Eva Bryndís Magnúsdóttir fæddist 19. apríl 1956. Hún lést 10. maí 2024.

Útför hennar fór fram 29. maí 2024.

Elsku Eva, ég trúi því ekki að ég sé að skrifa minningargrein til þín núna, ég vissi að þessi dagur myndi koma en ekki strax.

Ég man svo vel eftir fyrsta skiptinu sem við hittumst, en það var daginn sem Árni og Sibba giftu sig. Andri hringdi í mig og sagði að þú myndir sækja mig og keyra í brúðkaupið. Ég kveið svo fyrir þessari bílferð en þú gerðir hana góða og þægilega með spjalli og gríni. Þú tókst mér alveg um leið en ég var ekki ein, með mér var Indiana María þá fimm ára gömul. Indiana varð strax ömmubarn ykkar Jóa og voruð þið henni ávallt góð og mikilvæg.

Þegar eitthvað bjátaði á eða mann vantaði ráð var alltaf hægt að hringja í þig til að fá aðstoð. Mér finnst svo vont að geta ekki hringt í þig núna eða kíkt á þig og fengið þína aðstoð og stuðning fyrir ferminguna hjá Andreu. Ég er oft næstum því búin að senda á þig myndir og annað.

Það er stórt skarð sem þú skilur eftir, enda varst þú manneskjan sem sá um að halda öllum saman og plana alls konar hittinga með ættingjum. Alltaf hangikjöt á Þorláksmessu með Lækjargötugenginu og svo grill um sumarið í Hrísgerði. Við fjölskyldan munum gera allt sem við getum til þess að halda í þessa hefð.

Þér fannst svo frábært þegar fjölskyldan var saman, hvort sem það voru einhver matarboð eða annað.

Þú varst svo dugleg að taka þátt í öllu með okkur, þú mættir á fótboltaleiki, leiksýningar og annað sem stelpurnar voru að gera.

Ég var alls ekki vön því að mæta í svona mörg boð, matarboð, ættarmót og aðra hittinga, þér fannst gott og gaman að vera með fjölskyldunni.

Ég kvíði fyrir næstu jólum þar sem við áttum alltaf svo yndislega tíma saman. Við spiluðum, borðuðum, skáluðum saman og fögnuðum nýju ári.

Þú varst viðstödd fæðinguna hjá Árnýju Fönn og hélst í höndina á mér í gegnum hana. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Það var svo gaman að koma til ykkar í hjólhýsið ykkar og grilla, spila og spjalla. Þú varst alltaf svo sterk og dugleg og vildir ekki verða sjúkdómurinn og leist aldrei á þig sem sjúkling og þannig var það alveg til enda.

Þið Jói voruð dugleg að hjálpa mér þegar Andri var á sjó eða þegar okkur hjón vantaði smá foreldrafrí.

Við áttum svo gott símtal rétt áður en þú dóst. Ég hálfpartinn vissi að í þessu símtali værir þú smá að kveðja mig. Þú talaðir um hversu stolt þú værir af okkur og hversu stolt þú værir af Andra þínum. Ég gæti setið endalaust og skrifað um þig en ég mun ávallt varðveita minningar mínar um þig og vera dugleg að tala um þig við stelpurnar og skoða myndir. Það að hafa verið með þér til hinsta dags er mér svo dýrmætt, ég gat sagt það sem ég þurfti að segja og ég veit að þú heyrðir í mér. Stelpurnar fengu einnig að vera með og áttu dýrmætan tíma þar sem þær gátu séð þig og talað við þig. Við munum passa upp á Jóa þinn og verðum alltaf til staðar fyrir hann.

Ég kveð þig í bili með brotið hjartað.

Takk fyrir allt, takk fyrir að hafa verið tengdamamma mín, takk fyrir að vera amma stelpnanna minna, takk fyrir ástina og hlýjuna.

Ástarkveðja!

Þín tengdadóttir,

Agnes Dögg
Gunnarsdóttir.