Helgileikur Saman í kirkjunni þar sem Bergþóra sinnir safnaðarstarfinu en Jón leikur létt á orgelið svo helgidómurinn fyllist lífi, rétt eins og vera ber.
Helgileikur Saman í kirkjunni þar sem Bergþóra sinnir safnaðarstarfinu en Jón leikur létt á orgelið svo helgidómurinn fyllist lífi, rétt eins og vera ber.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vettvangi kirkjunnar í Skálholti eru hjónin Jón Bjarnason og Bergþóra Ragnarsdóttir hvort í sínu hlutverkinu. Í hálfan annan áratug hefur Jón verið organisti þar og til viðbótar í tíu öðrum kirkjum í uppsveitum Árnessýslu

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á vettvangi kirkjunnar í Skálholti eru hjónin Jón Bjarnason og Bergþóra Ragnarsdóttir hvort í sínu hlutverkinu. Í hálfan annan áratug hefur Jón verið organisti þar og til viðbótar í tíu öðrum kirkjum í uppsveitum Árnessýslu. Sérhvern sunnudag er helgihald í Skálholtskirkju og í annan tíma margvísleg starfsemi önnur, svo sem tónleikahald sem Jón tengist gjarnan. Um Bergþóru má svo segja að hún hefur í allmörg ár sinnt barna- og æskulýðsstarfi í Skálholti, menntuð í guð- og djáknafræðum. Við vígsluathöfn á dögunum tók hún svo vígslu sem djákni og kemur til slíkra starfa í Skálholti síðar í sumar.

Almætti og sköpunarverk

„Trúin hefur alltaf átt sterka taug í mér,“ segir Bergþóra. „Sjálf er ég Austur-Skaftfellingur og kem úr umhverfi þar sem trúin á almætti og sköpunarverk er alltaf nærri og hringrás lífsins hluti af daglegum veruleika. Því kom nám í guðfræði í mínu tilviki nánast af sjálfu sér.“

Kærleiksþjónusta er inntak starfa djákna sem annars eru fjölbreytt og taka mið af aðstæðum og veruleika hverrar stundar. Bergþóra segist þó vænta að ungmennastarfið verði áfram á sinni könnu svo og aðstoð við helgihald.

„Þá mun ég hafa skyldur hér heima í Skálholti, en á þennan mikla sögustað koma tugir þúsunda ferðamanna á ári. Mér skilst að hér í Skálholti þar sem prestar og biskupar hafa verið ráðandi hafi ekki verið starfandi djákni síðan á miðöldum.“

Gullmolar og slagarar

„Músíkin hefur alltaf verið mitt hálfa líf,“ segir Jón Bjarnason, sem ungur hóf tónlistarnám á æskuslóðum sínum norður í Skagafirði. Hann lagði sig svo sérstaklega eftir organleiknum og kom til starfa sem Skálholtskantor fyrir fimmtán árum. Margar af sínum allra bestu stundum segist hann eiga við raddmargt hljóðfærið í kirkjunni sem býður upp á marga möguleika fyrir þá sem kunna. Gjarnan leikur Jón þar dýrar perlur kirkjutónlistar og sígildra verka, en svo má líka stundum taka upp léttara spil. Og það hefur Jón líka gjarnan gert síðustu sumur á stundum í kirkjunni sem bera yfirskriftina Óskalög við orgelið. Þar leikur hann þau lög sem kirkjugestir óska, en velja má um 106 lög.

„Mörg þessara laga gera sig vel í orgelleik. Hafa þó flest verið samin með annað í huga og útsetningar tekið mið af því,“ segir Jón þegar hann tekur fram lagalistann góða. Af honum hafa flestir valið Vikivaka Valgeirs Guðjónssonar. Annað sem hefur komið sterkt inn er til dæmis Vestmannaeyjalagið Ég veit þú kemur, Skagafjarðarslagarinn Undir bláhimni og Rósin sem Álftagerðisbræður gerðu vinsæla. Margir hafa líka beðið um Hotel California með Eagles og Stairway to Heaven sem Led Zeppelin gerði frægt. Sígild lög á listanum eru líka mörg, svo sem gullmolar Bachs, Schuberts og fleiri.

Flygill á næsta ári

„Fyrir kirkjugesti er oft mikil upplifun að heyra eftirlætislögin sín leikin hér. Þetta eru oft alveg einstakar stundir,“ segir Jón. Framtak þetta segir hann öðrum þræði til að safna peningum í flygilsjóð kirkjunnar. Framlög þeirra sem sækja Óskalög við orgelið eru vel þegin. Tónleikarnir eru haldnir reglulega, vel auglýstir og talsvert hefur safnast í sjóð þannig að raunhæft þykir að Steinway-flygill verði kominn í Skálholt á næsta ári. Og þá ómar kirkjan öll, eins og sungið er í sálminum.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson