— Morgunblaðið/Eggert
Þá er kjördagur runninn upp og það þýðir einnig að drjúgur hópur hefur þegar kosið utan kjörfundar, svo að mikill „vilji kjósenda“ liggur þegar fyrir í læstum kössum, og þótt einhverjir kunni að fá bakþanka verða greidd atkvæði ekki auðveldlega aftur tekin.

Þá er kjördagur runninn upp og það þýðir einnig að drjúgur hópur hefur þegar kosið utan kjörfundar, svo að mikill „vilji kjósenda“ liggur þegar fyrir í læstum kössum, og þótt einhverjir kunni að fá bakþanka verða greidd atkvæði ekki auðveldlega aftur tekin.

Það er að vísu hægt með því að mæta á kjörfund á kjördeginum sjálfum, því að borið er saman við talningu merking á kjördegi og utankjörfundaratkvæði, og stefni þar í tvö atkvæði fyrir eitt, þá er atkvæðið sem greitt var utan kjörfundar tekið til hliðar og það eyðilagt óopnað. En slík atkvæði geta aldrei orðið mörg, því að menn hafa oftast nær ríkulegar ástæður fyrir því að kjósa utan kjörfundar, en oftast er það vegna væntanlegrar fjarveru á kjördag, enda eru utankjörfundaratkvæði dálítið tímafrekt vesen, sem menn gera ekki að gamni sínu. Frambjóðendur mæta að þessu sinni óvenjufjölmennir til leiks og hefur það einhverja kosti en óneitanlega eru gallarnir fleiri, því þá verður óhjákvæmilegt fyrir fjölmiðla að einbeita sér að þeim frambjóðendum sem hafa töluvert fylgi. Væri hópurinn minni væri hægt að hafa flesta eða jafnvel alla með í sameiginlegri umfjöllun. Reglur um meðmælendur virka ekki til fulls. Það kom í ljós núna, þegar slíkur frestur var að renna út. Þó er það svo, að „tæknin“ auðveldar mönnum aðgengi að undirskriftum meðmælenda. En vera má að ekki sé skynsamlegt að gera slíkt of létt.

Stutt er í kosningar á Bretlandi

Það vakti nokkra athygli þegar smáflokkar hér á landi, sem ekki fengu mann kjörinn, höfðu þó tugi milljóna króna upp úr krafsinu í sinn hlut, fyrir það eitt að ná ekki kjöri í kosningunum, en fengu þó 2,5% atkvæða eða meira, og fá slíkar summur til loka kjörtímabilsins fyrir ekkert. Hagfræðingur sem var í framboði, en náði ekki slíku fylgissmælki á Íslandi, sagðist vilja fá að „námunda fylgi sitt upp“ svo að plata mætti svo yfirgengilega reglu enn þá meira.

Á Bretlandi eru einstaklingar ekki útilokaðir frá framboði og iðulega stendur fjölskrúðugur hópur af slíkum á sviðinu, stundum með trúðshatta eða glitrandi eftirlíkingu af kórónu kóngsins, við hlið alvöru frambjóðenda, jafnvel forsætisráðherrans sjálfs, á sviðinu, þegar úrslitin í kjördæminu eru lesin. En einstakir frambjóðendur verða að leggja fram til tryggingar upphæð (nærri 500 pund), sem fellur til yfirvalda nái frambjóðandinn ekki kjöri eða ákveðnu lágmarki atkvæða. Hér á landi myndi grínistinn, sem fengi meira fylgi en 2,5%, fá einar 80 milljónir króna í sinn vasa á kjörtímabilinu sem færi í hönd! Þessi skammarlegi fjáraustur er á ábyrgð flokka, sem telja sig vera í stjórnmálum af fullri alvöru.

