Inga Skaftadóttir fæddist 17. mars 1953. Hún lést 15. maí 2024.

Útför Ingu fór fram 29. maí 2024.

Elsku mamma lést eftir stutt en miskunnarlaus veikindi. Eftir sitjum við fjölskyldan og erum enn að átta okkur á hvað gerðist.

Mamma var algjör kjarnakona og það þurfti mikið að bjáta á til að koma mömmu úr jafnvægi og hún tók á öllu með ró og yfirvegun.

Hún lét lítið fyrir sér fara, en var ótrúlega nærverandi hvar sem hún var. Hún var alltaf boðin og búin að hjálpa þegar á þurfti að halda. Mamma sýndi ómældan stuðning í öllu sem ég vildi taka mér fyrir hendur, og hafði óbilandi trú á að ég gæti hvað sem er.

Mamma var eins og fædd í ömmuhlutverkið, og þó að það hafi verið langt á milli okkar, þá nutu ömmustelpurnar Annika Ósk og Eva Sóley samverunnar með ömmu sinni. Hvort sem það var klukkutíma langt spjall á skype, eða samvera við göngutúra, bíltúra að skoða íslenska náttúru, lestur eða handavinna. Amma fylgdist vel með hvernig gekk hvort sem var í skóla eða íþróttunum, og naut þess að heimsækja okkur í Danmörku.

Þrátt fyrir að söknuðurinn og sorgin fylli hjörtun erum við þakklát fyrir tímann sem við fengum með mömmu.

Svava Birgisdóttir
Egholm.

Eitt af aðalsmerkjum þeirra sem ávinna sér traust og virðingu samferðamanna sinna er auðmýkt, virðing og metnaður fyrir öllum þeim margvíslegu verkefnum sem á fjörur okkar rekur á lífsins leið. Inga var ein af slíkum konum. Þægileg návist hennar og hlýja gerði það að verkum að það var ótrúlega gaman að vinna með henni á ónæmisfræðideildinni allt frá þeim tíma sem ég hóf þar störf við upphaf þessarar aldar þar til hún lauk afar farsælum starfsferli sínum á Landspítala nú fyrir stuttu. Það var því gríðarlegt áfall að fá þær fréttir að hennar jarðnesku vegferð væri nú skyndilega lokið. Fjölskyldan var henni allt, og auðheyrt hve hamingjusöm og stolt hún var af þeim öllum. Tilhlökkun hennar var því mikil að geta núna eytt öllum sínum tíma í hjarta fjölskyldunnar. Missir þeirra er því mikill, en minning um einstaka konu, móður og ömmu mun örugglega lifa í þeirra hjörtum um ókomna tíð.

Það var sama hvaða verkefni komu á borð okkar Ingu, alltaf var hún búin og boðin að koma til hjálpar. Fljótlega var hún yfir þjónustuhluta frumuflæðisjáreiningar deildarinnar og undir hennar forystu var verklagi breytt, skerpt á öryggis- og gæðaeftirliti, auk þess að tækjabúnaður okkar tók miklum framförum. Einnig tók hún beinan þátt í fjölmörgum vísindaverkefnum deildarinnar, auk þess að taka virkan þátt í handleiðslu nema bæði á grunn- og framhaldsstigi. Auk þess að aðstoða við kennslu lífeinda-, náttúrufræði- og læknanema allan sinn starfsferil á deildinni sem hún sinnti eins og öllu öðru sem hún tók sér fyrir hendur af mikilli alúð. Það voru því ófá verkefnin sem við Inga tókum að okkur og leystum í góðri samvinnu við aðra starfsmenn. Því miður kom það alloft fyrir að bráðasýni komu til okkar sem lá á að rannsaka þó svo að hefðbundnum vinnutíma væri lokið, eða komin helgi. Undantekningalaust brást hún vel við og verkefnið var leyst, enda var henni mjög umhugað um öryggi og velferð þeirra sjúklinga sem hlut áttu að máli hverju sinni. Ósérhlífni hennar var mikil og lét hún sig jafnvel hafa það að koma til vinnu í gifsumbúðum eitt sinn þegar hún varð fyrir því óláni að detta á leið sinni úr vinnu. Inga var ávallt hreystin uppmáluð og er óhætt að segja að hún hafi fundið upp hugtakið hjólað í vinnuna sem var gert nánast hvernig sem viðraði árið um kring. Inga kenndi mér margt og þó sérstaklega að bera ávallt virðingu fyrir öllum verkefnum stórum og smáum, fyrir það verð ég henni ævinlega þakklátur, blessuð sé minning hennar.

Fjölskyldu hennar, Birgi, Svövu, Pétri og barnabörnum, votta ég mína dýpstu samúð.

Björn Rúnar
Lúðvíksson.