Kórinn Ísak Snær Þorvaldsson, Jason Daði Svanþórsson og Höskuldur Gunnlaugsson fagna eftir að Jason kom Blikum yfir gegn HK.
Kórinn Ísak Snær Þorvaldsson, Jason Daði Svanþórsson og Höskuldur Gunnlaugsson fagna eftir að Jason kom Blikum yfir gegn HK. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Víkingur og Breiðablik stigu fá feilspor gegn tveimur af neðstu liðum Bestu deildar karla í fótbolta í gær. Víkingar unnu Fylki 5:2 í Fossvogi og Blikar lögðu HK í Kórnum, 2:0, þannig að liðin eru áfram í tveimur efstu sætunum og þrjú stig á milli þeirra

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Víkingur og Breiðablik stigu fá feilspor gegn tveimur af neðstu liðum Bestu deildar karla í fótbolta í gær.

Víkingar unnu Fylki 5:2 í Fossvogi og Blikar lögðu HK í Kórnum, 2:0, þannig að liðin eru áfram í tveimur efstu sætunum og þrjú stig á milli þeirra.

Víkingar voru reyndar rúman klukkutíma að hrista Árbæinga af sér, lentu undir þegar Benedikt Daríus Garðarsson skoraði eftir 57 sekúndna leik og Fylkir jafnaði í byrjun síðari hálfleiks, 2:2.

Eins átti fyrsta mark Víkings ekki að standa því Aron Elís Þrándarson handlék boltann áður en hann skoraði.

En síðan kom styrkur meistaranna í ljós og þeir skoruðu þrjú mörk. Ari Sigurpálsson og Karl Friðleifur Gunnarsson voru fremstir í flokki hjá Víkingum og voru báðir með mark og tvær stoðsendingar.

Ísak í aðalhlutverki

Kópavogsslagurinn í Kórnum var í járnum fram undir lok fyrri hálfleiks en þá skoraði Jason Daði Svanþórsson eftir sendingu Ísaks Snæs Þorvaldssonar.

Eftir að Ísak kom Blikum í 2:0 í byrjun síðari hálfleiks voru þeir grænklæddu með leikinn í höndum sér og sigur þeirra var aldrei í hættu.

Rétt eins og Víkingar hafa Blikar fengið þrettán stig af fimmtán mögulegum í síðustu fimm leikjum.

Vestri skoraði fjögur

Vestri vann sinn fyrsta sigur í fimm leikjum í gær, 4:2, gegn Stjörnunni á velli Þróttar í Laugardalnum. Vestramenn héldu forystunni allan tímann eftir að hafa komist í 2:0 á fyrstu átta mínútunum. Silas Songani skoraði þriðja markið og lagði upp það fjórða fyrir Toby King sem innsiglaði sigurinn með glæsilegu marki um miðjan síðari hálfleik.

Vestri komst þar með fimm stigum frá fallsæti og umferðin var nánast fullkomin fyrir Vestfirðingana þar sem HK, KA og Fylkir töpuðu öll sínum leikjum.

Stjörnumenn eru heillum horfnir þessa dagana og hafa fengið á sig níu mörk í síðustu tveimur leikjum. Haukur Örn Brink var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu og þakkaði fyrir sig með tveimur mörkum.

Skagamenn skora

Skagamenn gerðu góða ferð til Akureyrar á laugardag þegar þeir sigruðu KA, 3:2. Mark Arnórs Smárasonar úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks reyndist vera sigurmarkið en KA náði ekki að jafna þrátt fyrir talsverðan sóknarþunga í síðari hálfleiknum. Árni Marinó Einarsson stóð vaktina vel í marki ÍA.

Nýliðarnir frá Akranesi hafa þar með unnið fjóra af fyrstu níu leikjum sínum og þrír sigranna eru gegn liðum í neðsta hluta deildarinnar. Þeir skora líka mörk, eru komnir með 18 og eru með markahæsta mann deildarinnar, Viktor Jónsson, þótt hann hafi ekki skorað gegn KA.

Staða KA versnar stöðugt og Akureyrarliðið hefur aðeins unnið einn af fyrstu níu leikjum sínum. Varnarleikurinn hefur ekki verið til útflutnings og KA hefur fengið á sig 13 mörk í síðustu fjórum leikjum.

KR og Valur í kvöld

Níundu umferðinni lýkur í kvöld með grannaslag KR og Vals í Vesturbænum og þar freista Valsmenn þess að halda í við Víking og Breiðablik í toppbaráttunni.