Forsetafjölskylda Halla Tómasdóttir, Björn Skúlason og börn þeirra Tómas Bjartur og Auður Ína í stofunni heima.
Forsetafjölskylda Halla Tómasdóttir, Björn Skúlason og börn þeirra Tómas Bjartur og Auður Ína í stofunni heima. — Morgunblaðið/Eggert
Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, var full þakklætis þegar hún ávarpaði þjóðina fyrir utan heimili sitt í miðbæ Reykjavíkur í gær. Nokkuð snemma nætur var ljóst að Halla yrði nýr forseti, en eftir að fyrstu tölur höfðu verið kynntar í…

Anna Rún Frímannsdóttir

Sonja Sif Þórólfsdóttir

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, var full þakklætis þegar hún ávarpaði þjóðina fyrir utan heimili sitt í miðbæ Reykjavíkur í gær. Nokkuð snemma nætur var ljóst að Halla yrði nýr forseti, en eftir að fyrstu tölur höfðu verið kynntar í öllum kjördæmum var hún með gott forskot á Katrínu Jakobsdóttur fyrrverandi forsætisráðherra.

„Það er heiður lífs míns að fá að verða ykkar forseti þann 1. ágúst næstkomandi,“ sagði Halla er hún kom fram á svölunum. Á þriðja hundrað stuðningsmanna Höllu var saman komið í garðinum við Klapparstíg.

„En þessum heiðri fylgir líka ábyrgð og ég mun mæta þeirri ábyrgð af fullri alvöru. Ég stend á öxlum þeirra sem byggðu þetta samfélag og lyftu því úr fátækt í fyrirmynd á ótalmörgum sviðum,“ sagði Halla enn fremur í ávarpi sínu.

Í viðtali við Morgunblaðið kveðst Halla vilja sameina þjóðina og vera forseti allra, jafnvel þeirra sem ekki kusu hana. Hún hlaut alls 34,1% atkvæða, litlu meira en Vigdís Finnbogadóttir árið 1980, en hún hlaut 33,8% atkvæða.

Bauð fram í annað sinn

Halla bauð sig einnig fram til embættis forseta Íslands árið 2016 og þrátt fyrir að vinna sér inn talsvert fylgi síðustu daga fyrir kosningar bar hún ekki sigur úr býtum. Hún segir í viðtali við Morgunblaðið að hún hafi þurft að sýna mikið hugrekki til að bjóða sig fram aftur, og mikið hugrekki til þess að halda áfram nú í vor, þegar margir töldu hana hafa misreiknað sig með því að bjóða sig aftur fram.

„Eins og þegar fólk var að segja að ég væri að misreikna mig og þetta gæti jafnvel komið illa út fyrir mig ef það gengi ekki nógu vel en ég hafði ekki áhyggjur af því. Þegar ákvörðunin var tekin var ég alveg viss í mínu hjarta að ég ætti erindi og mín sýn á embættið myndi finna sinn farveg þegar fleiri fengju tækifæri til þess að hitta mig,“ segir Halla.

Síðustu kosningaspár og fylgiskannanir sem gerðar voru vikuna fyrir kosningar bentu til þess að gríðarlega mjótt yrði á munum milli Höllu og Katrínar, en svo varð ekki.

„Ég átti von á að það yrði mjög mjótt á mununum og kosninganóttin yrði enn meira spennandi, það er að segja ég gerði fastlega ráð fyrir því, en ég fann síðustu daga og vikur einhverja svona orku í loftinu. Alls staðar þar sem við héldum fundi þurftum við að bæta við stólum og tvöfalda rýmið svo ég fann þennan vaxandi meðbyr og vissi að það væri ekkert ólíklegt að svipað myndi gerast og gerðist árið 2016, að það kæmi meira upp úr kjörkössunum en könnunum. Ég var alveg undirbúin fyrir það,“ segir Halla.

Önnur konan í Íslandssögunni

Halla verður, líkt og flestir vita, önnur konan til að gegna embætti forseta Íslands og svarar hún því aðspurð að gríðarlega mikilvægt sé að konur séu fyrirmyndir og gegni slíkri stöðu.

„Það skiptir sköpum að mínu mati. Ég er ótrúlega stolt af því að í þremur efstu sætunum, af þessum tólf frambjóðendum, séu konur. Ég er stolt fyrir hönd Íslands að sex af tólf frambjóðendum hafi verið konur og ég held að það út af fyrir sig veki athygli. Ungar konur í framboðinu mínu hafa sagt að það sé jafnvel hvergi annars staðar sem kona hafi verið kjörin öðru sinni í beinni lýðræðislegri kosningu, að þetta sé oft bara undantekningin, þetta hafi gerst einu sinni,“ segir hún en tekur fram að hún hafi þó ekki haft tækifæri til að sannreyna það.

„En við vorum svo mikil fyrirmynd fyrir umheiminn árið 1980 þegar við höfðum hugrekki til að kjósa Vigdísi og hún var mér og minni kynslóð svo mikil fyrirmynd. Ég held að við séum þegar í forystu fyrir kynjajafnrétti á Íslandi og ég vonast til þess að sinna því verkefni mjög vel, bæði innan samfélagsins og utan,“ segir Halla og bætir því við að hún hafi líka vakið athygli á vaxandi vanda í kringum stöðu drengja og karla.

Jafnréttisforseti

„Ég vil vera jafnréttisforseti sem hugsar um jafnrétti í víðasta skilningi þessa orðs, jafnrétti fyrir Íslendinga af erlendum uppruna, jafnrétti óháð fjárhagsstöðu og búsetu, óháð kyni og svo framvegis,“ segir Halla og kveðst hugsa um jafnrétti sem stórt og mikilvægt hugtak. „Ég held að umhyggja, sem ég held að konur komi gjarnan með meira af að borðinu, og áhersla á frið sé jafnvel eitthvað sem við þurfum meira af. Eigum við ekki að segja að ég vilji að við verðum áfram hugrökk fyrirmynd hvað varðar jafnréttismál og ekki síður hvað varðar frið.“