Wembley Leikmenn Real Madrid og Carlo Ancelotti fagna sigrinum.
Wembley Leikmenn Real Madrid og Carlo Ancelotti fagna sigrinum. — AFP/Glyn Kirk
Real Madrid frá Spáni varð Evrópumeistari karla í fótbolta í fimmtánda skipti í fyrrakvöld með því að sigra Borussia Dortmund frá Þýskalandi, 2:0, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley-leikvanginum í London

Real Madrid frá Spáni varð Evrópumeistari karla í fótbolta í fimmtánda skipti í fyrrakvöld með því að sigra Borussia Dortmund frá Þýskalandi, 2:0, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley-leikvanginum í London.

Dortmund var betri aðilinn í fyrri hálfleik en Real Madrid í þeim síðari og Dani Carvajal og Vinícius Junior skoruðu mörkin á 74. og 83. mínútu.

Carlo Ancelotti hefur þar með þrisvar stýrt Real Madrid til Evrópumeistaratitils, árin 2014, 2022 og 2024. Hann vann titilinn áður með AC Milan 2003 og 2007 og enginn annar knattspyrnustjóri hefur afrekað það oftar en þrisvar.

Real Madrid, sem varð fyrst Evrópumeistari árið 1956, hefur unnið 15 af 18 úrslitaleikjum sínum frá þeim tíma og tapaði síðast úrslitaleik árið 1981. Titillinn er sá áttundi hjá félaginu frá aldamótum.

Dortmund lék til úrslita í þriðja sinn en félagið varð meistari 1997.