Íbúar sameinaðs sveitarfélags Vesturbyggðar og Tálknafjarðar hafa um sex nöfn að velja í skoðanakönnun um hvað sveitarfélagið nýja skuli heita. Nöfnin eru Barðsbyggð, Kópsbyggð, Látrabyggð, Suðurfjarðabyggð, Tálknabyggð og Vesturbyggð. Er þetta samkvæmt þeim meðmælum sem örnefnanefnd kom með. Könnunin mun fara fram í gegnum vefinn betraisland.is og niðurstöðurnar verða notaðar til hliðsjónar við ákvörðun um nafn.
Sveitarfélagið nýja nær frá Barðaströnd út að Látrabjargi í vestri og spannar svo Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal sem stendur við Arnarfjörð. Íbúar eru 1.356. Sjávarútvegur og fiskeldi eru burðarásar byggðar á þessum slóðum, landbúnaður og nú ferðaþjónusta.
Fyrsti fundur sveitarstjórnar var fyrir helgi. Þar var Gunnþórunn Bender skipuð formaður og Páll Vilhjálmsson formaður bæjarráðs. Þá voru á sama fundi skipaðir fulltrúar bæjarstjórnar í heimastjórnir innan sveitarfélagsins. Tryggvi Baldur Bjarnason verður fulltrúi í heimastjórn Patreksfjarðar, Gunnþórunn Bender í Tálknafjarðarnefnd, Jenný Lára Magnadóttir í Arnarfjarðarstjórn og Maggý Hjördís Keransdóttir verður í stjórn gömlu Barðastrandar- og Rauðasandshreppa. sbs@mbl.is