Endurbætur Skrifstofuhúsnæði ÁTVR við Stuðlaháls fær andlitslyftingu.
Endurbætur Skrifstofuhúsnæði ÁTVR við Stuðlaháls fær andlitslyftingu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Framkvæmdir standa nú yfir við stækkun dreifingarmiðstöðvar ÁTVR við Stuðlaháls í Reykjavík. Samhliða þeim er unnið að endurbótum á skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins. Samanlagður kostnaður við þessar framkvæmdir er ríflega 500 milljónir króna.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Framkvæmdir standa nú yfir við stækkun dreifingarmiðstöðvar ÁTVR við Stuðlaháls í Reykjavík. Samhliða þeim er unnið að endurbótum á skrifstofuhúsnæði fyrirtækisins. Samanlagður kostnaður við þessar framkvæmdir er ríflega 500 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur aðstoðarforstjóra ÁTVR er um að ræða 1.400 fermetra viðbyggingu við núverandi dreifingarmiðstöð, stálgrindarhús á einni hæð. Verkið var boðið út síðasta haust en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rétt tæpar 550 milljónir króna. Sjö tilboð bárust og því lægsta var tekið, frá K16 ehf. upp á ríflega 494 milljónir króna. Að sögn Sigrúnar eru áætluð verklok í apríl 2025.

Í nýlegri ársskýrslu ÁTVR sagði forstjórinn Ívar J. Arndal að blikur væru á lofti í rekstri fyrirtækisins, meðal annars vegna aukinnar samkeppni frá netverslunum með áfengi. Sala á áfengi hefur dregist saman hjá ÁTVR á síðustu misserum. Sigrún var því spurð hvort ekki skyti skökku við að ÁTVR væri að færa út kvíarnar við þessar aðstæður.

„Undirbúningur að stækkun dreifingarmiðstöðvar ÁTVR hófst árið 2020. Á árum 2016-2020 jókst sala áfengis að meðaltali um 6% í lítrum árlega eða samtals um sex milljónir lítra. Umfang vörudreifingar jókst samsvarandi eða um 10.000 bretti á tímabilinu. Húsnæði dreifingarmiðstöðvarinnar var orðið alltof lítið og nauðsynlegt að byggja við,“ segir Sigrún.

Hún var jafnframt spurð út í framkvæmdir við skrifstofuhúsnæði ÁTVR fyrir ofan vínbúðina Heiðrúnu. Segir Sigrún að þar sé unnið að endurbótum utanhúss. „Verið er að skipta um járn á þaki og yfirfara ytra byrði hússins og glugga. Áætlaður kostnaður við þá framkvæmd er rúmlega 42 milljónir.“