Útlendingafrumvarp Vísast verður frumvarpið rætt á Alþingi í vikunni.
Útlendingafrumvarp Vísast verður frumvarpið rætt á Alþingi í vikunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fastlega er gert ráð fyrir að útlendingafrumvarpið svokallaða verði afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd í dag, mánudag. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fastlega er gert ráð fyrir að útlendingafrumvarpið svokallaða verði afgreitt út úr allsherjar- og menntamálanefnd í dag, mánudag. Þetta staðfestir Bryndís Haraldsdóttir formaður nefndarinnar í samtali við Morgunblaðið.

„Við erum með þrjú mál á dagskrá fundarins og stefnum að því að taka þau öll út úr nefndinni á þessum fundi. Þetta er útlendingafrumvarpið, frumvarp um Menntasjóð námsmanna og frumvarp um samfélagsþjónustu,“ segir Bryndís.

„Á síðasta fundi nefndarinnar var ákveðið að halda þennan aukafund. Á þeim fundi var rætt um umsögn umboðsmanns barna um frumvarpið og nú hefur ítarlegri umsögn borist. Við óskuðum eftir því við dómsmálaráðuneytið að það myndi fara yfir umsögnina og við höfum nú fengið viðbrögð ráðuneytisins við henni,“ segir hún.

Bryndís segir að þau sjónarmið sem teflt er fram í umsögn umboðsmanns barna séu ekki nægjanlega sterk að sínu mati og myndu þýða að flest ríki í Evrópu og Norðurlöndin þar með talið væru ekki að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Ríki hafa engu að síður sjálfstæðan rétt til að vera með sínar reglur í innflytjendamálum. Frumvarpinu samkvæmt og okkar skuldbindingum skal hvert mál skoðað sérstaklega og frumvarpið breytir ekki neinu varðandi fylgdarlaus börn,“ segir Bryndís. Þess má vænta að frumvarpið verði á dagskrá Alþingis í vikunni.