Helgi Guðmundsson fæddist 14. nóvember 1929 í Súluholti í Villingaholtshreppi í Flóa. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 20. maí 2024.

Foreldrar hans voru Guðmundur Helgason bóndi í Súluholti, f. 31.8. 1883, d. 28.10. 1970, og Vilborg Jónsdóttir húsfreyja þar, f. 20.4. 1895, d. 13.4. 1981.

Helgi var yngstur af fimm systkinum. Hin voru Helga, f. 25.6. 1922, d. 15.1. 2012, Sigurður, f. 4.2. 1924, d. 8.10. 2007, Ingibjörg, f. 31.1. 1926, d. 8.8. 2021, og Kristín, f. 21.3. 1927, d. 5.5. 2010.

Helgi giftist Helgu Guðjónsdóttur frá Bollastöðum í Hraungerðishreppi í Flóa þann 25. febrúar 1961.

Börn þeirra eru: 1) Vilborg, f. 6.1. 1962, maki Jónas Magnús Andrésson, f. 11.4. 1960. Synir þeirra eru Helgi Gunnar og Sigurjón Guðbjartur. 2) Sveinn, f. 18.6. 1967, maki Kristín Guðbrandsdóttir, f. 11.4. 1974. Dætur þeirra eru Þórkatla og Dýrleif Birna. Sonur Sveins af fyrra hjónabandi er Ívar Elí. Maki hans er Kristín Björg Sigurvinsdóttir og börn þeirra eru Ágúst Elí og Þórey Eva.

Helgi ólst upp í Súluholti við almenn sveitastörf og sótti farskóla þegar hann var á barnaskólaaldri. Hann vann við verslunarstörf og smíðar á Selfossi og lauk þar námi í húsasmíði við Iðnskólann. Helgi stundaði líka nám í bréfaskóla þar sem hann lærði m.a. erlend tungumál.

Árið 1955 útskrifaðist Helgi frá Samvinnuskólanum sem þá var enn í Reykjavík og var þar í bekk með Helgu eiginkonu sinni. Þau bjuggu á nokkrum stöðum á Selfossi áður en þau reistu sér einbýlishús í Lyngheiði 20 og fluttu þar inn 1959. Helga lést þann 5. júlí 2022 en Helgi bjó áfram í húsinu til dauðadags, eða í 65 ár.

Helgi var húsasmíðameistari og rak sitt eigið byggingarfyrirtæki í meira en hálfa öld, lengi vel með 4-5 starfsmenn. Fyrst nýtti hann bílskúrinn í Lyngheiðinni fyrir starfsemina en reisti svo eigið verkstæðishús við Gagnheiði á Selfossi. Helgi byggði fjölda fjósa auk annarra húsa og mannvirkja í sunnlenskum sveitum. Þá endurbyggði hann Strandarkirkju í Selvogi og sá um endurbætur og viðhald á nokkrum kirkjum í Rangárvallasýslu. Helgi byggði nokkur íbúðarhús á Selfossi og vann einnig við byggingu nýs Mjólkurbús Flóamanna á Selfossi á námsárum sínum hjá Kristni Vigfússyni trésmíðameistara sem reisti Mjólkurbúið. Helgi var gjaldkeri í fyrstu stjórn byggingariðnaðarmanna á Suðurlandi.

Helgi var fjölfróður og fylgdist grannt með þjóðmálum. Þá hafði hann gaman af því að semja vísur og skrá hjá sér frásagnir af mönnum og málefnum. Fjölskyldan var honum þó kærust. Helgi var trygglyndur, ráðagóður og vildi öllum vel.

Útför Helga er gerð frá Selfosskirkju í dag, 3. júní 2024, kl. 13.30. Jarðsett er í Hraungerði.

Pabbi var víðlesinn heimsborgari sem átti langa og farsæla starfsævi við smíðar út um sunnlenskar sveitir og á Selfossi. Hans bestu stundir voru þó að sökkva sér niður í bækur og rit um sögu og landafræði eða önnur hugðarefni. Pabbi var líka áskrifandi að National Geographic-tímaritinu í áratugi. Hann naut þess að ferðast innanlands eða utan og fór t.d. í eftirminnilega ferð til Grænlands á slóðir Eiríks rauða. Ferðalög pabba byrjuðu gjarnan með því að kynna sér áfangastaðinn, svo var mætt á svæðið og loks tók við frekari lestur eftir að heim var komið. Þannig ferðaðist pabbi oft þrisvar sinnum eins og mágur minn Jonni orðaði það. Ég hef erft þennan fróðleiksþorsta pabba og í æsku minni áttum við góðar samverustundir þegar við rýndum í landabréfabækur. Seinna nutum við þess að fara saman í bíltúra um Suðurlandið og skoðuðum þá handverk pabba, t.d. í kirkjum.