Forsetakjör

En í dag er kosið um forseta og það er óneitanlega ástæða, hjá stórum hópi manna, til að vera með gleðibrag á kjördag og jafnvel dagana á eftir og það hvort sem „okkar maður, flokkur eða félag“ vinnur eða ekki að þessu sinni. Og þótt baráttan vinnist ekki í þetta sinn, þá er alls ekki útilokað að það komi góður dagur eftir þennan. En forsetakosningar eru allt önnur Ella en þingkosningar. Forsetakosningar eru stundum á átta ára fresti, stundum tólf og jafnvel tuttugu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að margur er eilítið úti að aka, þegar forsetaslagur hefur skyndilega skollið á og menn fara að rifja upp út á hvað hið „mikla embætti“ gengur. Og mjög margir fara þá stystu leiðina út af. Fyrstu viðbrögðin eru þau, að forsetinn, sá mikli valdakarl (eða -kerling), og jafnvel sá langmestur þeirra allra í landinu, hann geti tuktað þingmennina til og jafnvel ráðherrana og jafnvel forsætisráðherrann! Það sýnir auðvitað rosalegt vald, sem er þó alls ekki til staðar. Enda væri hann með slíkt vald, þá myndi forsetinn aldrei fá að sitja í allt að 20 ár í embætti og langoftast vera sjálfkjörinn. Það er auðvitað meginástæðan fyrir því, að almenningur unir því að forseti sitji eins lengi og tíðkast hér, og nánast með sjálfsafgreiðslu. Væri hann með raunveruleg völd og skipti raunverulega miklu máli, þá myndu flokkar og einstaklingar standa fyrir því, að lýðræðið næði líka til forsetans og hann fengi alvöruandstæðing á fjögurra ára fresti, svo að menn gætu annaðhvort gefið honum góða einkunn fyrir fjögur árin, ellegar hent honum út á gaddinn fyrir óþægð, eins og hendir suma þingmenn og enn meiri valdamenn en þá.

Við forsetakjör gengur dáldið á

Það er alþekkt um forsetakjör að mikið gengur á í aðdraganda kosninganna og mjög er um ágæti frambjóðenda deilt. Þremur mánuðum síðar eða svo er gerð könnun um það, hvað mönnum þyki um forsetann nýkjörna og þá fær hann jafnan fljúgandi tölur um allt hans ágæti. Og átta næstu árin, eða allt upp í 20, er aldrei um það spurt, hversu lengi viðkomandi muni sitja. Á þeim sama tíma hafa stjórnmálamenn verið barðir eins og harðfiskur í hinum og þessum könnunum, 200 sinnum eða meir, og þykjast góðir í burðugum flokkum ef þeir ná reglubundið 20-40% fylgi. Þetta eru staðreyndir, rétt eins og hinar, að almenningur veit ekkert um hvað forsetinn er að véla. Vissulega er farið í heimsókn til norrænna starfsfélaga, krýndra sem kosinna. Það er heimsókn á mann í norrænu löndin, á fjögurra ára fresti, og fækkar auðvitað ef kjörnir forsetar eru teknir upp á því að sitja lengi og jafnvel þriðjunginn af valdaskeiði hinna krýndu. Síðustu 4-6 vikurnar fyrir forsetakosningar er skyndilega farið yfir allt það sem forsetinn myndi láta til sín taka „ef ég yrði kosinn“. Og það er ekkert smá. Hann myndi tukta forsætisráðherra til, aðra ráðherra og þingmenn og jafnvel óþæga embættismenn. Frá því 1940 er ekkert dæmi til um það. Einhver nefndi um daginn, að hann myndi ekki leyfa forsætisráðherra að skipa einhvern í ráðuneytið sitt. Við fyrstu myndun ráðuneytis heyrir forsetinn ekkert um fæðingarhríðir ríkisstjórnar. Hann hefur veitt einstaklingi umboð til að leitast við að mynda ríkisstjórn. Stundum gengur það vel og þá hringir tilvonandi forsætisráðherra í forseta og segist vera með fullskipaða ríkisstjórn, og hvenær það myndi henta forseta að halda ríkisráðsfund. Sé forseti heima og við góða heislu, yrði það gert, oftast nær daginn eftir, en ella daginn eftir þann. Það er ekkert dæmi, sem bréfritari man eftir síðustu áratugina, um að forseti hafi haft frumkvæði að því, að forsætisráðherra léti einhvern ráðherra fá reisupassann. Gerðist slíkt myndi forsætisráðherrann þegar í stað biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Þar með hefði forsetinn, vegna fljótfærni sinnar, komið á stjórnarkreppu og það þótt ríkisstjórnin væri með starfhæfan meirihluta á þingi.

Vekur undrun

Tekin voru upp í Staksteinum ummæli Björns Bjarnasonar fv. dómsmálaráðherra, þar sem hann furðaði sig á umræðum í tengslum við forsetakosningar. Nú er ekki lengur látið við það sitja, að frambjóðendur segist ætla að feta í fótspor Ólafs Ragnars, heldur segjast sumir ætla að beita synjunarvaldinu gegn ákveðnum málum og gefa til kynna að þeir muni „hlusta á þjóðina“. Halla Tómasdóttir hefur til dæmis sagt: „Forseti á fyrst og fremst að hlusta á þjóðina og alla hópa samfélagsins og meta þá hvort það sé ástæða til þess að vísa málum til þjóðarinnar!“

Nú var það svo, að Ólafur Ragnar hafði allt of lengi þjónkað undir „útrásarvíkingana“, og þeir fengu hann einnig til að neita að skrifa undir lög frá Alþingi, sem þeir töldu sig hafa ríka hagsmuni af, og þeir myndu tryggja honum nægjanlegan fjölda undirskrifta. Málið var ekki af þeirri stærðargráðu að ráðamenn teldu að ýta ætti þjóðinni í þennan skrípaleik. Frumvarpið var kallað til baka og var þar með úr sögunni. Kannski þó ekki í orðsins fyllstu merkingu. Ef þetta mál hefði verið látið sundra þjóðinni skömmu áður en útrásarvíkingarnir fóru með allt um koll, þá hefði staða Ólafs Ragnars orðið mjög veik. Til að bæta úr stöðu sinni varð Ólafur við beiðni 60.000 Íslendinga um Icesave. Nokkrum sinnum var hins vegar beðið um það, að fá að sjá undirskriftasöfnunina um snatt forsetans fyrir útrásarvíkingana, en það fékkst aldrei, og sagt var að þeim undirskriftum hefði verið eytt(!) vegna sjónarmiða um persónuvernd. Þegar menn byggja verk sín á þunga undirskriftasöfnunar, til að réttlæta að setja mál í þjóðaratkvæði, er auðvitað fráleitt að eyða slíkum undirskriftum við fyrsta tækifæri, og það þótt skylt sé að varðveita öll slík gögn. Engin önnur skýring fékkst á þessu nema sú ein, að mikið hefði vantað upp á að þessi málatilbúnaður hefði fengið nægjanlega mikinn stuðning. Almenningur var vel kunnugur hinu þétta samstarfi útrásarvíkinganna og forsetans, samflot þeirra í einkaþotum víkinganna og þar fram eftir götunum.

Sjónarmið Vilhjálms

Vilhjálmur Bjarnason fv. alþingismaður segir í Morgunblaðinu: „Nú ber svo við að kosið skal til embættis forseta Íslands. Þeir sem fremstir fara í „lögskýringum“ eru fjölmiðlamenn. Með því gefa þeir frambjóðendum sem ekki eru alveg vissir um hlutverk forseta möguleika á að beita sköpunarkrafti sínum í stjórnskipan og stjórnsýslu. Hæst ber þráspurningar um synjun undirskriftar laga, sem réttkjörið Alþingi hefur samþykkt. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir svo í 1. grein: Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Af því leiðir að löggjafarvaldið er í höndum réttkjörins Alþingis og ríkisstjórn situr í trausti sama Alþingis. Alþingi getur lýst vantrausti á ríkisstjórn eða einstaka ráðherra. […] Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir í minningargrein um Ólaf Thors forsætisráðherra. „Þegar ekki reyndist að því búnu auðvelt að mynda meirihlutastjórn, skipaði ríkisstjórinn, Sveinn Björnsson, utanþingsstjórn. Sú ráðstöfun var meira en hæpin, og tókst þó ekki eins og til var stofnað, að koma í veg fyrir endurreisn lýðveldisins á árinu 1944.““ Þessir kaflar eru athyglisverðir.