Verðlaun Erna Ómarsdóttir, borgarlistamaður Reykjavíkur 2024 ásamt Einari Þorsteinssyni í gær.
Verðlaun Erna Ómarsdóttir, borgarlistamaður Reykjavíkur 2024 ásamt Einari Þorsteinssyni í gær.
Erna Ómarsdóttir dansari og danshöfundur hefur verið útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2024. Einar Þorsteinsson borgarstjóri útnefndi Ernu borgarlistamann við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Útnefningin er heiðursviðurkenning til listamanns sem…

Erna Ómarsdóttir dansari og danshöfundur hefur verið útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2024.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri útnefndi Ernu borgarlistamann við hátíðlega athöfn í Höfða í gær.

Útnefningin er heiðursviðurkenning til listamanns sem hefur skarað fram úr og markað sérstök spor í íslensku listalífi með listsköpun sinni. Skúli Helgason, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, gerði grein fyrir vali ráðsins á Ernu og afhenti henni ágrafinn stein, verðlaunafé og heiðursskjal.

Fjöldi verðlauna og dansar í myndbandi Duran Duran

Erna byrjaði ung að læra dans, fyrst í Kópavogi og síðar í Listdansskóla Þjóðleikhússins, Kramhúsinu og Stúdíói Sóleyjar.

Hún hefur unnið og leikstýrt fjölda verka, ásamt því að starfa með fjölda fólks um heim allan.

Þá hefur Erna verið tilnefnd og unnið til fjölda verðlauna fyrir list sína, hefur hún hlotið Grímuverðlaunin níu sinnum. Fyrir dansverk sitt í Njálu, samstarfi Íslenska dansflokksins og Borgarleikhússins, hlaut Erna Íslensku sviðslistaverðlaunin í flokknum Dans- og sviðshreyfing, árið 2016.

Árið 2015 tók Erna við sem listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins og leikur hún og dansar í nýjasta tónlistarmyndbandi hljómsveitarinnar Duran Duran við lagið Black Moonlight.