Pabbi var listasmiður og ekkert verkefni óx honum í augum. Hann lagði vel niður fyrir sér hvað gera þyrfti og hvernig. Í rauninni var þetta lífsviðhorf pabba sem hann miðlaði til fjölskyldunnar og samferðafólks. Hann hafði mömmu sér við hlið í um 70 ár, allt frá því þau dönsuðu saman á sveitaballinu í Þingborg um árið og hann geymdi fyrir hana slæðuna fallegu sem þurfti svo auðvitað að skila til eigandans.

Mamma lést sumarið 2022 og pabbi saknaði hennar sárt. Hann hélt áfram að bjóða mömmu góða nótt á kvöldin og hlakkaði til að sameinast henni í eilífðinni þegar að því kæmi. Nú geta þau dansað að vild við uppáhaldstónlistina sína og ferðast saman eða bara fengið sér rjómapönnukökur og kaffi með.

Pabbi elskaði lífið og fjölskyldan var honum allt. Hann var stoltur af afkomendum sínum, gladdist yfir því að sjá barnabörnin vaxa úr grasi og að eignast langafastrák og –stelpu. Greiðvikni hans og örlæti náði líka til vina, nágranna, starfsmanna og annars samferðafólks.

Pabbi var af kynslóðinni sem breytti Selfossi úr þorpi í bæ. Hann hélt líka alltaf tryggð við Súluholt þar sem hann fæddist og ólst upp. Pabbi var framsóknarmaður alla tíð og Jónas frá Hriflu, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, kenndi t.d. mömmu og pabba í Samvinnuskólanum. Pabbi náði ekki að kjósa í kosningunum til forseta Íslands á laugardaginn var. Fram að því hafði hann hins vegar greitt atkvæði í öllum forsetakosningum lýðveldissögunnar. Á ævi pabba hefur íslenskt samfélag tekið stakkaskiptum. Seinni heimsstyrjöldin hófst þegar hann var 10 ára og frá brúsapalllinum við afleggjarann að Súluholti fylgdist hann með breskum hermönnum marsera niður bæjarhreppsveginn.

Þegar ég sit við eldhúsborðið í Lyngheiði 20 og horfi á auðan stólinn beint á móti mér er ég sorgmæddur en fyrst fremst þakklátur fyrir að hafa átt ástríkan föður sem var alltaf til staðar fyrir mig og mína nánustu. Hvort sem það var að gefa hestunum hennar Vilborgar systur á morgnana, eða smíða himnastigann á Linnetsstígnum fyrir mig og Kristínu mína. Það var aldrei komið að tómum kofunum hjá Helga Guðmundssyni.

Hvíl í friði elsku pabbi.

Þinn sonur,

Sveinn.

Þegar ég var að byrja grunnskólagöngu mína, þá gekk hann afi Helgi oft með mér í skólann. Stundum fannst honum ég ekki drífa mig nógu mikið og að athygli mín væri kannski einum of léttilega gripin af einhverju sem varð á vegi okkar en ég veit það fyrir víst að hann hafði bæði gott og gaman af þessum göngum. Ég hef oft skynjað það að honum þótti vænt um þessar minningar og þykir mér hið sama. Ekkert ótrúlegt eða sérlega eftirtektarvert átti sér stað í þessum göngum en þær hafa samt staðið upp úr í minningum okkar beggja sem eitthvað indælt.

Sigurjón Guðbjartur Jónasson.

Það sem ég dáðist einna mest að í fari afa míns var það að hann lokaði sig ekki inni í einhverju boxi. Hann var smiður að mennt, og mjög lunkinn í sinni iðju. Ég var svo lánsamur að hafa örlítið unnið í kringum hann, þannig að ég fékk að sjá Helga Guðmundsson húsasmíðameistara hrista af sér ellina og þjóta upp stiga, hræra steypu eða sitja klofvega uppi á þaki, í bláu vesti og með hamar í hendinni.

