Dans Arash Moradi og Hooman Sharifi gera tilraun til að kafa í sammannlegar rætur fólks með dansverki sínu.
Dans Arash Moradi og Hooman Sharifi gera tilraun til að kafa í sammannlegar rætur fólks með dansverki sínu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við höfum unnið saman í tólf ár að ólíkum verkefnum, í ólíku umhverfi og á ólíkan hátt, en þetta verkefni hófst með þeirri hugmynd að tengja saman götudansara og samtímadansara,“ segir danshöfundurinn Hooman Sharifi sem setur upp verkið …

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Við höfum unnið saman í tólf ár að ólíkum verkefnum, í ólíku umhverfi og á ólíkan hátt, en þetta verkefni hófst með þeirri hugmynd að tengja saman götudansara og samtímadansara,“ segir danshöfundurinn Hooman Sharifi sem setur upp verkið While in battle I'm free, never free to rest með Íslenska dansflokknum og hópi götudansara, ásamt tónlistarmanninum Arash Moradi. Verkið verður frumsýnt á Listahátíð 7. júní í Borgarleikhúsinu.

„Bakgrunnur minn er í götudansi en síðar sneri ég mér að samtímadansi. Dansararnir koma úr tveimur ólíkum menningarheimum og ég vil skapa rými þar sem þessir heimar mætast,“ segir Sharifi.

Sharifi segist lengi hafa þekkt Ernu Ómarsdóttur, listdansstjóra Íslenska dansflokksins. „Hún frétti af því að ég væri að vinna þetta verkefni í Stokkhólmi og Osló og bauð mér að koma með það hingað.“ Dansarinn Brynja Pétursdóttir fer síðan fyrir hópi götudansara.

Ókunnugt en aðgengilegt

Dansararnir hreyfa sig við lifandi tónlist Arash Moradis sem hann leikur á fornt íranskt hljóðfæri sem nefnist tanbur. „Tónlistin sem Arash spilar hentar vel því hún skapar óþekkt rými fyrir báða hópa. Þetta ókunna hljóðumhverfi er góður staður fyrir þá til að hittast,“ segir Sharifi.

„Hljómurinn í tanbur-hljóðfærinu er samt mjög kunnuglegur og flestir finna strax ákveðna tengingu við tónlistina,“ segir Moradi. Hann bætir við að sér þyki gefandi að vinna með dönsurum og setja þannig þetta forna hljóðfæri í nýtt samhengi. „Það eru alltaf nýir áhorfendur, nýtt fólk með opinn hug og opið hjarta, og það er fallegt að deila þessum forna hljómi með þeim. Það verður gott að gera það hér á Íslandi,“ segir hann.

„Tónlist Arash er mjög aðgengileg,“ segir Sharifi. „Fyrir mér snýst þetta ekki um að þetta sé sérstaklega írönsk tónlist heldur snýst þetta um það hvernig maður hreyfir sig í hinu óþekkta. Ég held að tónlistin færi þig á stað sem þú þekkir ekki en er samt á einhvern hátt kunnuglegur. Ég trúi því heils hugar að ákveðnir hlutir hafi verið til frá örófi alda. Þessu íranska hljóðfæri, sem hefur verið til í þúsundir ára, svipar örugglega til hljóðfæra sem notuð voru í Evrópu fyrr á öldum. Þetta eitthvað sem er handan ólíkra menningarheima, snertir við mennskunni, við sammannlegum rótum okkar.“

Tónlistin í verkinu er ný þótt þeir hafi sýnt verk með sama titli í öðrum löndum. Moradi segir að sér þyki gott að vinna með dönsurunum og fá tilfinningu fyrir þeim sem manneskjum þegar hann skapar tónlistina fyrir hvert verk fyrir sig. Þannig geti hann fundið upp á einhverju nýju í samvinnu við aðra.

„Við viljum alltaf gera eitthvað nýtt þegar við förum á nýja staði,“ segir Sharifi. „En grunnhugmyndin er sú sama. Við viljum kanna hvernig það er að tilheyra hópi, hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi þrátt fyrir að við séum ólík og svo framvegis. Þetta eru þær spurningar sem verkið glímir við.“

Spurður út í titil verksins segir Sharifi: „Hann snýst um hugmyndina um stöðuga baráttu fyrir tilverunni. En það má lesa titilinn á ýmsa vegu. Þetta geta verið innri átök eða átök milli þín og samfélagsins. Þetta er vísun í texta eftir James Baldwin og hann var auðvitað mjög upptekinn af baráttunni fyrir borgaralegum réttindum. Hann skrifaði: „In America, I was free only in battle, never free to rest.“ En okkur þótti of nákvæmt að vísa til Ameríku. Svo er ég hrifinn af orðinu „while“ eða „á meðan“. Það gefur til kynna að eitthvað tvennt gerist samhliða. Þess vegna bættum við því við,“ segir danshöfundurinn.

Skapa sameiginlegan skilning

„Þetta er virkilega góður hópur. Þegar við vinnum sýningar þá byggist það á samstarfi. Við gætum aldrei gert þetta einir,“ segja þeir um samstarfið við íslensku dansarana. „Við sameinumst um þessa tónlist og um áhorfendurna sem koma inn í rýmið.“

Spurðir hvort þeir vilji hafa einhver sérstök áhrif á áhorfandann segja þeir þessu ef til vill öfugt farið. Þeir fái innblástur frá áhorfendunum.

„Þegar ég sem verk þá er markmiðið að skapa sameiginlegan skilning og að skapa eitthvað í sameiningu frekar en að hafa endilega eitthvað sérstakt að segja,“ segir Sharifi.

„Það eru ólíkar leiðir til að skapa dans- eða sviðsverk en fyrir mér er viðvera áhorfendanna virkilega mikilvæg. Þeir taka þátt í samstarfinu og við erum öll að vinna saman að einu verki. Áhorfandinn er með í sköpunarferlinu með því að lesa í verkið, dæma það, verða snortinn – eða ekki. Þannig skilgreina þeir líka hvað verkið er. En auðvitað hefur verkið vissa stefnu og fer með fólk í ákveðnar áttir.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir