Kaplakriki Þorri Stefán Þorbjörnsson og Úlfur Ágúst Björnsson eigast við í sex marka leiknum.
Kaplakriki Þorri Stefán Þorbjörnsson og Úlfur Ágúst Björnsson eigast við í sex marka leiknum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framarar áttu ótrúlega endurkomu í Kaplakrika í gærkvöld þegar þeir jöfnuðu metin í 3:3 gegn FH eftir að hafa verið þremur mörkum undir eftir klukkutíma leik. Þetta var fyrsti leikurinn í níundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta og þarna áttust…

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Framarar áttu ótrúlega endurkomu í Kaplakrika í gærkvöld þegar þeir jöfnuðu metin í 3:3 gegn FH eftir að hafa verið þremur mörkum undir eftir klukkutíma leik.

Þetta var fyrsti leikurinn í níundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta og þarna áttust við tvö af þeim liðum sem gera sig líkleg til að berjast um fjórða sætið, mögulega Evrópusæti, næstu vikur og mánuði.

FH virtist með þrjú stig í húsi þegar Sigurður Bjartur Hallsson kom Hafnarfjarðarliðinu í 3:0 á 59. mínútu en þá lagði Kjartan Kári Halldórsson upp sitt annað mark í leiknum.

Alex Freyr Elísson gaf Fram von með glæsilegu skoti frá vítateig fjórum mínútum síðar, 3:1.

Vendipunkturinn var síðan á 79. mínútu þegar FH-ingurinn Böðvar Böðvarsson fékk sitt annað gula spjald og var þar með rekinn af velli. Dæmd var aukaspyrna og úr henni skoraði Haraldur Einar Ásgrímsson glæsilegt mark af 25 metra færi, 3:2.

Haraldur var aftur á ferð með aukaspyrnu á 86. mínútu og lagði þá upp jöfnunarmarkið fyrir miðvörðinn Kyle McLagan, 3:3.

Níunda umferðin heldur áfram í dag þegar KA tekur á móti Skagamönnum á Akureyri en á morgun mætast Vestri og Stjarnan í Laugardal, Víkingur og Fylkir í Fossvogi og HK mætir Breiðabliki í grannaslag í Kórnum. KR og Valur mætast í lokaleik umferðarinnar á Meistaravöllum á mánudagskvöldið.

Höf.: Víðir Sigurðsson