Fiskeldi Eldisfyrirtækið First Water amast við mölunarverksmiðju.
Fiskeldi Eldisfyrirtækið First Water amast við mölunarverksmiðju. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ekkert verður af því að skipt verði um nafn á sveitarfélaginu Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en sú varð niðurstaða íbúakosningar sem fram fór í sveitarfélaginu samhliða forsetakosningunum á laugardag. Atkvæði féllu þannig að 199 eða 58,7% kjósenda…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ekkert verður af því að skipt verði um nafn á sveitarfélaginu Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en sú varð niðurstaða íbúakosningar sem fram fór í sveitarfélaginu samhliða forsetakosningunum á laugardag.

Atkvæði féllu þannig að 199 eða 58,7% kjósenda vildu halda nafni sveitarfélagsins óbreyttu, en 131 eða 38,6% vildi skipta um nafn þess. Auðir kjörseðlar og ógildir voru níu talsins. Á kjörskrá voru 462 íbúar sveitarfélagsins, en alls kusu 339 sem er 73,37% kjörsókn.

Til stóð að halda íbúakosningu í Ölfusi sem ljúka átti á laugardag, en henni var frestað um óákveðinn tíma.

Kjósa átti um hvort breyta ætti aðal- og deiliskipulagi og heimila byggingu mölunarverksmiðju Heidelberg innan grænna iðngarða á lóð milli landeldisfyrirtækjanna Geo Salmo og Þórs. Babb kom í bátinn þegar laxeldisfyrirtækið First Water lagðist gegn áformunum.

Í samtali við Morgunblaðið segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss að sérfræðingar hafi verið fengnir til að meta gildi áhyggja fyrirtækisins og boðað verði til kosninga að þeirri vinnu lokinni. „Það er algerlega ljóst að ekki verður byggð mölunarveksmiðja í sveitarfélaginu án undangenginnar íbúakosningar,“ segir Elliði