„Þetta er ekki nýtt ástand en það er verið að setja flutningskostnað á fyrirtæki sem þurfa að fá sendingar frá þessum birgi út á land,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, kaupmaður á Vopnafirði

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Þetta er ekki nýtt ástand en það er verið að setja flutningskostnað á fyrirtæki sem þurfa að fá sendingar frá þessum birgi út á land,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, kaupmaður á Vopnafirði. Hún segist nýverið hafa þurft að hætta viðskiptum við birgi vegna mikillar hækkunar á vöruverði vegna flutningskostnaðar. „Þar sem útflutningur afurða landsins er í meirihluta af landsbyggðinni en innflutningur til höfuðborgarsvæðisins leggst sendingarkostnaðurinn einungis á landsbyggðina og fólkið sem þar býr. Auk þess sitja litlar verslanir ekki við sama borð og þær stærri og dæmi um að við fáum sér verðlista með hærra vöruverði. Hvers konar byggðastefna er það?“ spyr Fanney.

Bara stóru keðjurnar lifa af

Fanney er óhress með þessa stöðu og segir vegið að verslun í minni byggðum landsins. „Það er súrt í broti eftir að hafa verið viðskiptavinur í 30 ár að þetta sé staðan. Við getum ekki haft stóran lager af vöru sem við vitum ekki hversu langan tíma tekur að selja. Þetta endar með því að einungis stóru keðjurnar lifa af og öll smærri verslun á landsbyggðinni leggst niður með tilheyrandi fækkun á stöðugildum í héraði og einsleitni á markaði.“

Jafndýrt frá Danmörku

Fanney segir að til samanburðar þá kosti jafnmikið að senda eitt bretti af varningi frá téðum birgi til Vopnafjarðar frá Reykjavík og það kostar að senda stærra bretti af varningi frá Hirtshals í Danmörku með ferjunni til Seyðisfjarðar. Hún segir að í sumum tilfellum borgi sig að keyra í næsta Bónus og kaupa vörur á smásöluverði frekar en að kaupa af birgi á þeim kjörum sem litlum einkareknum verslunum bjóðast.

„Mér finnst eins og litlir söluaðilar úti á landi skipti birgja engu máli og þess vegna sé þjónustan jafnslæm og dýr og raun ber vitni. Á sama tíma og landsbyggðin er að skapa mikil útflutningsverðmæti er ekkert gert til þess að jafna aðstöðumun verslunar í dreifðari byggðum. Það endar bara með því að smáverslun úti á landi leggst af.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir