Þórður Marteinn Adólfsson fæddist 14. nóvember 1938. Hann lést 7. maí 2024.

Útför Þórðar fór fram 23. maí 2024.

Pabbi ólst upp hjá einstæðri móðir. Þau töluðu ekki oft um það en lífið í uppvextinum var erfitt. Amma fann fyrir lífinu, hún missti tvær dætur mjög ungar, afi dó ungur maður og hún þurfti að láta frá sér tvö börn, en fylgdist með þeim komast til manns. Amma sá fyrir þeim pabba með skúringum og saumaskap. Var harðdugleg, samviskusöm, glaðleg, jákvæð og yndisleg amma. Hún sá alltaf björtu hliðarnar, var í núinu og ræktaði með sér heilbrigt viðhorf sem hún skilaði til pabba.

Ungur ákvað pabbi að læra að dansa til að kynnast konu og hitti mömmu, þau dönsuðu svo saman í gegnum lífið. Eignuðust fimm börn. Misstu Margréti Þórunni sem ungbarn. Þá fjögur í röð, Sólborgu, mig, Möggu og Gróu. Við bjuggum fyrst í Stigahlíðinni hjá ömmu svolítið þröngt í þriggja herbergja íbúð. Samkomulagið gott, því pabbi, mamma og amma stóðu saman. Svo fluttum við í Skerjó, hálfgerð sveit þar sem var stutt í fjöruna og endalaus tækifæri til að koma drullugur og blautur heim. Sá ekki mikið af pabba í uppvextinum þar sem hann vann mikið. Nema á sumrin þegar við fórum í útilegur/skátamót. Pabbi kenndi mér að elska landið og njóta náttúrunnar, fara með hníf og tálga. Hann hafði trú á því að það virkaði betur heldur en boð og bönn. Reglur voru fáar en skýrar, kurteisi, heiðarleiki og að vera góð manneskja. Seinna kynntist ég pabba betur. Lærði að meta kossana hans, en fáir sýndu blíðu sína með þeim hætti hér áður. Eins dugnað hans í að hringja aðeins til að vita af mér. Þegar ég kynntist Hrafnhildi tók hann vel á móti henni. Börnin okkar áttu svo annað heimili hjá pabba og mömmu, eins og öll barnabörnin. Líf okkar breyttist þegar mamma dó. Hún sem var hans akkeri og ást alla tíð var farin. Þrátt fyrir mótlætið tókst pabbi á við sitt nýja líf af æðruleysi og vinnusemi. Hann var lánsamur að finna Elsu. Hún breytti lífi pabba meðal annars með því að kynna honum hundahald. Þau eignuðust tvo, Fiðlu og Sölku, sem pabbi tók miklu ástfóstri við, sérstaklega Sölku. Samvist pabba og Elsu stóð í 13 ár en það varð pabba mikið áfall þegar hún féll frá.

Eftir fráfall mömmu kom pabbi í kaffi til mín í fjölda ára á sunnudagsmorgnum, mættur rúmlega 10. Við áttum þá gæðastund feðgarnir, stundum sátu aðrir með okkur en oftast við tveir. Þá ræddum við allt og urðum enn nánari. Pabbi missti annað barn þegar Magga systir dó, það reyndi mikið á okkur öll, hann varð að vinna úr áfallinu með sínum hætti. Um svipað leiti kynntist hann Elsu sem var mikill stuðningur. Þegar Hrafnhildur dó var pabbi til staðar fyrir mig og mína sem ég er ævinlega þakklátur fyrir. Ég trúi því að pabbi hafi verið gæfumaður í sínu lífi. Vissulega tókst hann á við áföll, en gerði það af mikilli ró, skynsemi og lét þau ekki stýra lífi sínu. Ég minnist hans sem góðs pabba sem kenndi mér æðruleysi, ró og að geta séð jákvæðu hliðina. Hans netti húmor mun fylgja mér, takk kæri pabbi.

Sigurjón.

Nú er Doddi vinur okkar „farinn heim“ eins og við skátarnir segjum.

Á kveðjustund koma margar góðar minningar upp í hugann þegar við kveðjum góðan gamlan vin til áratuga. Við kynntumst í skátafélaginu Landnemum strax á unglingsárum okkar. Með okkur þróaðist síðan traust og einlæg vinátta. Það er varla hægt að minnast Dodda án þess að nefna Jónu í sömu andrá en þau voru mjög nátengd og samhent hjón.

Í marga áratugi hittumst við spilafélagar úr Landnemum og makar reglulega og var margt skemmtilegt brallað saman; árlegar spilaútilegur með söng, glaðværð og veislukvöldverðum, leikhúsferðir og dansæfingar. Doddi og Jóna voru þar í essinu sínu enda „sjóuð“ úr dansskóla Rigmor Hansen. Hápunkturinn á dansinum var ferð hópsins með Heiðari Ástvaldssyni til Kúbu þar sem við æfðum okkur í salsa.

Einnig minnumst við skemmtilegrar ferðar til Parísar saman.

Heimili Dodda og Jónu í Skildinganesinu í Skerjó var alltaf opið fjölskyldu og vinum og var þar oft margt um manninn og alltaf höfðinglegar móttökur. Fiskisúpan hennar Jónu var ómissandi þegar horft var saman á fótboltaleik á vorin og Þorláksmessuskatan í Skildinganesinu var fastur punktur í jólaundirbúningnum bæði hjá börnum og fullorðnum.

Þau Doddi og Jóna ræktuðu fjölskylduböndin af mikilli alúð og allir fengu að njóta sín. Þau voru bæði mjög barngóð og krakkarnir okkar nutu þess.

Þegar við Sigrún fórum í ferðalög til útlanda vildu strákarnir okkar helst hvergi gista nema hjá Dodda og Jónu og þegar hundur hafði bæst við fluttu þau bara til okkar á meðan og pössuðu börn, hund og hús.

Við kveðjum nú traustan og kæran vin og efst í huga er þakklæti fyrir samfylgdina og allar góðu samverustundirnar.

Elsku Sólborg, Sigurjón, Gróa og fjölskyldur, við vottum okkar dýpstu samúð.

Sofnar drótt, nálgast nótt,

sveipast kvöldroða himinn og sær.

Allt er hljótt, hvíldu rótt.

Guð er nær.

(Kvöldsöngur skáta)

Magnús Jónsson og
Sigrún Knútsdóttir.