[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Innrás kínverska netverslunarrisans Temu á markaðinn hér á landi hefur vakið mikla athygli. Fyrirtækið auglýsir grimmt á samfélagsmiðlum og virðist uppskera því sendingum frá Kína hingað til lands hefur fjölgað hratt

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Innrás kínverska netverslunarrisans Temu á markaðinn hér á landi hefur vakið mikla athygli. Fyrirtækið auglýsir grimmt á samfélagsmiðlum og virðist uppskera því sendingum frá Kína hingað til lands hefur fjölgað hratt.

Versluninni hefur verið lýst sem „Amazon á sterum“ en þar er hreint ótrúlegt úrval af vörum. Hjá Temu geturðu nælt þér í allt frá íþróttafötum til tækis sem aðstoðar eldra fólk og óléttar konur við að klæða sig í sokka. Og allt þar á milli. Verðið er líka hreint ótrúlegt í sumum tilfellum, aðeins brot af því sem vörurnar kosta í hefðbundnum verslunum hér á landi. Fríverslunarsamningur er í gildi milli Íslands og Kína og því þarf ekki að greiða toll af umræddum vörum. Þá auglýsir Temu að fyrirtækið sendi frítt í takmarkaðan tíma.

Falsað Lego og lampar

Kaupmennirnir í Temu virðast ekki setja hefðbundinn hugverkarétt mikið fyrir sig. Danir eru með böggum hildar vegna þess að eftirlíkingar af Lego streyma nú frá Kína á gjafverði og sama gildir um danska hönnunarvöru. Við Íslendingar erum ekki undanskildir því flækjupúðar Ragnheiðar Aspar Sigurðardóttur eru skrumskældir og seldir á síðunni á gjafverði. Púðarnir kosta 21.900 krónur í vefverslun Epals en kínverska útgáfan hjá Temu kostar rúmar 2.500 krónur. Flowerpot-borðlampi með batteríi kostar um 28 þúsund krónur hér á landi en batterísútgáfa af honum kostar 6.500 krónur hjá Temu. Reyndar var „ótrúlegt tilboð“ í boði akkúrat þegar þetta var skrifað; 59% afsláttur svo lampinn fékkst fyrir 2.587 krónur. Eftirlíking af apa Kays Bojesens kostar um 1.750 krónur en sá upprunalegi kostar um 25 þúsund krónur hér á landi.

„Þessir netrisar eins og AliExpress hafa auðvitað verið til skoðunar en Temu virðist jafnvel vera meira skrímsli en þeir fyrri. Þessi innkoma á örugglega eftir að hafa mikil áhrif, til hins verra,“ segir Sif Steingrímsdóttir, lögfræðingur hjá Hugverkastofunni. Mikil umræða var um falsaðar vörur í kringum Hönnunarmars þar sem reynt var að vekja fólk til umhugsunar og staldra við áður en það léti glepjast af slíkum vörum. Því er innrás Temu á markaðinn áhyggjuefni að mati Sifjar.

Erfitt að stöðva söluna

Sif segir fréttir sem borist hafa af framleiðslu á fölsuðum vörum uggvænlegar en dæmi eru um að eiturefni hafi greinst við framleiðslu. Engin vottun sé á umræddum vörum og erfitt sé að komast í tæri við framleiðendur og seljendur. Hún hefur vakið athygli á því að kaup og sala á fölsuðum vörum hafi færst mikið í vöxt og segir að þessi viðskipti séu oft þáttur í skipulagðri glæpastarfsemi. Tölur um umfang og verðmæti innflutnings falsaðrar vöru til ríkja Evrópusambandsins sýna svart á hvítu hvert umfangið er. Árið 2019 er talið að verðmæti slíkrar vöru hafi numið 119 milljörðum evra. Það jafngildir 5,8% af öllum innflutningi til ríkja sambandsins. Líklegt verður að teljast að aukning hafi orðið síðustu fimm árin. Tilkoma Temu með rándýrri markaðssetningu mun vísast aðeins bæta í og erfitt getur verið að hefta þá þróun.

„Ef þetta er eins viðskiptamódel og á AliExpress og fleirum er fullt af litlum aðilum sem selja í gegnum þessa síðu. Erfitt getur verið að rekja upprunann því þetta er svo stórt. Þessir seljendur eru kannski þarna í nokkrar vikur eða mánuði og eru svo horfnir,“ segir Sif.

Hún segir að vekja verði fólk til umhugsunar um að varhugavert geti verið að skipta við slíka söluaðila. „Fólk má ekki bara hugsa um að eignast hluti sem líta vel út í stofunni. Það verður að hugsa um hvað býr að baki.“