Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Sú óráðsía sem nú ríkir í rekstri borgarsjóðs getur að sjálfsögðu ekki gengið áfram.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Fjármálastjórn borgarsjóðs er komin í algjört óefni. Allar tölulegar upplýsingar sem nú liggja fyrir um fjárhagslega stöðu sjóðsins sýna fram á þá staðreynd.

Borgarsjóður er rekinn með halla frá ári til árs og lítil sem engin viðleitni meirihlutans í borgarstjórn til að draga úr þeirri óheillaþróun. Reynt er með alls kyns bókhaldstilfæringum að sýna fram á betri fjárhagsstöðu borgarsjóððs en hún raunverulega er, en auðvelt fyrir þá sem kynna sér fjárhagsbókhald borgarsjóðs að sjá í gegnum slík vinnubrögð. Óstjórnin í fjármálum borgarinnar er með slíkum hætti að annað eins hefur ekki sést hjá borgarsjóði áður. Er þá mikið sagt ef litið er til fjárhagsstöðu borgarsjóðs undanfarin ár.

Feluleikir og blekkingar

Sú óráðsía sem nú ríkir í rekstri borgarsjóðs getur að sjálfsögðu ekki gengið áfram. Feluleikur og blekkingar í fjármálastjórn meirihlutans eru flestum ljós. Ef fram heldur sem horfir í afleitri fjármálastjórn borgarsjóðs stefnir í gjaldþrot sjóðsins.

Fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, heldur áfram sínu blekkingartali um trausta fjárhagsstöðu borgarsjóðs og núverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, fær engu ráðið um það orðagjálfur sem Dagur B. ástundar stöðugt í þeim efnum. Þegar að skuldadögum kemur um stöðu borgarsjóðs mun Dagur B. að sjálfsögðu skella skuldinni á núverandi borgarstjóra.

Bókhaldsblekkingar duga ekki lengur

Það verður ekki auðvelt viðfangsefni að vinda ofan af þeirri óheillaþróun sem hefur viðgengist í fjármálastjórn borgarsjóðs undanfarin ár. Aldrei áður í sögu borgarinnar hefur borgarsjóður staðið jafn illa og nú og flest ef ekki allt bendir til þess að sú staða versni enn frekar meðan Dagur B. situr í baksæti núverandi borgarstjóra.

Bókhaldsblekkingar duga ekki lengur. Reykvískir skattgreiðendur munu fyrr en síðar þurfa að greiða þann skuldabagga sem meirihlutinn í Reykjavík hefur staflað upp síðustu árin. Þeir kjósendur í Reykjavík sem stutt hafa þennan meirihluta til margra ára hafa yfir litlu sem engu að gleðjast.

Höfundur er fv. borgarstjóri.