Mestu skiptir að varast pytti

Óróleiki og stríðstilburðir fyrir botni Miðjarðarhafs hafa á sér margar hliðar og því miður eru þær fréttir, sem þaðan berast, fæstar góðar.

Á sama tíma er „annað stríð“, mun stærra í sniðum og er mun nær okkur hér í Evrópukrikanum, sem hefur þann blæ nú orðið, að hætt sé við því, að því stríði kunni að ljúka „með viðræðum“.

Þó er stríðið um framtíð Úkraínu. Þeir þar telja fréttir um að stutt sé í stríðslok ekki endilega góðar. Þær hljóma vel, en bera með sér, að málstaðurinn, sem vestræn ríki sameinuðust flest um að styðja, sé ekki eins haldgóður og treyst var á í Kíev.

Það hljómar sannarlega eins og góðar fréttir hljóma vanalega, en eru þó fjarri því að vera það, sé kíkt á smáa letrið.

Bandaríkin horfa að jafnaði til Ísraels sem traustasta bandamanns síns, enda er sú þjóð hin eina á stóru svæði þar eystra, sem er lýðræðisríki og lýtur þeim reglum sem um slík ríki gilda. Þær reglur gera aldrei og hvergi þær kröfur að lýðræðisríkið, sem í hlut á, skuli ekki og aldrei verja sig! Enda hefðu dagar þessarar þjóðar þá fyrir löngu verið taldir.

Skrítnar sendingar og illskiljanlegar frá „dómstólum“ staðsettum í Norður-Evrópu breyta engu um það. Þess vegna er lítið gert með það hjal sem þaðan berst.

En því miður, þá er besti bandamaðurinn í augnablikinu upptekinn við að horfa til þess, að verði Joe Biden staðinn að því að gera of mikið fyrir þennan bandamann sinn, sem hann hafði lofað öllu fögru, þá geti það mælst illa fyrir hjá 2% íbúa Michigan, sem eru arabar. Og þótt ríkið sé aðeins eitt af 50 þá er það talið hafa ráðið úrslitum í kosningunum 2020! Það þarf því að ganga fyrir jafnvel „bestu bandamönnum“.