McConaughey Sýnir að hann kann að brosa.
McConaughey Sýnir að hann kann að brosa. — Reuters/Seth Wenig
Sumu missir maður af en bætir sér það upp seinna meir. Sú sem þetta skrifar sá ekki á sínum tíma fyrstu þáttaröðina af True Detective með Matthew McConaughey og Woody Harrelson. Þættirnir eru rómaðir og margverðlaunaðir, gerðir árið 2014

Kolbrún Bergþórsdóttir

Sumu missir maður af en bætir sér það upp seinna meir. Sú sem þetta skrifar sá ekki á sínum tíma fyrstu þáttaröðina af True Detective með Matthew McConaughey og Woody Harrelson. Þættirnir eru rómaðir og margverðlaunaðir, gerðir árið 2014.

Nú loksins gafst blaðamanni svigrúm til að horfa á þá. Þetta eru tilvistarlegir glæpaþættir þar sem öllum líður illa. Skilaboðin til þeirra sem trúa á sanna ást eru þau að sambönd séu misheppnuð enda án vináttu og trausts. Þeir bjartsýnu fá þau skilaboð að lífið sé í öllum aðalatriðum ömurlegt og fullt af illsku. Auk þess sé það líka alveg hundleiðinlegt.

Persónur þáttanna virðast allar glíma við þunglyndi í tilgangslausu lífi sínu. Drunginn er allsráðandi. Samt sem áður, eða kannski vegna þessa, eru þættirnir frábærir og aðalleikararnir tveir sýna stjörnuleik. Þættinir eru átta og ljósvakarýnir er búinn að horfa á tvo og bíður eftir að geta haldið áfram. Hún lifir sig kannski ekki alveg inn í tilvistarþunglyndið í þáttunum heldur virðir það fyrir sér úr fjarlægð í sófanum heima og vorkennir persónum sem virðast ekki sjá til sólar. Ekki rétta aðferðin við að lifa lífinu, hugsar hún og heldur áfram að horfa. Kannski mun svo einhver persóna brosa í næsta þætti.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir