Helga Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 5. október 1934. Hún lést á Hrafnistu, Sléttuvegi, 20. maí 2024.

Helga var dóttir hjónanna Þórlaugar Valdimarsdóttur, f. 24.6. 1903, d. 9.3. 1972, og Ólafs Sigurjóns Dagfinnssonar verkamanns, f. 21.9. 1900, d. 24.2. 1975. Systkini Helgu eru Valdimar, f. 18.10. 1933, d. 16.9. 2021, Unnur, f. 21.6. 1936, d. 20.3. 2022, og Dagfinnur, f. 23.8. 1942.

Helga giftist Gunnari Sigurðssyni verkfræðingi hinn 8. september 1956. Hann lést 3. nóvember 1978. Börn þeirra eru: 1) Unnur lögfræðingur, f. 2.2. 1957. Maki Óskar Einarsson verkfræðingur, f. 8.5. 1954. Dætur þeirra eru a) Inga Þórey lögfræðingur, f. 20.10. 1983. Maki Ragnar Skúlason verkfræðingur, f. 17.10. 1982. Börn þeirra eru Unnur Efemia, Gísli Hrafn og Ari, b) Helga Guðrún verkfræðingur, f. 18.6. 1987. Maki Ævar Gunnar Ævarsson verkfræðingur, f. 28.1. 1985. Börn þeirra eru Laufey Ósk, Gunnhildur Ellý og Hilmir Steinn. 2) Gísli Þór, f. 31.12. 1958. 3) Áslaug læknir, f. 23.10. 1964. Maki Andrés Magnússon læknir, f. 15.11. 1956. Börn þeirra eru a) Gunnar læknir, f. 4.2. 1989. Maki Elizabeth Bunin jarðfræðingur, f. 10.4. 1989. Börn þeirra eru Benjamín og Max, b) Katrín Helga tónlistarkona, f. 8.7. 1992. Maki Þorbjörn Gísla Kolbrúnarson, f. 15.6. 1987. Dóttir þeirra er Kolbrá, og c) Eyrún háskólanemi, f. 26.11. 1996. Dóttir Andrésar er Anna Tara, f. 20.5. 1987. 4) Elín leikkona, f. 24.7. 1974.

Áður en Helga gifti sig sinnti hún ýmsum störfum, lengst af hjá Tryggingu hf. Á árinu 1958 flutti fjölskyldan til Champagne, Illinois, vegna starfa Gunnars. Árið 1959 flutti fjölskyldan til Berkeley í Kaliforníu vegna doktorsnáms Gunnars þar sem þau bjuggu til 1962. Þegar heim til Íslands var komið réðust Helga og Gunnar í að byggja yfir fjölskylduna hús á Stekkjarflöt 18, þá Garðahreppi. Gunnar lést eftir erfið veikindi aðeins 45 ára að aldri. Helga og Elín, yngsta barnið, fluttu í Kelduland 3 í Reykjavík árið 1987. Helga starfaði við skrifstofustörf, þ. á m bókhald hjá Bókabúð Æskunnar og bókaforlagi og síðar sem hjúkrunarritari á krabbameinsdeild kvenna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hún var virk í félagsstarfi, sat m.a. í skólanefnd barnaskóla Garðahrepps, starfaði í ITC/Málfreyjum en lengst af var bridge hennar aðaláhugamál.

Útför Helgu fer fram frá Garðakirkju í dag, 3. júní 2024, kl. 13.

Helga fæddist í Skerjafirðinum en í stríðinu þurfti húsið sem hún bjó í að víkja fyrir flugvellinum og var flutt í Laugarnesið og fjölskyldan fylgdi með. Í Laugarnesinu var urmull barna og eignaðist Helga vinkonur þar sem hún hélt tengslum við alla ævi. Um þetta leyti varð Þórlaug, móðir Helgu, heilsutæp og Helga fékk því ung mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart yngri systkinum sínum. Hún vandist því snemma að þurfa að skipuleggja, taka ákvarðanir og ganga í hlutina. Enda hafði hún yndi af því. Hún var félagslynd og fannst gaman að hafa áhrif. Helga var mikil námsmanneskja þótt hún hefði misst úr lungann af tveimur skólavetrum vegna veikinda.

Tvítug kynntist Helga ljóngáfuðum ungum verkfræðingi, Gunnari Sigurðssyni. Eftir að þau giftust bjuggu þau nokkur ár í Bandaríkjunum meðan hann var að ljúka doktorsnámi. Þetta fannst Helgu dásamleg ár og ræddi oft um þennan tíma.

Börnin tóku nú smám saman að tínast í heiminn, eitt af öðru. Eftir að heim til Íslands kom reistu þau hjónin sér hús við Stekkjarflöt í Garðabæ. Gunnar tókst á hendur ýmis ábyrgðarstörf en veiktist 43 ára gamall og féll frá tveimur árum síðar. Helga stóð þá ein uppi, 44 ára gömul, með fjögur börn á sínu framfæri, hið yngsta fjögurra ára. En Helga lét engan bilbug á sér finna enda hafði hún kynnst mótbyr áður. Hún hafði frá unga aldri hjúkrað móður sinni og átta ára gömul passaði hún til dæmis litla bróðir sinn sumarlangt meðan móðir hennar lá á spítala, vart hugað líf og við blasti að heimilið yrði leyst upp.

Helga fór nú að vinna utan heimilis, seldi húsið á Stekkjarflöt en sleit aldrei vinaböndin við nágranna sína þar.

Helga, eins og öll systkini hennar, var gleðigjafi hvar sem hún kom. Það var ánægjulegt að fá hana í heimsókn, hún hafði alltaf gaman af að spjalla og hafði sterkar skoðanir, sem henni fannst óþarfi að liggja á. Samt virti hún alltaf sjálfsákvörðunarrétt hvers og eins. Allt tal hennar var ávallt kryddað kímni. Þótt Helga yrði 89 ára gömul þá hélt hún andlegum kröftum sínum óskertum fram í andlátið. Hún spilaði bridge fram undir það síðasta og drýgði ellilífeyrinn með spilaverðlaunum. En líkamlega heilsan var tæp og fyrir ári komst Helga inn á hjúkrunarheimili. Þá tók hún að hafa áhyggjur af því hvernig síðustu dagarnir yrðu. Ég innti hana einu sinni eftir því hverju hún kviði, hvort það væri að lenda í hjólastól, komast ekki ein á klósettið eða þurfa að láta mata sig. Nei, það var ekki það. Hún kveið því mest að verða svo gömul að hún gæti ekki haft nein áhrif á umhverfi sitt, fengi engu að ráða! Hennar síðustu orð voru: „Jæja, ætli ég verði ekki að hætta að stjórna núna.“ Eftir það gat hún sofnað, enda sátt við vel unnið ævistarf.

Þegar Helga lést átti hún bókað viðtal hjá stjórn hjúkrunarheimilisins, þar sem hún hugðist deila nokkrum góðum hugmyndum. En ekkert varð úr því. Nú er hún farin á annan stað þar sem gáfur hennar, röggsemi og skipulagshæfileikar munu áreiðanlega njóta sín, enda skilst mér að þar séu margir æði viðutan, glamrandi á hörpu, starandi í skýin.

Andrés Magnússon.

Elsku Helga móðursystir mín er látin. Helga var næstelst fjögurra systkina. Þau fæddust öll á níu ára tímabili. Það var einstakur kærleikur og vinskapur á milli þeirra systkina. Alltaf var glatt á hjalla þegar þau hittust, spiluðu og spjölluðu.

Þegar ég kom í heiminn var móðir mín aðeins 17 ára og Helga 19 ára, þær voru báðar búsettar heima hjá ömmu og afa. Þegar ég fór að vaxa úr grasi var ég ákveðin í að ég ætti þrjár mömmur, það var amma, Helga mamma og Unnur mamma. Helga var stórglæsileg kona og gat ég staðið og horft á hana tímunum saman þegar hún var að hafa sig til fyrir stefnumótin við hann Gunnar sinn.

Þau fluttu til Bandaríkjanna þar sem Gunnar stundaði nám. Það var alltaf gaman að fá fallegar og framandi afmælis- og jólagjafir frá þeim. Mér er minnisstæðust mappa sem varð að húsi með dúkkulísum og fallegum fötum á þær.

Helga og Gunnar voru glæsileg hjón og byggðu sér fallegt heimili á Stekkjarflöt í Garðabæ þar sem ég fékk að njóta þess ómælt að vera hjá þeim. Gunnar veiktist og féll frá langt fyrir aldur fram. Helga stóð þá uppi ein með fjögur börn.

Helga hefur verið mér fyrirmynd í lífinu allt frá því ég man eftir mér. Hún var falleg, dugleg og ákveðin kona og vissi nákvæmlega hvað hún vildi.

Gaman er að segja frá því að þegar við hjónin bjuggum í Vestmannaeyjum kom hún í heimsókn, hún fékk lánaðan bílinn okkar til að keyra um eyjuna. Gunnar sonur okkar fjögurra ára fór með henni í þennan bíltúr og uppástóð hún að hann hefði þekkt öll kennileiti og verið hinn besti leiðsögumaður. Þessa sögu rifjaði Helga reglulega upp þegar hún minntist heimsóknarinnar til okkar.

Þegar að kveðjustund kemur eru svo margar fallegar og góðar minningar sem koma upp í hugann. Þær systurnar voru alveg sérstaklega góðar vinkonur. Þegar móðir mín var búin að missa heilsuna og komin á hjúkrunarheimili, þá var aðdáunarvert hvað Helga var dugleg að heimsækja hana og hlúði vel að vinskap þeirra.

Elsku Unnur, Gísli, Áslaug, Elín og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur, megi minning um fallega og sterka konu lifa með okkur.

Þórlaug Ragnarsdóttir.