Forseti Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, flutti ávarp af svölunum á Klapparstíg ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni og börnum þeirra, Tómasi Bjarti og Auði Ínu.
Forseti Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, flutti ávarp af svölunum á Klapparstíg ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni og börnum þeirra, Tómasi Bjarti og Auði Ínu. — Morgunblaðið/Eyþór
Halla Tómasdóttir var um helgina kjörin sjöundi forseti lýðveldisins og tekur við embætti 1. ágúst af Guðna Th. Jóhannessyni. Halla hlaut 34,1% atkvæða í kosningunum en kjörsókn var 80,8%. Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra hlaut 25,2% …

Sonja Sif Þórólfsdóttir

Anna Rún Frímannsdóttir

Halla Tómasdóttir var um helgina kjörin sjöundi forseti lýðveldisins og tekur við embætti 1. ágúst af Guðna Th. Jóhannessyni. Halla hlaut 34,1% atkvæða í kosningunum en kjörsókn var 80,8%.

Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra hlaut 25,2% atkvæða og munaði 19.203 atkvæðum á Höllu og Katrínu. Halla hlaut alls 73.182 atkvæði en Katrín 53.980. Tveir aðrir frambjóðendur náðu yfir 10% fylgi, Halla Hrund Logadóttir hlaut 15,7% fylgi en Jón Gnarr 10,1%.

„Hjartað er fullt af þakklæti og líka mikilli auðmýkt gagnvart því trausti sem þjóðin er að sýna mér og kannski þeirri staðreynd að það var metkosningaþátttaka og mér finnst eins og þjóðin hafi í reynd kosið með hjartanu,“ segir Halla nýkjörinn forseti í samtali við Morgunblaðið. Halla bauð sig einnig fram til embættis forseta Íslands árið 2016 en hafði ekki erindi sem erfiði. Hún kveðst hafa þurft mikið hugrekki til að bjóða sig fram í annað sinn.

„Ég ætla bara að segja það hreinskilnislega, því það gekk svo vel síðast á endasprettinum, þótt það hafi ekki verið auðvelt, að ég gat bara vel við unað að vera búin að gera þetta og þurfa ekki að gera það aftur,“ segir Halla. Hún segir muninn vera að árið 2016 hafi hún frekar verið að bregðast við ákalli annarra. Nú hafi hún fylgt hjartanu og því ákveðið að bjóða sig fram.

Í upphafi kosningabaráttunnar mældist fylgi Höllu ekki mikið í könnunum en þegar leið á baráttuna jók hún rækilega við fylgi sitt sem skilaði henni flestum atkvæðum. Framan af baráttunni mældist Katrín með meira fylgi, en saman dró með þeim á lokametrunum. „Ég ber svo mikla virðingu fyrir Katrínu Jakobsdóttur og hennar þjónustu og mannkostum að ég átti alveg von á því að það yrði mjög mjótt á mununum á milli okkar. Ég er auðmjúk gagnvart því að hafa fengið meiri stuðning og þakklát auðvitað því það er vissulega gott en ég vil vera forseti allra og líka þeirra sem kusu meðframbjóðendur mína,“ segir Halla.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir