Sjöfn Hermannsdóttir Andenes fæddist í Norður-Hvammi í Mýrdal 29. ágúst 1944. Sjöfn lést 20. maí 2024 á hjúkrunarheimilinu Döhli Hakadal Noregi.

Foreldrar hennar voru Hermann Jónsson bóndi þar, f. 10. júní 1909, og Guðný Bergrós Jónasdóttir húsfreyja, f. 21. nóvember 1912.

Systkini Sjafnar eru Gíslína Erla, f. 1938, Gísli Sævar, f. 1941, Jónas Smári, f. 1946, Hreiðar, f. 1948, og Svanhvít, f. 1955.

Sjöfn lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum í Skógum. Eftir það lá leiðin til Reykjavíkur þar sem hún starfaði sem gangastúlka á Landspítalanum þar til hún hóf nám í hjúkrun við Hjúkrunarskóla Íslands árið 1964. Sjöfn lauk námi árið 1968 og hélt þá norður á Sauðárkrók þar sem hún starfaði sem hjúkrunarkona á sjúkrahúsinu um eins árs skeið. Eftir það hóf Sjöfn störf á hinum nýja Borgarspítala handlækningadeild en haustið 1969 heldur hún til Noregs. Þar kynnist hún eiginmanni sínum Agli Andenes hagfræðingi. Starfsvettvangur Sjafnar verður því á norskri grundu. Hún hóf störf við Sentralsykehuset í Lörenskog seinna A hus og starfaði þar á handlækningadeildum í mörg ár, með hléum vegna barneigna.

Agli og Sjöfn varð tveggja barna auðið: Steinar, f. 1974 og María, f. 1978. Egil og Sjöfn slitu samvistir. Sjöfn söðlaði um og hóf störf innan öldrunar, lengst starfaði hún sem yfirhjúkrunarfræðingur á næturnar á Lilleborg pleie og omsorgssenter í Osló. Sjöfn hafði átt við heilsuvanda að stríða undanfarin ár vegna blóðtappa. Hún gat verið heima lengi vel, en síðan kom að því að hún fluttist á Döhli pleie og omsorgssenter í Hakadal fyrir utan Osló. Þar lést hún mánudaginn 20. maí sl.

Útför Sjafnar fer fram frá Döhli í dag, 3. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 12 að norskum tíma.

Samfélagið í sveit, sjávarþorpi, bæ eða borg um miðbik síðustu aldar var með talsvert öðru sniði en er í dag. Það krafðist því mikils áræðis og hugrekkis að ákveða það 15 ára að fara til Reykjavíkur, leigja sér herbergi úti í bæ og hefja störf sem gangastúlka á Landspítalanum. Hugrekki sem síðar leiddi til þess að Sjöfn ákvað að sækja um nám í hjúkrun við Hjúkrunarskóla Íslands. Við kynntumst á Landspítalanum, unnum þar báðar sem gangastúlkur. Bundumst vináttuböndum sem héldu allt lífið og aldrei bar skugga á. Í þá daga var hluti af hjúkrunarstarfsnáminu úti á landi. Báðar fórum við á sama tíma til Akureyrar. Áttum þar ógleymanlega daga við leik og störf. Eftir brautskráningu ákváðum við að ráða okkur á sjúkrahúsið á Sauðárkróki. Þetta var mikill lærdómstími. Þarna var virk skurðstofa og fæðingardeild ásamt lyf- og handlækningadeild. Ekki spillti fyrir að næstum um hverja helgi var ball í Miðgarði. Skagfirðingarnir voru bæði hagmæltir og ljóðelskir og kunnu Einar Ben. Eftir að Skagafjörður var kvaddur héldum við til Reykjavíkur og hófum störf á Borgarspítalanum. Já lífið blasti við en ákveðin útþrá blundaði einnig. Héldum ásamt Grétu Mörk vinkonu okkar til Noregs. Sentralsykehuset í Lörenskog varð fyrir valinu. Fengum þar hvor sinn „hybel“. Sjöfn starfaði á almennri skurðdeild en ég á brunagjörgæslu. Í þá daga var ekki nein gjörgæsla hér heima. Í páskafríinu okkar fórum við til Kaupmannahafnar. Það var mikil ævintýraferð. Borðuðum á „restaurant“ þar sem voru símar á borðum. Vissum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þegar allt í einu síminn byrjar að hringja og ég svara. „Får jeg lov og invitere den brunhårige damen i dans?“ Í þá daga var manni boðið upp í dans í gegnum síma, það fannst okkur einstaklega skondið og hlógum mikið. Egil sínum kynntist Sjöfn fljótlega eftir komuna til Noregs á „Klubben“, stað sem unga fólkið sótti. Já það voru fleiri Klúbbar en hér heima.

Þegar Sjöfn og Egil giftu sig var mikil veisla. Ég var eini Íslendingurinn og tengdaföður hennar fannst sjálfsagt að sunginn yrði íslenski þjóðsöngurinn. Hversu vel heppnaðist skal ósagt látið en mikið var ég fegin að Norðmennirnir kunnu hann ekki. Þegar ég kem síðan til framhaldsnáms 1971 vinnur Sjöfn á Akersykehus og þau Egil leigðu þar litla íbúð. Hann var að ljúka sínu námi í hagfræði. Sjetten-hverfið er að byggjast á þessum árum og þau festa kaup á raðhúsi þar. Sjöfn hóf störf við Sia aftur. Þar vann hún í mörg ár með hléum vegna barneigna.

Seinnihluta sinnar starfsævi starfaði Sjöfn innan öldrunar. Lengst af sem yfirhjúkrunarfræðingur á næturnar á Lilleborg-öldrunarmiðstöð í Osló. Ég var tíður gestur á mínum ferðalögum hjá þeim og seinna, eftir að þau slitu samvistir, hjá henni. Við áttum ómetanlegar gæðastundir saman. Sjöfn hafði mikinn áhuga og skoðun á samfélaginu, safnaði saman hvers kyns heilbrigðis- og samfélagsefni, geymdi þar til ég kom og síðan sátum við heilu kvöldin og ræddum málin, eftir að hafa gert vel við okkur í mat og drykk. Seinni árin hafa verið Sjöbbu minni erfið bæði hvað heilsu varðar og eins kringumstæður í hennar lífi.

Vináttan er dýrmætust gjafa, þeirrar gjafar hef ég notið frá þér elsku vinkona. Hafðu heila þökk fyrir og guð geymi þig.

Sendi börnum Sjafnar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Sjafnar Hermannsdóttur Andenes.

Sigþrúður
Ingimundardóttir.