Á Ítalíu Hjónin, börn og tengdabörn við Garda-vatn árið 2023.
Á Ítalíu Hjónin, börn og tengdabörn við Garda-vatn árið 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Ósk Þórisdóttir eða Lilló eins og hún er alltaf kölluð fæddist í Reykjavík sumarið 1954. Á uppvaxtarárunum bjó Lilló í Reykjavík ásamt móður sinni og systrum. Þar gekk hún í Laugarnesskóla og síðar í Langholtsskóla

Lilja Ósk Þórisdóttir eða Lilló eins og hún er alltaf kölluð fæddist í Reykjavík sumarið 1954. Á uppvaxtarárunum bjó Lilló í Reykjavík ásamt móður sinni og systrum. Þar gekk hún í Laugarnesskóla og síðar í Langholtsskóla. „Ég fór ung að vinna við að passa börn. Þrettán ára fékk ég svo vinnu hjá Oddi afa í SÍF (Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda) og þar vann ég í nokkur sumur. Hjá SÍF var eingöngu unninn saltfiskur, eða þurrkað, staflað og pakkað eins og sagt var.“

Sumarið 1970 fór Lilló með vinkonu sinni til Súðavíkur. „Við fórum vestur til að hjálpa til á Dvergasteini í Álftafirði, en amma og afi vinkonu minnar bjuggu þar. Það var í fyrsta skipti sem ég fór að heiman og við dvöldum þar í nokkrar vikur, líklega í á annan mánuð að mig minnir. Þarna er ég sextán ára gömul og til í ný ævintýri. Þetta sumar var heldur betur skemmtilegt og gaman að kynnast nýju umhverfi og nýju fólki. Hjónin á Dvergasteini voru yndisleg og sveitastörfin fjölbreytt og skemmtileg.

Um haustið lá leiðin aftur heim til Reykjavíkur en ævintýrin fyrir vestan toguðu í mig. Það var svo í desember 1970 að leiðin lá aftur vestur í Súðavík. Ég ætlaði reyndar bara að skreppa vestur í jólafrí en ílengdist. Í janúar réð ég mig hjá Frosta hf. til að starfa í fiski. Þar var rosalega gaman, skemmtilegir samstarfsfélagar og líf og fjör. Ástin greip í taumana og í Súðavík er ég enn.

Við Jónatan maðurinn minn eða Tani eins og margir kalla hann fórum að búa um haustið 1971, fyrst í Tröð á heimili fjölskyldu hans. Á þeim tíma voru þar í heimili móðir hans, frændi og amma hans og afi og svo við. Þess konar sambúð er ekki jafn algeng í dag og á þeim tíma. Við fórum svo suður veturinn 1972 en þá fór Tani í Stýrimannaskólann í Reykjavík og ég fór að vinna í SÍF. Við höfðum stutt stopp í borginni og fluttumst aftur vestur í nýbyggt hús okkar við Túngötu 13 í Súðavík 1973. Þar með hófst fjölskyldulífið og okkar fyrsta barn af fjórum fæddist í mars 1974. Yngri börnin fæddust svo 1977, 1981 og 1986. Yngsta dóttirin fæddist með mikinn hjartagalla og lést aðeins vikugömul. Árið 1986 var fjölskyldunni afar erfitt því að í janúar það sama ár lést Árný systir mín eftir stutt veikindi, þá aðeins 28 ára gömul, frá tveimur ungum börnum.

Við höfðum stækkað við okkur húsnæði 1984 og flutt að Nesvegi 3 í Súðavík. Á þessum árum var ég að mestu heimavinnandi en tók þó að mér ýmis störf í skemmri og lengri tíma svo sem að vinna á leikskólanum í Súðavík og svo kenndi ég handmennt og heimilisfræði við Grunnskólann í Súðavík. Þetta er lítið þorp og ef það er í hringt í mann og maður beðinn að leysa af einhvers staðar þá hef ég gert það.

