[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orri Freyr Þorkelsson varð í gær bikarmeistari í Portúgal með Sporting þegar lið hans vann Porto í úrslitaleiknum, 33:30. Orri var í stóru hlutverki og skoraði átta mörk í leiknum

Orri Freyr Þorkelsson varð í gær bikarmeistari í Portúgal með Sporting þegar lið hans vann Porto í úrslitaleiknum, 33:30. Orri var í stóru hlutverki og skoraði átta mörk í leiknum. Sporting hafði áður tryggt sér portúgalska meistaratitilinn. Orri skoraði fimm mörk á laugardag þegar Sporting vann Belenenses í undanúrslitum bikarsins, 28:20.

Knattspyrnudeild Grindavíkur sagði Brynjari Birni Gunnarssyni, þjálfara karlaliðs félagsins, upp störfum eftir jafnteflisleik gegn Keflavík í 1. deildinni á föstudagskvöldið. Brynjar sagði við 433.is að uppsögnin væri vegna þess að hann valdi ekki son stjórnarmanns í leikmannahópinn en Haukur Guðberg Einarsson formaður deildarinnar sagði við fotbolti.net að ástæðan væri staða liðsins í deildinni en Grindavík hefur ekki unnið neinn af fyrstu fimm leikjum sínum.

Fjölnismenn eru enn taplausir í 1. deild karla í fótbolta en þeir gerðu jafntefli, 2:2, við ÍBV í Vestmannaeyjum á laugardag. Oliver Heiðarsson og Guðjón Ernir Hrafnkelsson skoruðu fyrir ÍBV en Máni Austmann Hilmarsson og Axel Freyr Harðarson fyrir Fjölni.

Grótta hefur heldur ekki tapað leik og gerði jafntefli við Dalvík/Reyni fyrir norðan, 2:2. Áki Sölvason og Amin Guerrero komu Dalvík/Reyni í 2:0 en Gabríel Hrannar Eyjólfsson og Damian Timan svöruðu fyrir Gróttu.

Í 1. deild kvenna tapaði Afturelding sínum fyrsta leik, 2:0 gegn FHL á Reyðarfirði. Samantha Smith og Emma Hawkins skoruðu mörk Austfirðinga.

Elías Már Ómarsson og samherjar hans í Breda tryggðu sér í gær sæti í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þeir töpuðu þó 4:1 fyrir Excelsior í seinni umspilsleik liðanna á útivelli í Rotterdam en höfðu unnið fyrri leikinn 6:2. Breda vann því 7:6 samanlagt og kemst upp þrátt fyrir að hafa endað í 8. sæti B-deildarinnar í vetur. Elías kom inn á sem varamaður á 70. mínútu í leiknum í gær.

Guðmundur Þ. Guðmundsson og lærisveinar hans í Fredericia misstu naumlega af danska meistaratitlinum í handknattleik þegar þeir töpuðu fyrir Aalborg á útivelli, 27:26, í hreinum úrslitaleik liðanna á laugardaginn. Þetta er besti árangur Fredericia í 44 ár. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki fyrir liðið en stóð vaktina í vörninni. Ágúst Elí Björgvinsson varði tvö skot og skoraði eitt mark en Elvar Ásgeirsson skoraði ekkert þegar lið þeirra, Ribe-Esbjerg, tapaði fyrir Skjern, 39:31, í oddaleik um bronsverðlaunin í deildinni.

Sindri Hrafn Guðmundsson vann til silfurverðlauna á sterku frjálsíþróttamóti í Idaho í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Hann kastaði 78,09 metra. Sindri býr sig undir EM sem hefst í Róm um næstu helgi en þar freistar hann þess að ná ólympíulágmarkinu sem er 85,50 metrar.

Línumaðurinn Kristján Ottó Hjálmsson er genginn til liðs við handknattleikslið Aftureldingar frá HK. Kristjáni er ætlað að fylla skarð Jakobs Aronssonar sem var á láni í Mosfellsbænum frá Haukum. Afturelding hefur fengið tvo leikmenn frá Færeyjum. Það eru Sveinur Ólafsson, rétthentur miðjumaður og skytta sem kemur frá H71, og Hallur Arason, 25 ára örvhent skytta sem kemur frá VÍF.

Óðinn Þór Ríkharðsson varð í gær svissneskur meistari í handknattleik þegar Kadetten vann Kriens, 32:25, í oddaleik liðanna um meistaratitilinn á heimavelli Kadetten í Schaffhausen. Óðinn varð markahæstur með átta mörk og var einnig markahæsti leikmaður Kadetten í fimm leikja einvígi liðanna með 25 mörk samtals.

Bjarki Steinn Bjarkason og Mikael Ellertsson unnu sér í gærkvöld sæti í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu með liði sínu, Venezia frá Feneyjum. Venezia vann seinni umspilsleikinn gegn Cremonese á heimavelli, 1:0, en fyrri leikurinn endaði 0:0. Bjarki kom inn á eftir 80 mínútur í gærkvöld og Mikael var á bekknum allan leikinn en þeir hafa báðir spilað flesta leiki Venezia á tímabilinu.