Með andlátum í sjóslysum síðustu tvö ár er fimm ára meðaltal látinna á sjó nú komið í 0,8 og hefur gildið ekki verið hærra síðan 2017 þegar það var 1, en vert er að geta þess að árið 2016 var gildið tvöfalt hærra og margfalt hærra árið 2010 og öll ár þar á undan

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Með andlátum í sjóslysum síðustu tvö ár er fimm ára meðaltal látinna á sjó nú komið í 0,8 og hefur gildið ekki verið hærra síðan 2017 þegar það var 1, en vert er að geta þess að árið 2016 var gildið tvöfalt hærra og margfalt hærra árið 2010 og öll ár þar á undan.

Þessi skelfilegu atvik eru þó ekki ástæða til að efast um þann gríðarmikla árangur sem náðst hefur í slysavörnum á sjó á síðustu árum að sögn Þórhildar Elínardóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu. „Það sést best á fimm árum í röð án banaslysa árin 2017 til 21 og fjölda banaslysa síðustu ár á bilinu 0-4 á ári, sérstaklega samanborið við hinar háu banaslysatölur sem algengar voru á síðustu öld.

Árangurinn kemur til af nokkrum samverkandi þáttum. Þar ber fyrst að nefna dýrmæta öryggisvitund sjómannanna sjálfra, sem er bylting frá fyrri tíð þegar áhættuhegðun var jafnvel talin karlmannleg. Slysavarnaskóli sjómanna hefur unnið gott og mikið starf og um leið útgerðirnar sjálfar. Öryggismenningin er því orðin allt önnur en áður, sem við teljum eitt það allra mikilvægasta þegar kemur að því að tryggja öryggi til sjós. Af öðrum þáttum má til dæmis nefna mun betri og öruggari skip en var. Einnig fiskveiðistjórnun og nákvæmari spár um veður og sjólag, sem dregur mjög úr hættu á að lagt sé af stað við tvísýnar aðstæður.“

Má alltaf gera betur

Spurð að hvaða verkefnum sé unnið hjá stofnuninni í tengslum við málaflokkinn nefnir Þórhildur forritið „Atvik-sjómenn“ þar sem útgerðum og sjómönnum er gert kleift að skrá slys sem verða um borð. „Þessi skráning er mjög mikilvæg, bæði fyrir okkur sem stöndum að forvörnum og einnig fyrir útgerðirnar að halda utan um slys sem verða á þeirra skipum og bregðast við slysahættum þar sem við á. Unnið er að því að bæta það kerfi enn frekar.“

Hún segir ljóst að alltaf megi gera betur þegar forvarnir eru annars vegar og að hver króna sem sett er í málaflokkinn nýtist undantekningarlaust vel. „Hins vegar höfum við séð öryggi sjómanna aukast ár frá ári og við teljum að við séum á réttri leið. Sjóslysalaust ár var algerlega óhugsandi fyrir nokkrum áratugum en núna eru það banaslysin sem eru orðin undantekningin.

Forvarnastarf okkar hefur að talsverðu leyti snúist um framleiðslu og birtingar á auglýsingum og fræðsluefni fyrir sjómenn. Auk þess höfum við tekið fjárhagslegan þátt í verkefnum annarra sem snúa að því að auka öryggi sjómanna. Þessi misserin höfum við verið að taka þátt í rekstri á Atvik-sjómenn auk þess sem við höfum tekið þátt í fjármögnun á öryggisstjórnunarkerfi fyrir smábátasjómenn, Öggunni, sem stendur til boða án endurgjalds. Auk þessara verkefna veitum við styrki á hverju ári sem allir geta sótt um sem eru með verkefni sem snúa að auknu öryggi fyrir sjómenn.“