Maggý Helga Jóhannsdóttir Möller fæddist í Reykjavík 28. október 1979. Hún lést á heimili sínu, Laugarnesvegi 72 í Reykjavík, 13. maí 2024.

Foreldrar hennar eru Helga Möller, f. 12. maí 1957, og Jóhann Tómasson, f. 9. febrúar 1957.

Systkini hennar sammæðra eru Gunnar Ormslev, f. 25. apríl 1987, og Elísabet Ormslev, f. 15. febrúar 1993. Systkini hennar samfeðra eru Valgerður Jóhannsdóttir, f. 8. nóvember 1988, og Hera Jóhannsdóttir, f. 1. mars 1993. Auk þess á hún stjúpsystur, Hrefnu Jónsdóttur, f. 24. júní 1982.

Sonur Maggýjar er Jóhann Georg Jónsson, f. 28. október 2005. Faðir hans er Jón Sigurður Friðriksson, f. 17. janúar 1979.

Maggý ólst upp í Kópavogi fyrstu árin en flutti síðan til Þýskalands í nokkur ár þar sem hún gekk í leikskóla. Hún flutti síðan aftur til Íslands og ólst upp í Kringlunni þar til hún flutti að heiman 18 ára gömul.

Hún útskrifaðist með BS-próf í tölvunarfræði árið 2019 frá Háskólanum í Reykjavík og með MS-próf í verkefnastjórnun árið 2022. Hún starfaði á ýmsum vinnustöðum í gegnum tíðina en síðast var hún verkefnastjóri hjá Svar Tækni.

Útför Maggýjar fer fram í Lindakirkju í dag, 3. júní 2024, klukkan 15.

Ég átti erfitt með að skilja orðin hennar mömmu þegar hún hringdi í mig og sagði að þú værir fallin frá. Að elsku klára, fallega og fyndna Maggý Helga væri farin frá okkur. Hugurinn fór strax á flug og minningarnar um fallega vináttu streymdu til mín.

Fyrir rúmum 44 árum tengdumst við ævilöngum vinaböndum sem mynduðust þegar mæður okkar lágu sængurleguna í lok október árið 1979. Þú þreyttist aldrei á því að minna mig á að þú værir mun eldri en ég og þar af leiðandi mun þroskaðri og gáfaðri. Fædd þessum heila einum degi á undan mér.

Mér fannst þú alltaf svo ofboðslega klár, orðheppin og fyndin og þau sem mig þekkja vita að það eru ekkert rosalega mörg sem gátu gert mig kjaftstopp. En þú varst heldur betur í þeim fámenna en góðmenna hópi.

Síðast þegar við hittumst þá tókst þú dætur mínar með á tónleika hjá Ebedí í Hörpu. Stelpurnar tala enn um hvað þeim fannst þú hlý, góð og skemmtileg. Þær þurftu bara eina kvöldstund með þér til að það lægi ljóst fyrir þeim hvaða manneskju þú hefðir að geyma.

En nú erum við einum færri á vellinum og það munar heldur betur um þig elsku Maggý.

Ég sendi mínar hlýjustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og aðstandenda.

Sakna þín.

Þinn vinur,

Hörður.

Hún var björt og falleg unga stúlkan sem kom ný í bekkinn í Hvassaleitisskóla, örugglega um níu ára aldurinn. Hún var í sérlega fallegum og litríkum fötum og frægasta söngkona landsins var mamma hennar. Auðvitað vakti hún athygli nýju bekkjarsystkinanna.

Við fylgdumst að í gegnum grunnskóla og í unglingadeild urðum við vinkonur. Þegar ég lít til baka finnst mér við hafa verið uppteknar af því að reyna að fóta okkur og finna samastað í tilverunni. Hluti af því ferli var að klæða okkur upp á meðan við hlustuðum á hljómsveitir á borð við Blur og Weezer. Víðar buxur, síð pils og mussur þóttu mjög móðins. Maggý Helga var alltaf flott. Strax á þessum árum var hún byrjuð að sauma fötin sín sjálf eftir eigin hugmyndum enda listræn og skapandi.

Þegar útlitið þótti orðið ásættanlegt var haldið á kaffihús. Við tókum leið 3 niður á Lækjartorg þar sem við settumst inn á kaffihúsið Hvítakot sem var í kjallara Lækjargötu 10. Við pöntuðum svart kaffi, drukkum það löturhægt og reyndum að láta líta út fyrir að okkur líkaði bragðið. Ég get ómögulega munað hvað við ræddum, hvort við leystum lífsgátuna og fundum okkur. Þó man ég mjög vel hvernig mér leið. Það var gaman hjá okkur, fiðrildi í maganum og eftirvænting í loftinu, lífið fram undan.

Það er dýrmætt að verða samferða vinkonu í gegnum táningsárin, eiga hennar trúnað og geta mátað hugmyndir um tilveruna. Maggý Helga var mér þannig vinkona og fyrir það er ég þakklát.

Við fórum í ólíkar áttir, verkefni lífsins tóku við og eins og gengur varð sambandið stopult. Nú skilur leiðir og útséð um að kaffibollarnir verði fleiri. Hafðu þökk fyrir allt og allt elsku vinkona.

Ég votta fjölskyldu og ástvinum innilega samúð.

Vilhelmína
Jónsdóttir.

Árgangur 1995 úr Hvassaleitisskóla var fjölmennur, tveir bekkir og ríflega þrjátíu nemendur í hvorum bekk. Árgangurinn hafði orð á sér fyrir að vera fremur erfiður og óstýrilátur. Fyrir vikið voru skóladagar Maggýjar Helgu og fleiri ekki alltaf auðveldir. En hún var sterkur karakter, fór sínar eigin leiðir, kunni að svara fyrir sig og oft orðheppin.

Hún átti sinn sess í hópnum, átti góða vini og vinkonur og var sannarlega vinur vina sinna.

Útskriftarárið okkar sat Maggý Helga í ritstjórn skólablaðsins. Það ár var mikill metnaður lagður í útgáfuna og fengum við að njóta hugmyndaauðgi og vinnusemi Maggýjar. Maggý Helga var fluggáfuð, uppátækjasöm og skapandi en umfram allt var hún skemmtileg.

Þrátt fyrir fjölmennan og kannski ósamstæðan hóp hefur árgangurinn haldið sambandi og hist nokkuð reglulega í gegnum árin. Nú er skarð höggvið í hópinn og næstu endurfundir verða ljúfsárir. Við minnumst með hlýju og kærleika kærrar skólasystur sem kvaddi of snemma. Við sendum fjölskyldu og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

F.h. skólafélaga úr Hvassó '95,

Þórhildur Ýr Arnardóttir, Jóhanna Tryggvadóttir og Magnús Guðjónsson.