Vegur Þótt skuldir hafi hækkað nokkuð milli ára sjást batamerki í rekstri, segir Bragi Bjarnason um krefjandi stöðu í rekstri sveitarfélagsins.
Vegur Þótt skuldir hafi hækkað nokkuð milli ára sjást batamerki í rekstri, segir Bragi Bjarnason um krefjandi stöðu í rekstri sveitarfélagsins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við höfum náð ágætu jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins, þótt skuldir séu áfram miklar. Með varfærni í fjárfestingum og meiri tekjum, sem að nokkru eru óvæntar, erum við komin á miklu betri stað en var,“ segir Bragi Bjarnason sem síðastliðinn laugardag, 1

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Við höfum náð ágætu jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins, þótt skuldir séu áfram miklar. Með varfærni í fjárfestingum og meiri tekjum, sem að nokkru eru óvæntar, erum við komin á miklu betri stað en var,“ segir Bragi Bjarnason sem síðastliðinn laugardag, 1. júní, tók við starfi bæjarstjóra Sveitarfélagsins Árborgar. Fyrir lá samkomulag um að Bragi myndi taka við þessu starfi, en Fjóla St. Kristinsdóttir, sem gegndi starfinu til skamms tíma, vildi þó sitja áfram. Slíkt fékk ekki hljómgrunn og fór því svo að Fjóla yfirgaf meirihluta Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn en í hennar stað kom bæjarfulltrúi framboðsins Áfram Árborg, Álfheiður Eymarsdóttir.

Batamerki í rekstrinum

„Þegar væringar komu upp í meirihlutanum var mikilvægt að eyða allri óvissu sem fyrst þannig að ekki kæmi rask á daglega starfsemi sveitarfélagsins. Samstarfið við Áfram Árborg síðustu misserin hefur verið afar gott og sýn fólks á hlutina svipuð. Að fara saman í meirihluta þegar þær aðstæður sköpuðust lá því í raun beint við,“ segir Bragi.

Skuldir bæjarsjóðs Árborgar eru nú um 30 ma.kr., sem er nærri því hámarki sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga heimilar. Samkvæmt því mega þær aldrei fara yfir 150% af tekjum sveitarfélagsins á einu ári.

„Þótt skuldir hafi aukist nokkuð milli ára sjást batamerki í rekstrinum. Í fyrra gerðum við ráð fyrir að taprekstur ársins 2023 yrði 1,7 ma.kr. en niðurstaðan varð 420 m.kr. betri en við reiknuðum með. Í ár áætlun við að niðurstaðan verði 35 m.kr. í plús, sem er vel raunhæft, samanber að lausafjárstaðan er ágæt og þörf á lánsfé minni en var. Ég vonast því til að við getum strax á næsta ári horfið frá því að vera með álag á útsvarinu, sem í dag er 16,44%. Svo hár má þessi annars mikilvægi tekjustofn ekki vera nema í skamman tíma,“ segir Bragi og heldur áfram:

„Annars munar mjög um nú að komið er gott tak og yfirsýn í daglegum rekstri, íbúum hefur fjölgað og útsvarstekjur þar með aukist. Þá hefur verið seldur byggingarréttur í Björkurstykki, einu nýjasta hverfi bæjarins, og það eru fjármunir sem við gerðum ekki ráð fyrir í áætlunum, enda er slík sala alltaf óvissu háð. Þessi sala skilaði okkur 1,2 mö.kr. í meiri tekjur. Hugsanlega gæti aukið byggingarmagn á sama reit skilað einhverjum hundruðum milljóna til viðbótar. En vissulega er þetta ekki bara fundið fé, því fólksfjölgun og atvinnustarfsemi fylgir eðlilega innviðauppbygging. Núna fyrir nokkrum dögum fannst heitt vatn í vel virkjanlegum mæli hér á bökkum Ölfusár, skammt frá brúnni. Slíkt er líkast happdrættisvinningi, svo tilfinnanlega vantaði orðið meira vatn inn á kerfið hér í bæ eftir uppbyggingu síðustu ára.“

Samfélagsgerðin verður fjölbreyttari

Íbúar í Árborg, það er á Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka og sveitunum í allra næsta nágrenni þar, eru nú rétt um 12.000. Fyrir áratug voru íbúarnir tæplega 8.000 og lætur því nærri að fjölgunin á þessu tímabili sé um þriðjungur. Þetta hefur kostað sitt og margs er krafist, svo sem gatnagerðar og uppbyggingar skóla, íþróttamannvirkja og annars. Núna segir Bragi að sveitarfélagið sé hins vegar ágætlega búið til næstu framtíðar en þó vissulega þurfi að fara í ákveðnar fjárfestingar og viðhaldsþörf á næstu árum, rétt eins og alltaf er.

Stekkjaskóli, sem er syðst og vestast á Selfossi, hefur verið reistur í áföngum og er senn fullbyggður. Verður þá heildstæður skóli frá 1. bekk upp í þann 10. „Þar með erum við ágætlega sett í grunnskólamálum í bili. Almennt sýnist mér að fjölgun íbúa hér, um 600 til 800 manns á ári, sé sveitarfélaginu vel viðráðanleg. Líklegt er einmitt að tölurnar verði á því róli samkvæmt ýmsum þeim gögnum sem liggja fyrir,“ segir bæjarstjórinn.

Verslun, iðnaður og þjónusta í fjölbreyttri mynd eru hryggjarstykkið í atvinnulífinu á Selfossi. Vöxtur hefur á löngu tímabili hefur verið hægur og jafn, sem Bragi telur hafa skapað sterkari undirstöður en ella væri.

„Selfoss byggðist á sínum tíma upp á þjónustu við landbúnaðinn, sem í dag hefur kannski ekki sama vægi og var. Á móti hefur komið að ferðaþjónustan hefur eflst og slíkt er ávinningur margs hér á Selfossi nú. Samfélagsgerðin er annars alltaf að verða fjölbreyttari og við því þarf að bregðast. Verkefnin í sveitarfélagi eins og hér sem er í hraðri uppbyggingu eru óendanleg.“

Staðfesta og sanngirni

Bragi Bjarnason hafði starfað hjá sveitarfélaginu Árborg í meira en áratug þegar hann ákvað að stíga skrefi lengra. Gefa kost á sér í prófkjöri, fékk þar góðan stuðning og var í framhaldinu kjörinn fulltrúi i bæjarstjórn.

„Mig langaði til þess að reyna mig í nýjum verkefnum en vinna þó áfram hjá Árborg. Stjórnmálin komu því eiginlega til mín. Bæjarstjórastarfið er vissulega ögrandi en spennandi. Ég hef afar gaman af öllum samskiptum við fólk og því að finna lausnir á málum. Ég tek því við starfinu með þau fyrirheit að hlusta á fólk, vera staðfastur, framsýnn og sanngjarn þar sem sameiginlegir hagsmunir íbúa og sveitarfélagsins verða ávallt í forgrunni.“

Hver er hann?

Bragi Bjarnason fæddist árið 1981 og er frá bænum Selalæk á Rangárvöllum. Er menntaður íþróttafræðingur, með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Hefur starfað lengi hjá Árborg og var meðal annars deildarstjóri frístunda- og menningardeildar. Vann þá að íþrótta-, frístunda-, forvarna-, viðburða-, markaðs- og ferðaþjónustumálum sveitarfélagsins.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg frá 2022 og formaður bæjarráðs sl. tvö ár. Er kvæntur Eygló Hansdóttur íþróttafræðingi og þau eiga þrjú börn.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson