Á flugi Stofnendur Trip To Japan í Yoyogi-garðinum í Tókýó ásamt tveimur starfsmönnum og fulltrúa Brunns: Jökull Sólberg, Konráð Örn Skúlason, Sigurður Arnljótsson, Bolli Thoroddsen, Kei Ikeda og Thelma Heimisdóttir.
Á flugi Stofnendur Trip To Japan í Yoyogi-garðinum í Tókýó ásamt tveimur starfsmönnum og fulltrúa Brunns: Jökull Sólberg, Konráð Örn Skúlason, Sigurður Arnljótsson, Bolli Thoroddsen, Kei Ikeda og Thelma Heimisdóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þrír íslenskir athafnamenn tóku sig nýlega til og stofnuðu bókunarsíðuna Trip To Japan sem hefur umbylt aðgengi neytenda að japönskum ferðaþjónustufyrirtækjum. Trip To Japan er þegar komin í hóp stærstu bókunarsíðna í Japan mælt í vöruframboði, og er einnig í hópi þeirra sýnilegustu í leitarvélaniðurstöðum á netinu.

Stofnendur félagsins eru þeir Bolli Thoroddsen, Konráð Örn Skúlason framkvæmdastjóri félagsins og Jökull Sólberg Auðunsson tæknistjóri, en auk þeirra hefur vísisjóðurinn Brunnur fjárfest í þessum efnilega sprota. Allir eru þeir hoknir af reynslu: Konráð með langan feril að baki í tæknidrifnum ferðaþjónustuverkefnum, Jökull búinn að starfa við hugbúnaðarþróun í tvo áratugi og Bolli með djúpa þekkingu á viðskiptalífi Japans en hann menntaði sig þar í landi, bæði sem skiptinemi í framhaldsskóla í Fukushima og í framhaldsnámi í háskóla í Tókýó. Frá árinu 2010 hefur Bolli rekið sitt eigið fyrirtæki, Takanawa, sem er með skrifstofur bæði í Reykjavík og Tókýó.

Að sögn Bolla felst samkeppnisforskot Trip To Japan m.a. í því að japönsk ferðaþjónusta hefur verið sein að taka tæknina í sína þjónustu og fyrir vikið er óþarflega flókið fyrir útlendinga að skipuleggja heimsóknir sínar til landsins og ljúka við allar bókanir á einum stað. Í gegnum Trip To Japan má bóka um 800 mismunandi ferðir og afþreyingu en meginvara fyrirtækisins er sérsniðnar pakkaferðir þar sem bæði afþreying, hótel og lestarsamgöngur eru innifaldar og hægt að bóka allan pakkann með nokkrum smellum. Ekki er um hópferðir að ræða, þótt þær megi einnig bóka í gegnum vefinn, heldur fær hver viðskiptavinur möguleika á að sérsníða ferðina að eigin óskum.

„Í dag bjóðum við upp á 80 mismunandi pakkaferðir og verðleggjum okkur þannig að kostnaðurinn er lægri en ef viðskiptavinurinn bókaði hvern lið ferðarinnar beint hjá seljanda – en hjá okkur er hægt að setja saman ferð á nokkrum mínútum sem annars tæki nokkra daga fyrir fólk að skipuleggja og bóka upp á eigin spýtur,“ útskýrir Bolli.

Japan nýtur góðs af reynslu íslenskrar ferðaþjónustu

Segja má að Trip To Japan yfirfæri á Japansmarkað þá tæknivæðingu sem hefur átt sér stað í íslenskri ferðaþjónustu. „Þegar viðskiptahugmyndin var í mótun skoðuðum við japanska markaðinn mjög vandlega og sáum að ferðaþjónustan þar er mjög langt á eftir Íslandi þegar kemur að stafrænni þjónustu við gesti, og Ísland raunar mjög framarlega á heimsvísu,“ útskýrir Bolli og bætir við að margar stærstu ferðaskrifstofur Japans reiði sig enn þann dag í dag á faxtækið og hafi heilan her fólks að störfum við að púsla saman ferðum. Þetta geri keppinauta Trip To Japan mjög óskilvirka og skýri m.a. hvers vegna þeir rukka viðskiptavini sína um þjónustugjöld sem nema allt að þreföldu kaupverði þeirrar þjónustu og gistingar sem viðskiptavinurinn fær. „Við höfum náð að tengja Trip To Japan við bókunarkerfi ótal fyrirtækja og t.d. sýnir Trip To Japan í rauntíma hve mörg pláss eru laus hverju sinni og hvað afþreyingin eða gistingin kostar það skiptið. Hjá okkur fá viðskiptavinirnir mjög ítarlega ferðaáætlun og geta síðan haft aðgang að ferðaráðgjafa í Japan meðan á dvöl þeirra stendur.“

Bolli segir tímasetninguna hafa verið heppilega því verkefnið fór af stað um það leyti sem japönsk ferðaþjónusta var að ná að hrista af sér mestu skakkaföll kórónuveirufaraldursins. Á þeim tímamótum hófst starfslið fyrirtækisins handa við að hafa samband við jafnt stór sem smá ferðaþjónustufyrirtæki vítt og breitt um Japan. Viðtökurnar voru að vonum góðar og á skömmum tíma tókst að safna inn á vef Trip To Japan mjög breiðu vöruúrvali.

Hjálpa ferðalöngum að finna faldar perlur Japans

Skapar það Trip To Japan enn meiri sérstöðu að fyrirtækið reynir að hampa áfangastöðum sem hingað til hafa ekki verið fjölsóttir af ferðamönnum. Segir Bolli að aðstandendur félagsins langi með þessu að efla japanska dreifbýlið líkt og tekist hefur víða á Íslandi með stafvæðingu ferðaþjónustunnar: „Sú var tíð að nær allir ferðamenn sem heimsóttu Ísland fóru á sömu staðina: tóku Gullna hringinn og kannski Suðurlandið en lítið annað, en með því að taka tæknina í sína þjónustu tókst ferðaþjónustufyrirtækjum um allt Ísland að gera sig sýnilegri og laða gesti til afskekktari staða,“ útskýrir Bolli. „Ekki aðeins gerum við áhugaverða en lítt þekkta staði sýnilegri heldur bætum við upplýsingagjöfina því það á enn við um fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki utan stórborganna að þau miðla litlum sem engum upplýsingum á ensku og því hefur verið hægara sagt en gert fyrir aðra en heimamenn að ganga frá bókun. Við höfum jafnvel þurft að senda atvinnuljósmyndara á staðinn til að taka nógu góðar myndir vegna þess að myndefni fyrirtækjanna sem við vinnum með var ekki nógu gott, og þurftum við iðulega að fá sérfræðinga í textagerð til að skrifa betri lýsingar á þjónustunni.“

Sem fyrr segir hefur Trip To Japan farið mjög vel af stað og munar þar ekki síst um að tekist hefur að gera vefsíðuna mjög sýnilega svo pantanir streyma inn hvaðanæva úr heiminum. Markið er sett hátt og segir Bolli hreinlega stefnt að því að gera Trip To Japan á endanum að stærsta ferðaþjónustufyrirtæki Japans. Um er að ræða mjög stóran og ört vaxandi ferðaþjónustumarkað: árið 2011 sóttu aðeins sex milljónir manns landið heim, en gestakomum fjölgaði upp í 32 milljónir árið 2019. „Seint á árinu 2022 opnaðist Japan aftur að fullu eftir covid-19 og í fyrra voru erlendir ferðamenn 25 milljón talsins, en stjórnvöld hafa sett markið á að þeir verði um 60 milljónir árlega áður en langt um líður,“ segir Bolli. „Landið getur tekið á móti miklum fjölda gesta og hefur OECD bent á að það hafi betri ferðaþjónustuinnviði en nokkurt land, en það sem hefur vantað þar til nú eru stafrænu innviðirnir.“

Bolli segir að hingað til hafi ekki verið lögð áhersla á íslenska ferðamenn hjá Trip To Japan: „Við vildum byrja á að búa til bókunarsíðu sem fólk alls staðar að úr heiminum er tilbúið að nota. Með þeirri nálgun hefur okkur tekist að selja yfir 500 ferðir á mjög stuttum tíma. En nú nýlega eru Íslendingar byrjaðir að sjá okkur í leitarvélum og panta á síðunni okkar. Stórir íslenskir hópir eru einnig að biðja okkur að skipuleggja ferðir sínar.“

Gullið
tækifæri

Japanski ferðaþjónustugeirinn hefur verið seinn að nýta sér möguleika tækninnar.

Sumar stóru japönsku ferðaskrifstofurnar reiða sig enn á faxtæki.

Íslensk ferðaþjónusta er aftur á móti mjög tæknivædd og hægt að nota Ísland sem fyrirmynd.

Japansmarkaður er risavaxinn en 25 milljónir manna heimsóttu landið í fyrra og stefna stjórnvöld á 60 milljónir gesta árlega.

Japönsk ferðaþjónustufyrirtæki eru að rétta úr kútnum og tóku mjög vel í að vera á skrá hjá Trip To Japan.

Sterkur hópur á bak við fyrirtækið sem tvinnar saman íslenska og japanska þekkingu.