Meistarar Leikmenn Magdeburg fögnuðu meistaratitlinum í leikslok í gær.
Meistarar Leikmenn Magdeburg fögnuðu meistaratitlinum í leikslok í gær. — Ljósmynd/Magdeburg
Þýskalandsmeistararnir í Magdeburg tóku við meistaraskildinum á heimavelli í gær eftir að hafa sigrað Wetzlar, 37:34, í lokaumferð 1. deildarinnar í handbolta á heimavelli sínum í Bördeland-höllinni

Þýskaland

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þýskalandsmeistararnir í Magdeburg tóku við meistaraskildinum á heimavelli í gær eftir að hafa sigrað Wetzlar, 37:34, í lokaumferð 1. deildarinnar í handbolta á heimavelli sínum í Bördeland-höllinni.

Magdeburg vann þar með 30 af 34 leikjum sínum á tímabilinu og tapaði aðeins tveimur en liðið fékk 62 stig, sex stigum meira en Füchse Berlín sem hafnaði í öðru sæti.

Janus Daði Smárason skoraði sjö mörk fyrir Magdeburg en hann fagnar nú meistaratitli í fjórða landinu á átta árum. Hann hefur áður orðið norskur meistari með Kolstad, danskur meistari með Aalborg og Íslandsmeistari með Haukum.

Þetta er annar sigur Magdeburg á þremur árum en þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson urðu einnig meistarar með liðinu árið 2022. Þeir eru einnig bikarmeistarar í ár og freista þess um næstu helgi að vinna Meistaradeild Evrópu annað árið í röð. Ómar skoraði þrjú mörk gegn Wetzlar en Gísli var ekki með.

Janus kveður Magdeburg eftir Meistaradeildarhelgina en hann hefur samið við Pick Szeged frá Ungverjalandi.

Tveir kvöddu með níu mörkum

Teitur Örn Einarsson kvaddi Flensburg með því að skora níu mörk í útisigri á Bergischer, 40:30. Teitur gengur til liðs við Gummersbach í sumar. Flensburg tryggði sér þriðja sætið með 50 stig en Bergischer, undir stjórn Arnórs Þórs Gunnarssonar á lokasprettinum, varð næstneðst með 20 stig og féll með tapinu í gær.

Gummersbach vann Göppingen, 33:32, og fékk 43 stig í sjötta sæti, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, og náði þar með Evrópusæti. Arnór Snær Óskarsson skoraði tvö mörk fyrir Gummersbach í leiknum en Arnór Snær Óskarsson ekkert.

Oddur Gretarsson skoraði líka níu mörk í kveðjuleik sínum með Balingen sem vann Hamburg 37:30. Oddur flytur nú til Akureyrar og gengur til liðs við Þór. Daníel Þór Ingason skoraði ekki fyrir Balingen sem var þegar fallið og varð neðst með aðeins 13 stig.

Sjö frá Viggó gegn Löwen

Viggó Kristjánsson skoraði sjö mörk fyrir Leipzig og Andri Már Rúnarsson eitt þegar Leipzig sigraði Rhein-Neckar Löwen 29:24. Ýmir Örn Gíslason skoraði ekki fyrir Löwen en hann gengur til liðs við Göppingen í sumar. Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, endaði í 8. sæti með 33 stig en Löwen í 12. sæti með 26 stig.

Melsungen gerði jafntefli við Kiel, 23:23, og hafnaði í fimmta sæti með 44 stig en Kiel varð fjórða með 47 stig. Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson léku ekki með Melsungen vegna meiðsla.

Hannover-Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, vann Erlangen, 27:23, og endaði í sjöunda sæti með 39 stig.