Þuríður A. Matthíasdóttir fæddist á Hólmavík 16. janúar 1939. Hún lést á Landspítalanum 29. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Ingveldur Jónsdóttir, f. 2. maí 1902, d. 7. mars 1950, og Matthías Aðalsteinsson, f. 19. desember 1888, d. 29. janúar 1973. Systkini Þuríðar eru Einar, f. 3. október 1927, d. 6. júlí 2005, Vigdís, f. 5. nóvember 1930, d. 16. júlí 2008, Knútur, f. 27. júlí 1933, d. 10. júlí 2008, Sigríður, f. 22. mars 1942. Hálfssystir sammæðra: Hulda Lilja Sigríður Þorgeirsdóttir, . 15. desember 1925. Þuríður á einn son, Vilhjálm Matthíasson, f. 3. september 1961, og faðir hans var Matthías Vilhjálmur Gunnlaugsson. Vilhjálmur á tvo syni, Matthías og Alexander, og Alexander á einn son, Róbert Gunnlaug. Alexander var í sambúð með Tinnu Rut og á hún dóttur Ásdísi Lenu.

Þuríður giftist Davíð B. Guðbjartssyni 16. janúar 2016 eftir níu ára sambúð. Þuríður ólst upp á Hólmavík en missti móður sína 11 ára gömul og var í heimavist til 14 ára aldurs. Fór þá að heiman og byrjaði að vinna í heimahúsum í vist. Sautján ára gömul fór Þuríður að vinna við afgreiðslustörf á veitingahúsum, svo í verslun og mötuneytum. Einnig var hún til sjós um tíma, en lengst af starfaði Þuríður á sjúkrahúsum og geðdeildum. Hún vann þar til hún var komin á aldur.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Það er með trega sem við kveðjum hana Þuríði, eiginkonu föður míns, sem verið hefur hluti af lífi okkar svo lengi sem börnin okkar muna. Upp í hugann koma ófáar minningar, sumar tengdar Hólmavík þar sem þau hjónin gerðu sér far um dvelja. Þuríður var skynsöm, traust og heilsteypt kona, að auki skipulögð, „enda steingeit“ eins og eiginmaður hennar hafði á orði. Til dæmis hafði hún tekið saman praktískar upplýsingar fyrir æviágrip sitt þar sem fram kom að hún vildi engar lofræður og óskaði eftir því að útförin færi fram í kyrrþey. Því Þuríður var ekki mikið fyrir það að „flexa“ og vildi láta lítið fyrir sér hafa. Hins vegar hafði hún þeim mun meira fyrir öðrum og var höfðingi heim að sækja. Heilt hlaðborð að tertum skyldi það vera og það hefur örugglega verið henni erfitt þegar heilsan leyfði ekki lengur slíkt tilstand. Þuríður var ekki mikið fyrir það að ræða heilsubrest sinn undanfarin ár og var þó af nógu taka. Hún ætlaði ekki að vera með væl og sjálfsvorkunn. Það var ekki hennar stíll enda glæsileg kona sem gekk á háum hælum fram eftir aldri. Henni leiddist aldrei og jákvæð að eðlisfari. Hún var kona sem vildi Lifa með stóru L-i; hafði svifið um í loftbelg yfir Egyptalandi og þvælst um á rafskutlu með eiginmanninum á Benedorm þegar hnén voru farin að gefa sig. Ekki lét hún aldurinn stoppa sig þegar henni datt í hug að læra á bíl komin hátt á sjötugsaldur. Hún gerði það með ágætum eins og annað.

Þuríður bar mikla umhyggju fyrir syni sínum, barnabörnum og skyldmennum Davíðs, auk annarra sem þeim tengdust. Samband þeirra Davíðs var ástríkt enda var Þuríður eins og klettur fyrir sína nánustu. Það er eftirsjá að henni Þuríði sem var okkur svo einstaklega góð.

Sóley Dröfn Davíðsdóttir og fjölskylda.