En hann var alveg jafnvígur á fræðilega sviðinu, enda mikill landafræði- og sagnfræðihaus. Hann talaði oft um landslagið í hinum ýmsu löndum, og gat rakið fljót í gegnum lönd og jafnvel heimsálfur. Hann hafði líka mikið yndi af að lesa um Napóleon, og ég man alltaf eftir því þegar hann byrjaði að segja okkur bræðrunum frá honum, og amma dæsti og sagði: „Æ Helgi, byrjaðu nú ekki að tala um Napóleon.“

Sumir bíta það í sig að vera bara eitthvað eitt, og takmarka þar af leiðandi hvað þeir gætu gert, lært eða orðið. En afi gerði það ekki. Hann var nógu öruggur í eigin skinni til að vera allt mögulegt, og það hefur mótað mig meira en orð fá lýst. Ég verð alltaf þakklátur fyrir að hafa haft þessa fyrirmynd.

Helgi Gunnar Jónasson.

Ég vil með nokkrum orðum minnast frænda míns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu hans.

Bærinn Súluholt er í Flóahreppi á Suðurlandi. Þar dvöldum við bróðir minn flest sumur í barnæsku okkar en foreldrar okkar byggðu sumarhús á landareigninni árið 1942. Þá var seinni heimsstyrjöldin í fullum gangi úti í heimi. Vilborg Jónsdóttir, systir pabba, var gift Guðmundi Helgasyni bónda. Okkur leið vel þarna í faðmi fjölskyldunnar og á bænum dvöldu Helgi bróðir Guðmundar og einnig afi okkar og amma í föðurætt.

Helgi Guðmundsson var yngstur fimm Súluholtssystkina, eins og börn Guðmundar og Vilborgar voru gjarnan nefnd, en hin voru Helga, Sigurður, Ingibjörg og Kristín.

Þótt frændsystkin væru að vísu nokkru eldri vorum við meira en velkomin í þeirra hóp bæði við leik og störf. Hvort sem var við bústörfin eða ferðir á viðburði hjá ungmennafélaginu í hreppnum þar sem þau voru mjög virk. Helgi stundaði frjálsar íþróttir á þeim tíma en störfin við búið gáfu ekki mikinn tíma til æfinga. Helgi leyfði okkur að nota öll sín leikföng sem voru flest smíðuð af honum sjálfum, bílar úr bárujárni, karlar og dýr tálguð úr tré. Þetta var mikill fjársjóður og undum við okkur vel við að gera bú með þessum leikföngum.

Eiginkona Helga var Helga Guðjónsdóttir frá Bollastöðum í Hraungerðishreppi. Þau stunduðu bæði nám í Samvinnuskólanum. Síðar settust þau að á Selfossi og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Helgi lagði stund á trésmíði, varð húsasmíðameistari og vann að smíðum víða um Suðurland.

Ég tel að vera mín með frændfólkinu í sveitinni hafi mótað hugarfar mitt, samheldni fjölskyldunnar við vinnu og hlaup í kringum dýrin. Þetta kenndi mér að ganga að verkum og sinna þeim af alúð og samviskusemi. Því vil ég að leiðarlokum þakka Helga og Súluholtssystkinunum öllum fyrir frændsemina í gegnum árin. Blessuð sé minning þeirra.

Elsku Vilborg, Sveinn og fjölskyldur. Guð blessi föður ykkar, afa og langafa.

Katrín Helga Ágústsdóttir.

Látinn er kær frændi minn og nafni, Helgi Guðmundsson húsasmíðameistari frá Súluholti, lengst af búsettur á Lyngheiði 20 á Selfossi. Helgi var fæddur og uppalinn hér í Súluholti og hafði alla tíð sterka tengingu við staðinn og frændfólkið sem hér býr. Það má segja að flest hús sem hér standa hafi hann komið að því að byggja að einhverju eða öllu leyti, einnig breytingum eftir því sem þörf var á vegna breyttrar tækni. Síðasta húsið sem hann tók að sér hér var gripahús. Spurði ég Helga hvort hann væri til í að taka það að sér, hann tók vel í það, spurði svo hvernig það ætti að vera, til hvaða nota og hvað stórt. Lýsti ég því eins nákvæmlega og ég gat. Ekki leið á löngu þar til Helgi var mættur með teikningar að húsinu sem hann hafði gert og spurði hvort þær væru ekki í samræmi við okkar hugmyndir. Það reyndist vera svo, ekki skakkaði neinu smáatriði, ekki nóg með það heldur teiknaði hann einnig og reiknaði burðarþol og járnalögn í húsið. Var svo aðalsmiður og drifkraftur við byggingu þess, þá kominn fast að áttræðu, vel á sig kominn, liðugur og klifraði um mót og stillansa sem ungur væri. Þegar síðasta sperran fór upp voru að störfum fulltrúar þriggja kynslóða hér af staðnum og sagði Helgi að það væri vel við hæfi því nú yrðum við vitni að sögulegum viðburði; þetta væri síðasta sperran sem hann reisti á sínum ferli og rétt væri að ljúka ferlinum á sama stað og hann byrjaði.

