Vargöld Reykjarmökkurinn stígur upp eftir enn eina loftárás Ísraela á Gasasvæðinu í gær. Milljónir eru á vergangi og margir úrkula vonar.
Vargöld Reykjarmökkurinn stígur upp eftir enn eina loftárás Ísraela á Gasasvæðinu í gær. Milljónir eru á vergangi og margir úrkula vonar. — AFP/Menahem Kahana
Bandaríkjastjórn kveðst þess fullviss að Ísraelsmenn fallist á samkomulag um vopnahlé, sem í fyrstu yrði sex vikur, fallist stjórnendur Hamas-hryðjuverkasamtakanna Palestínumegin á það sem nú liggur á borðinu

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Bandaríkjastjórn kveðst þess fullviss að Ísraelsmenn fallist á samkomulag um vopnahlé, sem í fyrstu yrði sex vikur, fallist stjórnendur Hamas-hryðjuverkasamtakanna Palestínumegin á það sem nú liggur á borðinu.

Þetta segir John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs vestanhafs, en það var Joe Biden Bandaríkjaforseti sem kynnti samkomulagið í síðustu viku. Er það í þremur hlutum og gerir ráð fyrir umfangsmikilli neyðaraðstoð hjálparstofnana á Gasasvæðinu auk skipta á ísraelskum gíslum í haldi Palestínumanna fyrir palestínska fanga úr fangageymslum Ísraela áður en átök þjóðanna verða endanlega knúin til kyrrðar. Gervöll Ísraelsstjórn tekur samkomulaginu þó ekki opnum örmum fyrsta kastið. Tveir ráðherrar á hægri væng hóta að binda enda á stjórnarsamstarfið gangi Benjamín Netanjahú forsætisráðherra að samkomulaginu, en eins og loftárásum Ísraelsmanna á Rafah-borg hefur verið háttað síðustu daga, ekki síst nú um helgina, er tíminn til að bera klæði á vopnin ekki ótakmarkaður.

1,7 milljónir á vergangi

Að sögn UNRWA, Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, standa öll 36 flóttamannaskýli stofnunarinnar í Rafah-borg nú tóm eftir að skjólstæðingum þeirra var stökkt á flótta frá borginni með linnulitlum atlögum sem kostað hafa allt að marga tugi mannslífa hver. Talið er að 1,7 milljónir Palestínumanna séu á vergangi í Khan Younis og á Gasasvæðinu miðju og hafði ABC-sjónvarpsstöðin það eftir Kirby í gærmorgun að jáyrði Hamas-liða við samkomulaginu kallaði að líkindum á sömu viðbrögð Ísraela.

„Við bíðum eftir formlegu svari frá Hamas,“ sagði þjóðaröryggisráðsmaðurinn og bætti því við að stjórnvöld í Bandaríkjunum lifðu í voninni um að hinar stríðandi nágrannaþjóðir yrðu ásáttar um að hefja fyrsta lið samkomulagsins „svo fljótt sem verða má“.

Næðist sátt um sex vikna vopnahlé segir Kirby fyrsta skrefið í kjölfarið að samningsaðilar gangi á rökstóla og komi sér saman um útfærslu þess tímabils og hvenær það hæfist.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson