Iðunn Andrédóttir
idunn@mbl.is
„Þetta er svona alvöruhret, ekkert eitthvað sem fýkur bara yfir okkur eins og er með sum af þessum hretum,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni.
Eins og fjallað hefur verið um er veðurspá ekki sumarþyrstum landsmönnum í hag og má gera ráð fyrir löngu og óvenjulegu hreti fram á fimmtudag.
„Það er vegna þess að lægðin hér fyrir norðan – hún er að hringsnúast um sig sjálfa,“ segir Einar.
Hann segir óvenjulegt ð kalda loftið sem berist úr norðri sé ansi rakt. Alla jafna sé norðurskautsloft töluvert þurrt og fremur lítil úrkoma með því norðanlands.
Á kortum yfir rakaflæði megi sjá að rakinn hafi myndað eins konar línu frá Bretlandsskaga og Evrópu og komi því aftan frá. Rakinn sé því upprunninn á heitari svæðum en berist í veg fyrir kalda loftið eftir krókaleiðum. Úr verði aukin úrkoma með kuldanum, sem sé heldur óvenjulegt fyrir þennan árstíma.
„Þetta minnir mann frekar á veður sem maður sér á haustin. Rakt og kalt,“ segir Einar og bætir við að framhaldið sé enn óráðið.
Hundleiðinlegt sé að kljást við veður sem þetta á þessum árstíma enda geti það haft slæm áhrif á lífríki fugla og gróðurs svona snemma sumars.
Spurður um orsök lægðarinnar kveðst hann fyrst og fremst telja um óheppilegt og tilviljanakennt stefnumót nokkurra þátta að ræða.
Segir hann þó vert að taka fram að hitamet hafi verið slegin víða í Skandínavíu í maí. Öfgum á einum stað fylgi oft öfgar annars staðar.