Starfsferill Helga var bæði langur og farsæll enda var hann bæði vandvirkur og nákvæmur, tók að sér smíði og viðgerðir á öllum gerðum húsa, meðal annars íbúðarhúsum, félagsheimilum, iðnaðarhúsum, alls konar gripahúsum og gerði upp til dæmis nokkrar kirkjur, meðal annarra Strandarkirkju í Selvogi. Með sanni má segja að byggingarnar sem hann tók að sér beri meistara sínum gott vitni.

Þó að smíðavinnan yrði hans ævistarf hafði Helgi hin margvíslegustu áhugamál, ferðaðist víða bæði innanlands og utan og lagði sig eftir því hvernig aðrar þjóðir höguðu sínum málum. Hvað varðaði alþjóðastjórnmál og efnahagsmál, í öllu því var hann vel heima. Málefni landbúnaðarins voru honum mjög hugleikin, bæði hvað varðaði nýjustu tækni og hvers konar ræktun, kornrækt var honum mikið áhugamál og fylgdist hann vel með því hvernig sáning og uppskerustörf gengu fyrir sig, kom reglulega við og skoðaði akrana. Eitt það síðasta sem hann vildi hafa fréttir af var hvernig hefði gengið að vinna flög og sá korninu núna í vor.

Það er öruggt að við hér í Súluholti eigum eftir að sakna skemmtilegra samverustunda með Helga, en minningarnar ylja um jákvæðan heiðursmann sem jafnan lagði gott til manna og málefna. Guð geymi þig kæri frændi með þökk fyrir allt.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Vilborgu, Sveini og þeirra fjölskyldum.

Helgi Sigurðsson.

Nú er Helgi vinur minn í þrjá aldarfjórðunga allur. Fyrstu samfundir okkar voru á íþróttamóti á Loftsstaðaflötum en Ungmennafélagið Vaka í Villingaholtshreppi og Samhygð í Gaulverjabæjarhreppi héldu á hverju sumri íþróttakeppni þar sem keppt var um hvort félagið yrði hærra að stigum. Við Helgi kepptum þarna í spjótkasti. Ekki held ég að þessi keppni okkar hafi skilað miklum afrekum en við höfðum öll ánægju og metnað til að reyna að standa okkur sem best. Helgi keppti fyrir Vöku en ég fyrir Samhygð.

Vorið 1956 lágu leiðir okkar saman þar sem við fengum lóðir hlið við hlið við Lyngheiði á Selfossi og fórum að grafa fyrir húsunum með skóflu. Gröftur með gröfum kom svo nokkru síðar. Það voru yfirleitt 1-2 metrar af jarðvegi ofan á Þjórsárhrauninu. Það var heldur dýpra hjá Helga, aðeins höfuðið eitt stóð upp úr. Við byggðum hús okkar að mestu sjálfir en þá vorum við báðir komnir með kærustur. Kona Helga var Helga Guðjónsdóttir frá Bollastöðum í Hraungerðishreppi en hún lést fyrir tæpum tveimur árum.

Við Helgi lentum strax í stjórn Félags byggingariðnaðarmanna í Árnessýslu um 1960. Helgi var gjaldkeri en ég formaður. Það var gott að vinna með Helga, sem var trésmiður. Ég held að hann hafi unnið sjálfstætt nær alla sína vinnuævi, oftast með einn eða tvo menn með sér. Hann var í verkum víða um Suðurland, m.a. gerði hann upp nokkrar kirkjur. Helga kona hans var svolítið lengra til vinstri en hann. Hún var alltaf á framboðslista með mér í þau 12 ár sem ég leiddi lista til sveitarstjórnar, en Helgi studdi Framsóknarflokkinn. Allt var þetta á vinsamlegum nótum hjá okkur. Börn þeirra tvö, Sveinn og Vilborg, eru mannkostaeinstaklingar.

Helgi var heilsuhraustur og hafði ekki verið nema nokkra daga á sjúkrahúsi þegar hann lést. Ég mun alltaf minnast hans með virðingu og þökk.

Hans nánustu flyt ég innilegar samúðarkveðjur.

Sigurjón Erlingsson.