Strandveiðar Rífandi gangur hefur verið í strandveiðum á veiðitímabilinu og útlit fyrir að veiðiheimildir verði uppurnar um mánaðamót.
Strandveiðar Rífandi gangur hefur verið í strandveiðum á veiðitímabilinu og útlit fyrir að veiðiheimildir verði uppurnar um mánaðamót. — Morgunblaðið/Alfons
Allar líkur eru á að þau 10 þúsund tonn af þorski sem ætluð eru strandveiðiflotanum verði uppurin um eða upp úr næstu mánaðamótum, en aflabrögð í maí voru með ágætum og gæftir góðar. Þetta segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Allar líkur eru á að þau 10 þúsund tonn af þorski sem ætluð eru strandveiðiflotanum verði uppurin um eða upp úr næstu mánaðamótum, en aflabrögð í maí voru með ágætum og gæftir góðar. Þetta segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Morgunblaðið.

Gangi það eftir verða engar strandveiðar stundaðar í júlí og ágúst, en strandveiðitímabilið stendur út ágústmánuð, að því gefnu að veiðiheimildir verði fyrir hendi. En svo mun tæpast verða að óbreyttu.

„Það hefur fiskast mjög vel, en 700 bátar stunduðu veiðarnar í maí. Það er 52 bátum fleira en á sama tíma í fyrra,“ segir Örn.

Hann segir að vel hafi gefið á sjó í maí, enda hafi 237 bátar náð því marki að veiða þá 12 daga sem heimilt er að sækja sjó í mánuðinum, en alls hafa bátarnir úr 15 dögum að velja í hverjum mánuði. Í fyrra voru gæftir ekki jafn góðar sem sýndi sig í því að aðeins 16 bátar náðu 12 daga markinu.

„Þorskaflinn hefur aukist mikið, um 40% á milli ára. Var aflinn í maí 4.525 tonn og það er mjög líklegt að 10 þúsund tonna skammturinn verði uppveiddur um næstu mánaðamót. Það er óskandi að nýr matvælaráðherra sjái til þess að auka við veiðiheimildir til strandveiða. Ráðherrann hefur heimild til þess að mínu áliti,“ segir hann.

Örn vísar þar til þess að þegar kvóta er úthlutað í upphafi fiskveiðiárs sé honum úthlutað til veiða, en óveiddur kvóti er gjarnan færður á milli fiskveiðiára.

„Ég tel að strandveiðarnar séu kjörnar til þess að nýta hvert einasta kíló sem úthlutað er, þannig að allt verði veitt á fiskveiðiárinu,“ segir Örn.

Vilja auka veiðiheimildir

Smábátamenn hafa farið fram á að veiðiheimildir í þorski verði auknar um 3.000 til 4.000 tonn sem Örn telur að muni duga til að unnt verði að stunda veiðarnar út ágústmánuð. Hann telur nauðsynlegt að festa ákveðna daga til strandveiða og heimila veiðar út veiðitímabilið, í stað þess að stöðva þær þegar veiðiheimildirnar eru búnar, líkt og gert hefur verið.

„Ráðherrann þarf ekki að óttast að það valdi skaða á þorskstofninum, enda umbeðnar veiðiheimildir slíkt lítilræði af heildarúthlutuninni að varla tekur því að tala um það. Þarna eiga 700 útgerðir allt sitt undir og verða væntanlega fleiri þegar líður á júnímánuð. Atvinna fjölda fólks er í húfi,“ segir Örn.