Það var svo eftir hörmulegu snjóflóðin í janúar 1995 að við hjónin tókum að okkur barn í fóstur í fyrsta sinn. Það atvikaðist þannig að ungur drengur hafði misst ömmu sína og afa, sem hann var búsettur hjá, í snjóflóðunum. Hann dvaldi hjá okkur fjölskyldunni í nokkra mánuði. Síðar áttum við eftir að taka að okkur fjölda fósturbarna í skemmri og lengri tíma. Ég held að í heildina hafi dvalið hjá okkur yfir þrjátíu börn og ungmenni.

Það að taka börn í fóstur er mjög gefandi og afar lærdómsríkt. Þær Heba Rut og Sara Miriam dvöldu þó lengstan tíma hjá okkur af öllum eða í samtals tólf ár með hléum. Þær systur eru á aldur við barnabörnin okkar og hafa fallið vel inn í þann fríða hóp. Þær eru hluti af fjölskyldunni og koma oft í heimsókn í skólafríum og á sumrin líkt og barnabörnin.

Núna starfa ég við félagsstarf eldri borgara í Súðavík og þar hitti ég mikið af frábæru fólki sem er yndislegt. Í félagsstarfinu kemur fólk saman og vinnur ýmiss konar handavinnu, allt eftir áhuga hvers og eins, sem gerir starfið afar fjölbreytt og skemmtilegt. Fólk er t.d. að gera hannyrðir, mála eða púsla svo eitthvað sé nefnt. Þetta hentar mér vel því ég hef alltaf verið félagslynd og haft gaman af handavinnu.“

Lilja situr í fræðslunefnd Súðavíkurhrepps og er sömuleiðis í kjörstjórn hreppsins.

„Við hjónin erum mikið fjölskyldufólk og leggjum mikið upp úr því að verja sem mestum tíma með fjölskyldunni. Ég er afar þakklát fyrir hópinn okkar sem er orðinn stór og mikill og auk barnabarnanna hafa bæst í hópinn tvö langömmubörn sem er dásamlegt.“

Fjölskylda

Eiginmaður Lilju er Jónatan Ingi Ásgeirsson, f. 30.7. 1953, stýrimaður. Foreldrar Jónatans voru Steinunn María Jónatansdóttir, f. 30.4. 1931, d. 16.2. 1990, verkakona í Súðavík, og Ásgeir Ásgeirsson, f. 24.10. 1926, d. 6.6. 1970, sjómaður í Reykjavík.

Börn Lilju og Jónatans: 1) Sædís Maríar, f. 14.3. 1974, forstöðumaður hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Maki: Jóhann Bæring Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Ístækni á Ísafirði; 2) Steinunn Björk, f. 29.7. 1977, náms- og starfsráðgjafi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Maki: Sverrir Þór Kristjánsson, leigubílstjóri hjá Hreyfli; 3) Kristján Jón, f. 24.6. 1981, fjármálastjóri hjá Banönum ehf. Maki: Íris Björk Árnadóttir, flugfreyja hjá Icelandair og sjúkraliði á Landspítala; 4) Lilja Ósk, f. 6.10. 1986, d. 12.10. 1986. Lilja og Jónatan eiga 13 barnabörn og tvö barnabarnabörn.

Hálfsystkini Lilju móðurmegin: Ingibjörg Karen Matthíasdóttir, f. 31.5. 1962, og Árný Matthíasdóttir, f. 25.10. 1958, d. 15.1. 1986. Hálfsystkini föðurmegin eru Sigurður Þórisson, f. 28.3. 1963, Stefanía Ósk Þórisdóttir, f. 17.11. 1966, og Vilhjálmur Þór Þórisson, f. 20.6. 1971.

Móðir Lilju var Steinunn Svala Ingvadóttir, f. 9.3. 1936, d. 7.11. 2000, húsmóðir og verkakona í Grindavík. Eiginmaður Steinunnar var Sæmundur Jónsson, skipstjóri í Grindavík. Faðir Lilju var Þórir Sigurður Oddsson, f. 1.9. 1934, d. 9.6. 1993, húsgagnasmiður í Reykjavík. Þórir var giftur Guðrúnu Ósk Sigurðardóttur, húsmóður í Reykjavík.