Mohamad Khattab
Mohamad Khattab
Peningaþvætti getur átt sér stað á öllum stigum samfélagsins.

Mohamad Khattab

Ísland er norrænt land sem felur í sér óspillta náttúrufegurð í bland við framúrskarandi skuldbindingar um fjárhagslegan heiðarleika. Á meðan efnahagslegt tap vegna peningaþvættis á heimsvísu liggur á bilinu átta hundruð milljarðar til tvær billjónir bandaríkjadala tekur Ísland hins vegar jákvæðum framförum í málaflokknum.

Eftir áralangt ströggl og svo síðar meir úrbætur þegar kemur að því að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka markaði árið 2020 þáttaskil. Þá var tekin ákvörðun á aðalfundi FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, um að nafn Íslands yrði fjarlægt af lista samtakanna yfir ríki með ófullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hinum svokallaða „gráa lista“ FATF. Ísland rataði á listann árið 2019.

Nýleg skýrsla um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka mælir árangur ríkja út frá 40 viðmiðum. Skýrslan leiddi í ljós að Ísland uppfyllti 22 af 40 viðmiðum auk þess sem 16 af viðmiðunum voru að mestu leyti uppfyllt.

Þó að þetta sé glæsilegt skref í rétta átt heldur Ísland áfram að glíma við peningaþvætti í formi skattsvika, „neðanjarðar“spilavíta, svika, fíkniefnasmygls og efnahagsglæpa.

Áhættugreining og áhættumiðuð nálgun

Glæpamenn sem komast yfir peninga með ólöglegum hætti leggja sig alla fram við að lauma þeim aftur inn í fjármálakerfin og nýta þá með skilvirkum hætti. Áhættumat og áhættumiðuð nálgun er nauðsynleg til að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að greina hvort skilyrði séu fyrir hendi í mögulegri þátttöku og fjármögnun hryðjuverka. Peningaþvætti getur átt sér stað á öllum stigum samfélagsins. Þess vegna er áhættumat á landsvísu mikilvægt til að koma auga á og draga úr glæpastarfsemi yfir landamæri með því að greina og taka á mögulegum veikleikum. Áhættumiðuð nálgun er mikilvæg til að gera fjármálastofnunum kleift að skilja áhættu sem tengist viðskiptavinum þeirra og heildarrekstri fyrirtækja. Þær treysta á áhættumat til að bæta áreiðanleikakannanir sínar og útrýma mögulegri áhættu. Loks treysta sjálfseignarstofnanir einnig á áhættumat til að gera varúðarráðstafanir og forðast að vera notaðar sem leiðir til peningaþvættis.

Íslenskt lagaumhverfi

Hinn 23. febrúar 2023 urðu tímamót þegar Alþingi Íslendinga breytti lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ein helsta breytingin var að bæta við rekstraraðilum sérhæfðra sjóða sem falla undir 2. grein laganna og gildissvið þeirra.

Til að ná árangri í málaflokknum er þrennt sem þarf að hafa í huga:

* Tilkynningar um grunsamleg viðskipti. Fjármálastofnanir bera ábyrgð á að upplýsa grunsamleg viðskipti til lögregluyfirvalda.

* Frysting eigna. Grípa þarf til skjótra aðgerða af hálfu fjármálastofnana og annarra stofnana til að stöðva flutning á óhreinum peningum frá glæpastarfsemi.

* Margþætt nálgun. Peningaþvætti er flókið mál sem krefst samvinnu á landsvísu en einnig á alþjóðlegum vettvangi. Á sama hátt berjast löggæslustofnanir og viðeigandi yfirvöld gegn peningaþvætti með upplýsingaskiptum.

Eftir því sem viðskipti aukast í íslenskum fjármálakerfum er bönkum og öðrum eftirlitsaðilum skylt að grípa til áhættumiðaðra aðferða til að tryggja að markmiðum laganna sé náð.

Höfundur er lögfræðingur hjá Réttlætinu, www.rettlaetid.is.

Höf.: Mohamad Khattab