[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki er hægt að segja annað en að úrslit forsetakjörsins hafi komið mönnum á óvart, þótt margir hafi áttað sig á því hvernig straumar lægju. Enginn átti hins vegar von á því hve ört fylgi Höllu Tómasdóttur jókst síðustu dægrin, meðan fylgi Katrínar Jakobsdóttur stóð í stað

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Ekki er hægt að segja annað en að úrslit forsetakjörsins hafi komið mönnum á óvart, þótt margir hafi áttað sig á því hvernig straumar lægju. Enginn átti hins vegar von á því hve ört fylgi Höllu Tómasdóttur jókst síðustu dægrin, meðan fylgi Katrínar Jakobsdóttur stóð í stað. Með þeirri afleiðingu að Halla fékk um níu prósentustigum meira fylgi í forsetakjörinu sjálfu.

En þá eru menn auðvitað að miða við kannanirnar allar, sem birtust í hrönnum, alls um þrjátíu talsins. Á endanum er það aðeins könnunin í kjörklefanum, sem skiptir máli. En voru kannanirnar allar úti að aka?

Líkt og sjá má af línuritinu var talsvert flökt á milli kannana, sem t.d. sýndi að Prósent mældi Katrínu skipulega með minna fylgi en önnur rannsóknarfyrirtæki, en virtist um hríð mæla Höllu Hrund með eilítið meira en hin. Samt sem áður má vel sjá hina almennu strauma í fylgisþróuninni, þótt ein og ein mæling virðist hafa verið á jaðrinum.

Það er hins vegar ekki fyrr en undir blálokin sem fylgið fer að stokkast verulega til, einmitt vegna „taktískrar“ kosningar, sem ekki eru skýr merki um fyrr en í kjörklefanum. Þó má nefna að könnun Maskínu daginn fyrir kjördag, sem ekki var birt til þess að hafa ekki áhrif á kjördag, sýndi þessa hreyfingu, en þó ekki alla.

Í könnunum Prósents var reynt að grafast fyrir um þennan möguleika, m.a. með því að spyrjast fyrir um hvern annan menn helst gætu hugsað sér að kjósa fyrir utan „sinn mann“. Þar hafði Baldur Þórhallsson vinninginn í upphafi, síðan Halla Hrund Logadóttir en loks fór Halla Tómasdóttir fram úr hinum. Allt endurspeglaði það hvaða frambjóðandi var líklegastur til þess að bera sigurorð af Katrínu Jakobsdóttur.

Áreiðanleiki pólitískra skoðanakannana hefur víða verið til umræðu undanfarin ár, en jafnvel virtustu rannsóknarfyrirtæki heims hafa orðið fyrir því að spá rangt fyrir um kosningar, þar sem úrslitin voru þó jafnvel mjög afdráttarlaus.

Ýmsar tilgátur eru um ástæðurnar, en oft er bent á að netkannanir hafi víða leyst hefðbundnar úthringikannanir af hólmi, af því að þær eru svo miklu, miklu ódýrari og fljótlegri í framkvæmd.

Þar hefur helst valdið vanda að fólk er orðið tregara til þess að taka þátt í könnunum en fyrr og svarhlutfall yfirleitt um 50%. Sem aftur reynir meira á hversu vel úrtakið endurspeglar þjóðina, þótt reynt sé að vinna gegn því með því að auka eða minnka vægi tiltekinna hópa svo svarendur séu áþekkir þjóðinni.

Skoðanakannanir

Um 30 kannanir voru gerðar fyrir forsetakjörið.

Gallup, Maskína og Prósent gerðu langflestar þeirra.

Munur gat verið á fylgismælingu rannsóknarfyrirtækjanna en fylgisþróunin var áþekk.

Fylgið virtist vera orðið nokkuð stöðugt undir lok kosningabaráttu en reyndist vera á fleygiferð.