Sigríður Kristín Andrésdóttir fæddist 5. maí 1939. Hún lést 25. mars 2024.

Útför Sigríðar Kristínar fór fram 6. apríl 2024.

Elsku mamma, það var afar sárt að fylgja þér síðasta spölinn í þessu lífi. Lífi sem var þér ekki alltaf auðvelt. Þú þurftir að yfirgefa öryggið í Sunnuveginum sem var heimili ykkar pabba í 44 ár og flytja á Naust þar sem þið pabbi dvölduð saman í um hálft ár, þar áttuð þið ágætan tíma saman þar til ég þurfti að færa þér þær slæmu fréttir að pabbi væri látinn.

Það var afar erfið stund fyrir þig og fjölskylduna þína, sem þú reyndist alltaf svo vel, og saman reyndum við að halda áfram og gera dvölina á Nausti sem besta fyrir þig með heimsóknum, rúntum um bæinn, skoða jólaskreytingar og gróðurinn í görðum en þá mátti engri götu sleppa og alls ekki keyra of hratt.

Uppvaxtarárin í Hvammi eru afar minnisstæð þar sem þið pabbi hélduð okkur fallegt og gott heimili. Þar tókst þú virkan þátt í bústörfum og ég man eftir okkur saman við að gefa skepnunum og sinna öðrum bústörfum.

Þó að þú hafir aldrei tekið bílpróf keyrðir þú samt bíla og man ég eftir að við fórum saman á gamla Willys inn á tún að snúa heyinu, ég fór með til að hjálpa þér við að setja rakstrarvélina aftan í bílinn og saman fórum við svo hring eftir hring um túnið og þetta er yndisleg minning að eiga.

Eftir að skólagangan hófst man ég eftir okkur systkinunum við eldhúsborðið þar sem þú hjálpaðir okkur að læra, í minningunni varstu alltaf að gera eitthvað eins og að baka, elda góðan mat, sauma, þvo þvott, strauja og svo öll glæsilega handavinnan sem skreytir hús afkomenda þinna í dag.

Þú áttir alltaf auðvelt með að eignast vini og í sveitinni eignaðist þú margar vinkonur sem og eldri vini og hélst sú vinátta allt til loka. Á Nausti eignaðist þú mjög góða vini og þá sérstaklega á meðal starfsfólks og gerði það dvölina miklu betri og við erum afar þakklát fyrir það.

Árið 1976 fluttum við í Sunnuveg 2, heimili sem var okkur öllum mjög kært og griðastaður alla tíð. Garðurinn var þér mjög kær og var þér ræktun í blóð borin. Garðurinn var afar fallegur hjá þér og bar vinnusemi þinni gott vitni. Það þurfti alltaf allt að vera hreint og snyrtilegt þegar kom að heimilinu, heimilisbíllinn átti helst að standa tandurhreinn og nýbónaður í hlaðinu, þetta gerðuð þið pabbi oftast saman.

Þér þótti afskaplega vænt um barnabörnin og síðar barnabarnabörnin þegar þau fóru að koma, Hildur Kristín okkar Siggu kom fyrst og þú passaðir hana fyrir okkur fram að leikskóla og hjálpaðir okkur mikið. Eins var með Jóhönnu Regínu og Arnar sem þið kölluðuð ævinlega „nafna“. Þér og pabba þökkum við sérstaklega fyrir hjálpina með börnin okkar sem mótuðust af samverunni við ykkur og munu njóta góðs af alla tíð. Þér fannst nauðsynlegt að bjóða Arnari, Bjarna og Gísla í sumardvöl að Ástjörn og ég held að þeir hafi allir haft gagn og gaman af því.

Ég er afar þakklátur fyrir að hafa fengið að verða þér samferða elsku mamma í 62 ár og að hafa búið svo nálægt þér og pabba alla tíð, mikið sakna ég ykkar.

Minning þín mun ætíð lifa með okkur elsku mamma og óskum við þér góðrar ferðar í sumarlandið.

Aðalbjörn og
Sigríður (Sigga).