Agnar Guðmundsson, af flestum kallaður Aggi, fæddist í Reykjavík 18. apríl 1954. Hann lést 10. maí 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Kristinn Agnarsson, f. 4. september 1915, d. 19. maí 1989, og Málfríður Magnúsdóttir, f. 27. mars 1920, d. 24. júlí 1992.

Agnar var yngra af tveimur börnum þeirra saman en eldri var Sigríður (kölluð Sirrý), f. 1944, d. 2024. Hálfbróðir þeirra samfeðra er Garðar Víðir, f. 1942. Þau áttu einnig sammæðra hálfbróðurinn Magnús, f. 1941, d. 2021.

Agnar kynntist árið 1981 Sigríði Kristínu Óladóttur, f. 22. mars 1951. Gengu þau í hjónaband 29. júlí 1983. Sigríður átti fyrir þrjú börn með Atla Þór Helgasyni, f. 19.1. 1950, d. 7.8. 1980 en þau eru: 1) Helga, f. 10. maí 1974. Hún er gift Alexander Eck og eiga þau Nínu og Balthasar og barnabarnið Brími. 2) Óli Örn, f. 20. apríl 1978. Hann er kvæntur Karen Elísabetardóttur og eiga þau Helga Júlíus, Sigríði Kristínu og Einar Atla en fyrir átti hann Hlyn Björn. 3) Þóra, f. 30. maí 1980, og á hún Hauk Ævar, Unni Ásu og Brynjar Leó. Saman eignuðust Agnar og Sigríður Kristín soninn Atla Þór, f. 7. janúar 1984. Eiginkona hans er Sandra Tryggvadóttir og eiga þau Úlfhildi og Fálka.

Agnar fór ungur að heiman, eða 14 ára. Hann vann fyrir sér sjálfur og að barnaskólanámi loknu fór hann í Iðnskólann í húsgagnasmíðanám sem hann lauk með meistaraprófi. Agnar hóf störf hjá Gamla Kompaníinu og starfaði að mestu við smíðar auk þess að fara til sjós á Höfrungi þegar hann fluttist á Akranes. Síðar stofnaði hann eigin fyrirtæki á sviði smíða og hönnunar húsgagna.

Agnar var jarðsunginn frá Guðríðarkirkju 29. maí 2024.

Elsku Aggi, það er komið að seinustu tónleikaferðinni þinni, tónleikum sem eiga eftir að standa yfir alla eilífðina í sumarlandinu. Það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart, hvert skipti sem ég heyri söguna þína; hvað þú gekkst í gegnum, hvernig þú þurftir að takast á við lífið á unglingsárunum og standa á eigin fótum svona ungur að árum. En þér tókst að snúa erfiðri lífsreynslu þér í hag og rækta með þér mannkosti úr mótlætinu. Mamma talaði um að það þyrfti „einstakt hjartalag“ til að taka saman við ekkju með þrjú lítil börn. Ég á svo fallega minningu þegar við vorum bara tveir heima, tónlist í gangi, þú að elda og ég að spyrja þig hvernig það hafi verið að fara í samband með mömmu og eignast þrjú lítil börn á einu bretti. Þér fannst það auðvelt. Þú leist alltaf á okkur öll sem þín, líka eftir að Atli bróðir fæddist.

Þú varst góður að kenna til verka og studdir við bakið á okkur þegar við vorum að elta eigin drauma. Ég er ánægður að síðustu árin voru þér frekar áhyggjulaus, ég hefði viljað fara með þér á nokkra tónleika en þú verður mér ofarlega í huga í hvert skipti sem ég fer að hlusta á tónlist, héðan í frá. Takk fyrir samfylgdina Aggi.

Þinn sonur,

Óli.