Árskógsströnd Bjórböðin á Árskógssandi við Eyjafjörð eru nú til sölu.
Árskógsströnd Bjórböðin á Árskógssandi við Eyjafjörð eru nú til sölu. — Morgunblaðið/Hari
„Okkur þykir gríðarlega vænt um þetta fyrirtæki og bjórböðin eru bæði vinsæl og húsið mjög vel heppnað,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, sem ásamt fjölskyldu sinni er eigandi Bjórbaðanna á Árskógssandi í Eyjafirði, en nú er fyrirtækið komið á sölu

„Okkur þykir gríðarlega vænt um þetta fyrirtæki og bjórböðin eru bæði vinsæl og húsið mjög vel heppnað,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, sem ásamt fjölskyldu sinni er eigandi Bjórbaðanna á Árskógssandi í Eyjafirði, en nú er fyrirtækið komið á sölu.

„Við erum bara búin með allt okkar þrek og ástæðan er keðjuverkandi áhrif frá covid-faraldrinum og vaxtastefna Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Við höfðum opna líflínu í bankann til þess að geta haldið opnu, en fyrirtækið var mjög ungt þegar faraldurinn hófst,“ bætir hún við og segir að skuldaaukningin vegna þessa hafi síðan margfaldast undanfarin tvö ár í endalausum vaxtahækkunum.

Vaxtakjörin ekki boðleg

„Okkur leið eins og við værum í fullri vinnu fyrir bankann,“ segir Agnes, sem segir vaxtakjör á Íslandi ekki boðleg, hvorki fyrirtækjum né einstaklingum, og það sé erfitt að standa vaktina þegar allt viðskiptaumhverfið vinnur gegn rekstrinum.

„Ég vona að einhver taki nú við rekstrinum sem hefur meira þrek en við höfum núna og geti sinnt þessu af ást og umhyggju og rekið bjórböðin áfram,“ segir Agnes. Hún segir það ekki hafa verið auðvelt skref að taka þessa ákvörðun, að setja fyrirtækið á sölu, því fyrirtækið eigi stóran sess í hjörtum þeirra hjóna. „Við vorum búin að hugsa hvort við ættum að auka við hlutaféð, því reksturinn hefur gengið mjög vel eftir að faraldrinum lauk, en þegar við tókum allt saman sáum við að við höfðum ekki þrek til þess.“ doraosk@mbl.is