„Mér virðist þetta vera þannig að Katrín átti dyggan hóp stuðningsmanna, en hann var ekki nægjanlega stór, um fjórðungur kjósenda. Hefði hún haft öruggara forskot hefði að mínu mati ekki komið til þessa sambræðings gegn henni á lokametrum…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Mér virðist þetta vera þannig að Katrín átti dyggan hóp stuðningsmanna, en hann var ekki nægjanlega stór, um fjórðungur kjósenda. Hefði hún haft öruggara forskot hefði að mínu mati ekki komið til þessa sambræðings gegn henni á lokametrum kosningabaráttunnar,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Álits hennar var leitað á þeirri kúvendingu sem virðist hafa átt sér stað í fylgi við einstaka forsetaframbjóðendur í kosningunum, en allt til kjördags virtist sem þær báðar, Katrín Jakobsdóttir og Halla Tómasdóttir, nytu álíka mikillar hylli kjósenda.

Ákveðinn hópur kaus taktískt

Hún segir að svo virðist sem ákveðinn hópur kjósenda hafi ákveðið að kjósa taktískt til þess að tryggja að Katrín ynni ekki kosningarnar.

„Halla Tómasdóttir var á lokametrunum komin í góða stöðu og nærri jöfn Katrínu og það auðveldaði ýmsum, sem kannski hefðu ætlað að kjósa Höllu Hrund eða Baldur, að kjósa frekar Höllu Tómasdóttur, af því að þeir vildu tryggja að Katrín ynni ekki og skildu þar með sína frambjóðendur eftir með sárt ennið,“ segir Stefanía.

Spurð hvort algengt væri að kjósendur kysu taktískt hér á landi, að kjósa gegn einum frambjóðanda, segir Stefanía að svo sé ekki. Almennt væru kosningar á Íslandi hlutfallskosningar, fólk kysi stjórnmálaflokka og sætum væri skipt hlutfallslega þeirra á milli.

Þekkist í útlöndum

„Í einmenningskjördæmum í útlöndum þekkist það, og er nánast lögmál, að kjósendur kjósa taktískt, þ.e.a.s. þeir kjósa sinn uppáhaldsstjórnmálamann eigi hann möguleika, en næstbesta kostinn ef hann á möguleika á að fella þann sem þeim er illa við. Þetta á hins vegar ekki við hjá okkur þegar um hlutfallskosningar er að ræða,“ segir hún.

„Forsetakosningar eru aftur á móti persónukosningar og fram til þessa höfum við séð í aðdraganda þeirra hvert stefndi,“ segir hún og nefnir þar að Ólafur Ragnar hafi haft gott forskot á Þóru Arnórsdóttur í kosningunum árið 2012 og enginn frambjóðandi hafi þá átt raunhæfa möguleika á að fella hann. Svipað hafi verið upp á teningnum þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn forseti 2016.

„Við höfum ekki verið í þeirri stöðu áður að frambjóðendur hafi verið hnífjafnir, Katrín fór aldrei ofar en í um það bil fjórðungs fylgi og mátti eiga við það að stór hluti kjósenda gat ekki hugsað sér að hún ynni,“ segir Stefanía.

Hvort hún kunni skýringar á því, þar sem Katrín hafi notið töluverðs stuðnings fólks úr öðrum stjórnmálaflokkum, t.a.m. úr Sjálfstæðisflokknum, segir Stefanía að ýmsar skýringar geti verið þar á.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar mögulega pirraðir

„Ég held að ýmsir stuðningsmenn Samfylkingarinnar hafi verið pirraðir út í hana fyrir að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Síðan held ég að töluvert sé til í þeirri kenningu að sumt fólk telji að forsetinn eigi að vera mótvægi við ríkisstjórnina, þ.e. eigi ekki að vera í sama liði og hún. Síðan held ég að einhverjum hafi mislíkað hvað hún hætti skyndilega og fara úr því að vera forsætisráðherra yfir í forsetaembættið, þótt það of mikill metnaður. Þannig að það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessu,“ segir Stefanía.