Hundrað ljóð Þórarins er að finna í nýrri bók.
Hundrað ljóð Þórarins er að finna í nýrri bók. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér var tekið eins og ég væri nýkominn úr meðferð þar sem mér hefði loksins, loksins tekist að venja mig af mjög ljótum og leiðinlegum sið.

Bókin 100 kvæði er úrval úr kvæðum Þórarins Eldjárns. Úrvalið kemur út í tilefni þess að 50 ár eru síðan fyrsta bók Þórarins, Kvæði, kom út. Kristján Þórður Hrafnsson valdi kvæðin.

„Ég held að það sé ekki ráðlegt að maður velji sjálfur í safn eins og þetta vegna þess að það kemur í ljós að sumum kvæðum sem maður sjálfur er orðinn leiður á og finnst lítið varið í hafa margir allt aðra skoðun á,“ segir Þórarinn. „Ég þekki Kristján vel og hann er einn mesti ljóðamaður landsins. Hann fékk fyrirmæli um að hafa kvæðin hundrað, undanskilja barnaljóð og vísnakver og einnig verk sem eru heild, eins og Disneyrímur, og sleppa svokölluðum prósaljóðum, sem sumir kalla örsögur.“

Áttu sjálfur uppáhaldsljóð af ljóðum þínum?

„Nei, þú gætir eins spurt mig hver væri eftirlætissonurinn.“

Manstu hvenær þú ortir fyrstu vísuna?

„Átta ára gamall varð ég fyrir miklum áhrifum af Njálulestri Einars Ólafs Sveinssonar í útvarpinu. Þá orti ég ljóð sem heitir Bergþórshvolsbruni. Mamma varðveitti handritið sem ég hafði sjálfur vélritað með mikilli fyrirhöfn. Þetta ljóð birtist fyrst árið 2001, í bókinni Grannmeti og átvextir. Stundum þegar ég var að lesa upp úr þeirri bók, til dæmis í skólum eins og oft gerðist á þeirri tíð, þá fékk ég spurninguna hvað væri elsta ljóðið mitt. Þá sagði ég krökkunum að elsta ljóðið mitt hefði þurft að bíða í marga áratugi eftir birtingu. Ég sagði þeim að ljóðið væri í bókinni en ég ætlaði ekki að segja þeim hvaða ljóð það væri því þá sæju þau hvað mér hefði farið lítið fram.“

Hafðirðu einhver skáld í hávegum sem krakki?

„Tómas Guðmundsson auðvitað og svo Davíð Stefánsson. Pabbi þekkti Davíð og var mikill aðdáandi ljóða hans. Seinna þegar ég fór að sökkva mér í skáldskap af meiri ástríðu, sem var strax í gagnfræðaskóla, þá var svo komið að Steinn Steinarr þótti mestur og merkilegastur. Nú þykir mér hann ekkert merkilegri en hinir.“

Grín oft fúlasta alvara

Er það ekki rétt athugað að tilvistardepurð finnist ekki í kvæðum þínum og þú hafir þar ekki tekið sterka pólitíska afstöðu?

„Í fyrstu bókinni minni er reyndar meiri pólitísk róttækni en ég hef stundað síðan. En rétt er að ég hef lítið ástundað svartsýnis- og heimsósómakveðskap en heldur reynt að koma slíkum sjónarmiðum, og jafnvel ádeilum, fram á annan hátt.

Ég beiti mikið húmor. Það virkar á marga eins og merki um að engin alvara sé á bak við en auðvitað er grín oft fúlasta alvara. Um daginn var ágætur maður að lýsa yfir ánægju með þetta nýja úrval í útvarpsviðtali og komst þannig að orði að þessi kvæði væru gjarna svo marglaga. Hann líkti þeim við lauk þar sem hvert lagið tekur við af öðru. Ég hugsaði: Þetta hljómar vel, kannski getum við notað þetta í auglýsingu. Þá mundi ég allt í einu eftir Pétri Gaut hjá Ibsen þar sem hann er að flysja utan af lauknum hvert lagið á fætur öðru en kemst svo að því að í miðjunni er ekki neitt. Þá sá ég að ekki væri hægt að nota þetta.“

Þú ert gefinn fyrir hefðbundið form og hefur greinilega dálæti á rími.

