Magnús Halldórsson yrkir á Boðnarmiði: Ég orti þessa' í einum rykk, sem ýmsir munu telja klikk. Húní írsk ei telst, þótt allra helst líkindin séu með Limerick. Helgi Ingólfsson hafði orð á því á fimmtudag að hann heyrði skemmtilegt nýtt orð í…

Magnús Halldórsson yrkir á Boðnarmiði:

Ég orti þessa' í einum rykk,

sem ýmsir munu telja klikk.

Húní írsk ei telst,

þótt allra helst

líkindin séu með Limerick.

Helgi Ingólfsson hafði orð á því á fimmtudag að hann heyrði skemmtilegt nýtt orð í gær:

Þau búa í bergmálshelli

og báglega umbera skelli.

Þau véla um valdið

sem vel skal á haldið,

en óttast mest elítuhrelli.

Limrurnar Í Hvalasafni eftir Sturlu Friðriksson:

Við hittumst hér vinir að vanda

og virðum til beggja handa

í fallegum sölum

fjöldann af hvölum

á Fiskislóð úti á Granda.

Við hittumst í sýningarsölum,

og saman um gripina tölum

þar sem ég og var

á safninu þar

alveg að kafna úr kvölum.

Í Sjöundu Davíðsbók segir frá því ráðamenn hugleiddu veturinn 2019 að þar sem barnafjölskyldur væru nær allar fluttar úr Grímsey væri ráð að fá þangað eldra fólk:

Breytt Grímsey vill gömlum hið besta,

þar góðvild mun ríkja og festa

og augljós er þörfin

fyrir öll nýju störfin

en einkum þó grafara og presta.

Í Davíðsbók segir einnig frá því, að þegar læknaverkfallinu lauk létti mjög þeim sjúklingum sem biðu eftir aðgerð:

„Þvílíkur léttir að lenda ekki í því

að liggja hér sjálfdauð og rotin,“

sagði hölt rolla er datt oní dý

er dregin var upp úr – og skotin.

Tómas Guðmundsson kvað:

Hamingjufjandi húmið er

ef hleypt er geyst á skeið

því hált er stundum í Bakarabrekku

og brött er siðferðisleið.

Karl Sigtryggsson á Húsavík var spurður að því hvort hann vildi láta grafa sig eða brenna þegar jarðvist hans væri lokið. Hann svaraði:

Minni sterku moldarþrá

mundi bálið ama

en þeim sem vísan eldinn á

ætti að standa á sama.

Öfugmælavísan:

Skatan á að skrýða prest,

skrifað er það í bókum,

krummi oft í kórnum sést,

kálfur á við stýrið best.