju og syninum Albert Dór. Hann segist enn á batavegi eftir slysið 2022 þar sem hann lenti útbyrðis og segir fjölskylduna hafa verið mikilvæga í bataferlinu.
Albert Páll Albertsson með dótturinni Freyju Dagnýju og syninum Albert Dór. Hann segist enn á batavegi eftir slysið 2022 þar sem hann lenti útbyrðis og segir fjölskylduna hafa verið mikilvæga í bataferlinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er enginn vafi að átakanlegt er að lenda útbyrðis illa meiddur á Íslandsmiðum. Spurður hvernig hafi gengið á bataveginum frá slysinu veturinn 2022 svarar Albert Páll: „Útgerðin hjálpaði mér mikið í byrjun og ég fékk áfallahjálp á vegum þeirra

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Það er enginn vafi að átakanlegt er að lenda útbyrðis illa meiddur á Íslandsmiðum. Spurður hvernig hafi gengið á bataveginum frá slysinu veturinn 2022 svarar Albert Páll: „Útgerðin hjálpaði mér mikið í byrjun og ég fékk áfallahjálp á vegum þeirra.

Ég var á bráðamóttökunni í Fossvogi til að byrja með en var svo færður upp á Skaga að minni ósk. Ég þurfti að bíða í tvær vikur eftir aðgerð á ökklanum vegna þess hve illa þetta leit út. Eftir aðgerð var ég svo fastagestur á bæklunardeildinni Fossvogi, aðallega vegna mjúkvefjaáverka sem ég hlaut og áverkarnir áttu erfitt með að gróa. Fjölskyldan var ómetanleg að skutla mér og koma mér á milli.“

Hann segist hafa hitt sérfræðing sem veitti honum áfallahjálp í nokkur skipti strax eftir slysið. „Mér fannst ekki mikil þörf á því til að byrja með en áttaði mig kannski ekki alveg á því hvað ég þurfti mikið á þessu að halda. Með tímanum hrynur þetta yfir mann hægt og bítandi. Þá fer ég í meðferð fyrir áfallastreituröskun og það var fjölskyldan mín sem hjálpaði mér að fá þá aðstoð, en mínir nánustu tóku eftir því hversu mikil áhrif þetta var farið að hafa á mig.“

Er mikilvægt að sjómenn séu almennt opnir fyrir slíkri hjálp standi hún til boða?

„Alveg klárlega, það er alveg nauðsynlegt. Líka fyrir áhöfnina, þetta var líka áfall fyrir vinnufélagana. Þeir hefðu kannski þurft að eiga möguleika á að hitta sérfræðing einir, en þeir hittu hann einu sinni í hóp. Þeir hafa sumir nefnt við mig að þeim hafi kannski ekki fundist það nóg.“

Enn á batavegi

Albert Páll segist enn á batavegi tveimur árum eftir slysið. „Ég var alveg svolítið laskaður og er það smá enn þá, ég er enn að hitta sjúkraþjálfara vikulega. Ég var til að byrja með uppi á Skaga og hitti þar toppmann sem hefur mikinn metnað fyrir sínu starfi og hjálpaði mér mikið og leiðbeindi mér. Því miður veiktist hann og ég er núna hjá öðrum í bænum. Hann er alls ekki verri og hefur hjálpað mér mikið.“

Finnst þér fólk almennt átta sig á hættunni sem sjómenn leggja á sig í hvert sinn sem þeir leggja frá bryggju?

„Kannski fólk sem tengist þessu á einhvern hátt, en almenningur úti í bæ gerir sér ekki alveg grein fyrir því. Eðlilega kannski, þau átta sig ekkert á hvernig er að vera á sjó, hvernig veiðarfæri virka og annað. Ég hef fengið alls konar furðulegar spurningar út í slysið.“

Gefandi starf

Það er bjart yfir okkar manni, sem lætur ekki deigan síga og hóf hann nýverið störf í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands. Hann segir vinnuna mjög gefandi og kveðst þakklátur fyrir starfið. „Það gefur mér mikið að geta reynt að hjálpa öðrum einstaklingum í erfiðri stöðu á sjó og landi ef ég get.“

Spurður hvort reynslan af slysinu nýtist í starfið svarar hann því hikandi. „Jájá. Ég held að reynslan nýtist manni alveg, en ef eitthvað kemur upp á snertir það mann kannski líka eitthvað frekar.“

Þá segist hann stoltur af því að starfa hjá Landhelgisgæslunni. „Þarna er ótrúlega flott fólk sem íslenskir sjómenn ættu að vera þakklátir fyrir. Mætti gera meira úr starfinu þeirra.“

Stækkandi fjölskylda

Þegar Morgunblaðið ræddi við Albert Pál í kjölfar slyssins sagði hann ekki geta hugsað sér að fara á sjó aftur. Hann segir ekkert hafa breyst í þeim efnum.

„Nei. Mig langar ekkert til þess, en það er samt eitthvað sem togar í mann að vera í kringum þetta. Það er eitthvað við þetta sem grípur mann. Ég get samt ekki hugsað mér að fara á sjó og fjölskyldan getur líklega ekki hugsað sér heldur að ég fari aftur á sjó.“

Fjölskyldan er í lykilhlutverki í lífi Alberts Páls og hefur hún farið stækkandi. Eignaðist hann ásamt Emilíu Halldórsdóttur annað barn sitt í september síðastliðnum, hana Freyju Dagnýju, en fyrir eiga þau Albert Dór. „Þessi lífsreynsla hefur breytt viðhorfi mínu til lífsins. Hvað þá hvað raunverulega skiptir mann máli og hvað þakklæti er manni ofarlega í huga.“

Hélt að hann myndi deyja

„Ég hélt að ég væri bara að fara að deyja,“ sagði Albert Páll í samtali við Morgunblaðið 14. apríl 2022 er hann var spurður hvernig honum leið er svonefnd fallhlíf á loðnunótinni dró hann skyndilega með sér af Víkingi AK út í sjó 20. mars.

Kvaðst hann hafa verið að sinna hefðbundnum verkefnum. „Maður passar sig alltaf að flækjast ekki í þetta en einhvern veginn gerðist það, ég veit ekki hvernig. Ég sé bara allt í einu að fóturinn er kominn í einn hring og ég næ ekki að losa mig.“

Hann féll fyrir borð þegar skipið var á loðnuveiðum úti fyrir Sandvík, en þar var einnig fjöldi annarra skipa að eltast við loðnuna á lokaspretti vertíðarinnar. Áhöfninni á færeysku skipi sem var nálægt tókst, eftir nokkrar tilraunir, að kasta björgunarhring til Alberts Páls og voru félagar hans á Víkingi AK eftir skamma stund mættir á léttabát og náðu honum um borð.

Albert Páll segir að tilhugsunin um að ungur sonur hans yrði föðurlaus hafi veitt sér kraft til að komast lífs af. „Ég næ að losa stígvélið þegar ég er í sjónum. Um leið og það losnar kemur einhver kraftur, ég hugsaði bara að ég væri ekki að fara að láta son minn verða föðurlausan og ég væri að fara að bjargast.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson