Vinningstillaga Bensínstöðvarhúsið heldur sér í endurgerðri mynd.
Vinningstillaga Bensínstöðvarhúsið heldur sér í endurgerðri mynd. — Teikning/Trípólí arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valnefnd Festi um þróun bensínstöðvarlóðar félagsins við Ægisíðu 102 í Reykjavík, sem hýsti áður þjónustustöð N1, hefur ákveðið að tillaga arkitektastofunnar Trípólí verði fyrsti valkostur nefndarinnar í frekari úrvinnslu og þróun lóðarinnar að breyttu hlutverki til framtíðar

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Valnefnd Festi um þróun bensínstöðvarlóðar félagsins við Ægisíðu 102 í Reykjavík, sem hýsti áður þjónustustöð N1, hefur ákveðið að tillaga arkitektastofunnar Trípólí verði fyrsti valkostur nefndarinnar í frekari úrvinnslu og þróun lóðarinnar að breyttu hlutverki til framtíðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Festi. „Í niðurstöðu valnefndar segir m.a. að nefndin telji bæði raunhæft og hóflegt að við frekari þróun á tillögu Trípólí verði horft til hærra nýtingarhlutfalls innan svæðis með frekari samtengingum bygginga og hækkun á einstaka byggingarhlutum. Þá verði við frekari þróun atvinnuhúsnæðis horft til íbúðalausna með tengdu atvinnurými.“

Raunhæfari kostur

Telur valnefnd það raunhæfari kost en hrein atvinnurými m.a. með hliðsjón af aðkomu, nálægð við þjónustu innan hverfis og raunhæfni annars rekstrar innan hverfis. Þá verði enn fremur litið til þess við frekari þróun að skoða aukna fjölbreytni í íbúðategundum og stærðum,“ segir í tilkynningunni.

Valnefndina skipuðu Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt, G. Oddur Víðisson arkitekt og Óðinn Árnason, framkvæmdastjóri Yrkis eigna, fasteignafélags í eigu Festi.

Fulltrúar Yrkis kynntu í byrjun maí tillögur þriggja arkitektastofa að uppbyggingu á Ægisíðu 102. Stofurnar voru Gríma arkitektar, Sei studio og Trípólí arkitektar og fólu hugmyndir þeirra í sér blöndu af íbúðabyggð og smærri atvinnurýmum.

Í tilkynningu frá Festi segir að í tillögu Trípólí sé gert ráð fyrir að núverandi mannvirki – það er að segja afgreiðsluhús bensínstöðvarinnar – standi að mestu leyti áfram og sé ætlað að mynda áfram sterkt kennileiti á staðnum. Þetta er sýnt á teikningunni hér fyrir ofan.

Torg og dvalarsvæði

Umhverfis mannvirkið á að rísa randbyggð með torgum og dvalarsvæðum en bílaumferð verður beint í bílakjallara undir suðurhluta lóðarinnar næst götu.

Haft var eftir Óðni í Morgunblaðinu í byrjun maí að í kjölfar niðurstöðu valnefndarinnar yrði tillagan unnin frekar og svo óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á reitnum, með hliðsjón af vinningstillögunni, en skipulagið verði unnið í samráði við Reykjavíkurborg.

Borgin hafi í viðræðum við Yrki lagt áherslu á að hugmyndirnar skyldu taka mið af markmiði um þétta og góða borgarbyggð. Að lokinni ítarlegri greiningu hafi Yrkir ákveðið að efna til hugmyndaleitar meðal arkitekta með forsögn, þar sem verkefnið var útskýrt. baldura@mbl.is