Einar S. Hálfdánarson
Einar S. Hálfdánarson
Meira en 230 þúsund óbreyttir borgarar voru drepnir í Sýrlandi. Það hreyfði ekki við leikurum á Eddunni. Hún gekk smurt allan tímann.

Einar S. Hálfdánarson

Vesturlönd réðust á Afganistan í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 2001 þar sem tvö þúsund manns voru myrtir. Ástæða þess að ráðist var á Afganistan var sú að Al-Kaída hélst þar við í skjóli talibana. Þar fór fram þjálfun hryðjuverka og þar var stjórnstöðin þar sem hryðjuverk gegn Vesturlöndum voru skipulögð. Mótmæli gegn árás og síðar innrás til að uppræta hryðjuverkasveitirnar voru skiljanlega lágvær. Al-Kaída er ekki svipur hjá sjón og ekki fær um hryðjuverk á neitt svipuðum skala og áður. En auðvitað þurfa Vesturlönd að halda vöku sinni.

Geysilegt mannfall hefur orðið í Afganistan. Eins og jafnan í stríði falla óbreyttir borgarar, þ.m.t. alsaklaus börn. Slíkt ber hið kaldranalega heiti „aukatjón“ (e. collateral damage). Tölur eru á reiki um mannfallið í landinu. Það var á bilinu 170 til 360 þúsund eftir því hverjir eru meðtaldir. Nálægt þriðjungur fallinna var óbreyttir borgarar. Það er geysilegt mannfall. Íslenskir listamenn gerðu aldrei neinar kröfur um vopnahlé í Afganistan. Enda var óhjákvæmilegt að uppræta Al-Kaída eða búa sjálfir við ógn.

Árás á Írak í kjölfar hryðjuverka í Evrópu

Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi var stofnað sem kalífadæmi árið 2013 undir forystu Abu Bakr al Baghdadi, leiðtoga ISIS. Íslömskum hryðjuverkaatvikum fjölgaði svo í framhaldinu mjög í Evrópu frá árinu 2014. Á árunum 2014-16 létust fleiri í íslömskum hryðjuverkaárásum í Evrópu en öll fyrri ár samanlagt og jafnframt hæsta hlutfall árásartilræða.

Bandalag undir forystu Bandaríkjanna hóf loftárásir gegn ISIS í Írak árið 2014 og jók við herferðina næstu mánuði. Fjöldi skjalfestra dauðsfalla óbreyttra borgara í Íraksstríðinu frá 2013 til 2017 nam tæpum áttatíu þúsundum. Raunverulegt mannfall varð margfalt meira. Heilu borgirnar voru þurrkaðar út. Vinstrimenn og listafólk á Vesturlöndum lét sér flest vel líka. Nú máttu BNA beita sér enda gert fyrir Evrópu. Ekki einu sinni Karim A.A. Khan, saksóknari hjá alþjóðlega sakamáladómstólnum, gaf út ákæru gegn BNA.

Meira en 230 þúsund óbreyttir borgarar hafa verið drepnir í Sýrlandi, þeirra á meðal hafa 15 þúsund verið pyntaðir til dauða. Ekkert af því sem að framan greinir hreyfði við leikurum á Eddunni. Hún gekk smurt allan tímann. Og ekki einu sinni við Kristrúnu Frostadóttur.

Villimannleg hryðjuverkaárás Hamas gegn óbreyttum borgurum í Ísrael

Eftir árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Ísrael gripu Ísraelsmenn til vopna í samræmi við alþjóðalög til að verjast og uppræta hryðjuverkasamtökin. Nú bregður svo við að fjölmiðlarnir sjá skyndilega nýja hlið á stríði. Það verður sem sé manntjón á þeim sem ekkert hafa til saka unnið. Það á ekki síst við á Gasa þar sem hryðjuverkamennirnir leitast við að nota fólkið sem skjól þegar þeir eru ekki neðanjarðar með líkum sínum í dýraríkinu. Þeim skal vægt með vopnahléi.

Það er ótrúlegt að fylgjast með sögufölsuninni um „Palestínu“, Ísrael og svo um araba og gyðinga. Hér um bil allt er afbakað aröbum í hag, en gyðingum lagt allt til versta vegar. Kristrúnu Frostadóttur þykir sæma að taka sér far á vinsældavagninum. Væri ekki einhver samfylkingarmaður til í að leiðrétta verstu falsanir fjölmiðlanna?

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.

Höf.: Einar S. Hálfdánarson