„Ég kalla það háttbundið form frekar en hefðbundið vegna þess að á þeim tíma sem ég byrjaði að senda frá mér ljóðabækur var atómljóðið svokallaða orðið alltumlykjandi og þar með hefðbundið. Það þótti skrýtið að ungur maður – ég var 25 ára þegar fyrsta bókin mín kom út – skyldi yrkja háttbundið. Það voru ekki margir af þeim yngri sem fengust við slíkt. Fyrstu þrjár bækur mínar, Kvæði 1974, Disneyrímur 1978 og Erindi 1979, voru allar háttbundnar, þar var rímað og stuðlað í þaula undir ýmsum bragarháttum. En efnistökin voru ekki endilega hefðbundin eða lík því sem áður hafði verið, vil ég meina.

Svo fór ég að breyta til og gaf út ljóðabók árið 1984 sem heitir Ydd þar sem allt er laust og óbundið. Þá fóru ýmsir að fagna. Mér var tekið eins og ég væri nýkominn úr meðferð þar sem mér hefði loksins, loksins tekist að venja mig af mjög ljótum og leiðinlegum sið. Eftir það hef ég blandað þessu sitt á hvað, stundum koma bækur sem eru eingöngu háttbundnar en stundum er þetta líka hvað innan um annað, bara eftir því sem hentar.

Ég lít eiginlega á yrkingar sem ákveðið handverk sem maður lærir, temur sér og vinnur í. Það veitir manni síðan meira frelsi. Ég tala mikið um að ljóð séu annaðhvort laus eða þétt frekar en óbundin og háttbundin. Þegar maður er búinn að þétta kemur einhver kjarni. Barnaljóðin eru öll háttbundin. Börn eru kresin og líta ekki við öðru.“

Eins og krossgáta

Þú virðist eiga mjög auðvelt með að yrkja, en reynist þér það alltaf létt?

„Nei, þetta er oft eins og krossgáta sem þarf að liggja yfir. Stundum er eitthvað sem kemur manni af stað en oft er þetta hinn mesti barningur og gildir þá einu hvort ort er laust eða þétt. Ég held ég hafi einhvern tíma ort vísu um að þetta sé spurning um að láta alla halda að harðlífið sé niðurgangur.“

Verður þú var við mikinn ljóðaáhuga hjá fólki?

„Já, ég get ekki sagt annað. Nóg kemur út af ljóðabókum að minnsta kosti. Fólk víkur sér að mér og segist hafa verið að lesa eitthvað eftir mig. Í sambandi við barnaljóðin þá hef ég heyrt af börnum sem kunna ljóðin utan að, jafnvel heilu bækurnar. Án þess nokkur hafi skipað þeim að læra þau, það gerðist bara óvart.“

Gullbringa, sem er fjölskyldufyrirtæki, gefur út 100 kvæði. „Unnur konan mín sér um margt af því praktíska og Halldór sonur okkar sér um hönnun og umbrot,“ segir Þórarinn.

Fleiri bækur eftir Þórarin eru væntanlegar frá Gullbringu. Síðsumars kemur glænýr rímnaflokkur handa börnum, Dótarímur. „Þar eru leikföng í aðalhlutverkum en að öðru leyti er þetta klassískur rímnaflokkur, tíu rímur alls undir ýmsum bragarháttum með mansöngvum og öllu. Við fengum sannan renessansmann, Þórarin M. Baldursson lágfiðluleikara og skáld, til að myndlýsa. Í byrjun vetrar gefum við svo út gamla jólasögu sem ég skrifaði fyrir margt löngu og hefur aldrei birst nema í safnriti. Hún heitir Hlutaveikin, og kemur nú út með myndum eftir Sigrúnu systur mína.“

Skörp og frumleg hugsun

„Til grundvallar þessu úrvali lágu tíu ljóðabækur Þórarins fyrir fullorðna lesendur þannig að það var svo sannarlega af nógu að taka. Leiðarljós mitt var að velja hundrað kvæði sem ég sjálfur held sérstaklega upp á en jafnframt að valið gæfi víða mynd af ljóðlist skáldsins,“ segir Kristján Þórður Hrafnsson sem valdi kvæðin í bókina. „Eitt af því sem skapar ljóðlist Þórarins sérstöðu er hve hann yrkir mikið um það sem við getum kallað menningarlegt umhverfi þjóðarinnar, persónur Íslandssögunnar, þjóðsögurnar, dægurmenninguna og tungumálið. Ólíkt ýmsum ljóðskáldum sem yrkja gjarnan um náttúruna eða ástina þá yrkir Þórarinn oft um hið daglega amstur okkar, líf okkar innan dyra, jafnvel hluti eins og uppþvottavélina, ryksuguna eða ÚHÚ-límtúpuna. Aðalsmerki Þórarins sem skálds eru hans skarpa og frumlega hugsun, einstök bragsnilld og orðfimi. Hin mikla hugkvæmni hans á ríkan þátt í því hve ljóð hans geta orkað sterkt á lesendur.“